logo-for-printing

14. mars 2012

Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa evrur og íslenskar krónur

Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321. Jafnframt kallar Seðlabanki Íslands eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðin þrjú eru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011 og einnig skilmála Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið að losun gjaldeyrishafta frá 18. nóvember 2011 með síðari breytingum.

Seðlabankinn býðst til að kaupa 100 milljónir evra samanlagt í gjaldeyriskaupaútboðunum tveimur. Útboðsfjárhæðin er háð þeim fyrirvara að hún er sameiginleg báðum útboðum og kann því að taka endanlegt mið af því.

Í krónukaupaútboðinu býðst Seðlabankinn til að kaupa 25 ma.kr gegn greiðslu í evrum. Viðskiptavökum á millibankamarkaði með gjaldeyri er boðið að hafa milligöngu um viðskiptin.

Seðlabankinn áskilur sér rétt til að hækka eða lækka fyrrgreindar útboðsfjárhæðir.

Samhliða útboðunum mun Seðlabankinn, fyrir hönd ríkissjóðs, bjóðast til að kaupa til baka krónuskuldabréf ríkissjóðs sem falla á gjalddaga fyrir lok maí 2013 (sjá frétt frá Lánamálum ríkisins, samanber viðhengi).

Tilteknir aðalmiðlarar á skuldabréfamarkaði hafa milligöngu um viðskipti í útboðinu gegn greiðslu í ríkisverðbréfum, en yfirlit um þá má finna á heimasíðu Seðlabankans. Fjármálafyrirtæki sem gert hafa samstarfssamning við Seðlabanka Íslands um milligöngu (upptalning hér að neðan) munu annast framlagningu umsókna um fyrirhugaða þátttöku fjárfesta í útboðinu samkvæmt fjárfestingarleiðinni. Útboðið er opið fjárfestum sem hafa fengið samþykkta umsókn um þátttöku í fjárfestingarleið.

Tilboðum skal skilað eigi síðar en 28. mars 2012. Nánari lýsingu á framkvæmd útboðanna þriggja er að finna í útboðsskilmálum.

Markmið þessara aðgerða er að selja krónur fyrir gjaldeyri til aðila sem ákveðið hafa að fjárfesta í íslensku atvinnulífi eða í skuldabréfum ríkissjóðs sem verða í vörslu í 5 ár. Aðgerðin stuðlar þannig að því að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga með þeim hætti úr endurfjármögnunarþörf auk þess að laða til landsins erlendan gjaldeyri í langtímafjárfestingar og auðvelda þannig losun gjaldeyrishafta.

Útboðinu um kaup á krónum er ætlað að stuðla að því að fjárfestar geti selt krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Lausafjárstaða bankanna er nægilega sterk til þess að standast tilfærslur á þeirri krónufjárhæð sem Seðlabankinn býðst til að kaupa og með ofangreindum endurkaupum á ríkisbréfum er dregið úr mögulegum hliðaráhrifum viðskiptanna á skuldabréfamarkað.

Samkvæmt útboðsáætlun Seðlabankans er síðan stefnt að útboðum 9. maí og 20. júní.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Fylgiskjöl:

Útboðsskilmálar vegna kaupa Seðlabanka Íslands á erlendum gjaldeyri í skiptum fyrir ríkisverðbréf. Viðskiptadagur: 28. mars 2012:
Útboðsskilmálar MEÐ KVÖÐUM_Ríkisverðbréf_28032012

Útboðsskilmálar vegna kaupa Seðlabanka Íslands á erlendum gjaldeyri samkvæmt fjárfestingarleið. Viðskiptadagur: 28. mars 2012:
Útboðsskilmálar MEÐ KVÖÐUM_Fjárfestingarleið_28032012

Útboðsskilmálar vegna kaupa Seðlabanka Íslands á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Viðskiptadagur: 28. mars 2012:
Útboðsskilmálar_íslenskar krónur fyrir gjaldeyri_28032012

Áætlun Seðlabanka Íslands um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011

Skilmálar um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið að losun gjaldeyrishafta (með breytingum. Birt fyrst 18.11.2011):
Skilmálar um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið_28032012

Sjá ennfremur:

Frétt um fjárfestingarleiðina frá 18.11.2011

 

 

Nr. 10/2012
14. mars 2012

Til baka