logo-for-printing

08. mars 2012

Seðlabanki Íslands selur gjaldeyri á millibankamarkaði

Seðlabanki Íslands seldi í dag 12 milljónir evra á millibankamarkaði. Óvenjumikið útstreymi hefur verið á gjaldeyri að undanförnu og telur Seðlabankinn það ástand tímabundið. Undanþágur frá gjaldeyrislögum sem bankinn hefur veitt nýlega hafa haft í för með sér umtalsverð gjaldeyriskaup á markaði. Áhrif á gengi krónunnar hafa orðið töluverð þar sem kaupin koma fram á sama tíma og innstreymi gjaldeyris vegna utanríkisviðskipta er í minna lagi og afborganir af erlendum lánum hafa verið miklar.

Óæskilegt er að slíkar tímabundnar hreyfingar hafi mikil áhrif á gengi krónunnar. Áður hefur Seðlabankinn keypt töluverðan gjaldeyri af fjármálafyrirtækjum í einstökum viðskiptum auk gjaldeyris sem bankinn kaupir í viku hverri. Aðgerðin í dag er í samræmi við þá stefnu Seðlabankans að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði þegar þörf krefur í því skyni að draga úr gengissveiflum.

Nánari upplýsingar veitir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri í síma 569-9600.

Nr. 9/2012
6. mars 2012

Til baka