logo-for-printing

01. mars 2012

Könnun Seðlabanka Íslands á væntingum markaðsaðila á fyrsta ársfjórðungi 2012

Seðlabanki Íslands mun frá og með fyrsta ársfjórðungi 2012 framkvæma ársfjórðungslegar kannanir á væntingum markaðsaðila til ýmissa hagstærða, s.s. verðbólgu og vaxta. Könnunin sækir fyrirmyndir sínar í kannanir sem eru framkvæmdar af seðlabönkum víða erlendis. Fyrsta könnunin var framkvæmd dagana 13. - 17. febrúar sl. Leitað var til alls 27 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Könnunin skiptist í tvo hluta, væntingar til skamms tíma og væntingar til langs tíma. Spurningar um væntingar til skamms tíma lúta að þróun ýmissa hagstærða á næstu tveimur árum á meðan langtímaspurningarnar snúa að væntingum til fimm og tíu ára. Svör fengust að þessu sinni frá 20 aðilum og var svörun því 74,1%.

Niðurstöður úr fyrstu könnun ársins 2012 eru nú aðgengilegar á vef bankans. Sjá: Væntingakönnun markaðsaðila
 Niðurstöður könnunarinnar sýna að markaðsaðilar gera ráð fyrir því að verðbólga hjaðni á næstu tveimur árum og verði 5% eftir tólf mánuði og 4,7% eftir tvö ár, en hún mældist 6,5% þegar könnunin var send markaðsaðilum. Sé litið til lengri tíma gera markaðsaðilar ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4,3% næstu tíu ár. Markaðsaðilar vænta þess að stýrivextir Seðlabanka Íslands hækki um 0,75 prósentur það sem eftir lifir ársins og um 0,25 prósentur til viðbótar á fyrsta fjórðungi næsta árs. Samkvæmt þessu yrðu veðlánavextir Seðlabanka Íslands um 5,75% í lok mars 2013 en þeir eru nú 4,75%.

Væntingakönnun markaðsaðila verður næst birt 23. maí 2012.

Nánari upplýsingar veitir Magnús Guðmundsson hagfræðingur í Seðlabanka Íslands í 569-9600.

Nr. 8/2012
1. mars 2012

Til baka