logo-for-printing

03. janúar 2012

Síðustu hlutar lána frá Norðurlöndum greiddir til Íslands

Í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda sem studd var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og lauk á sl. ári var samið um tvíhliða lán frá Norðurlöndunum til Íslands. Hinn 30. desember 2011 voru síðustu hlutar þessara lána greiddir til Íslands. Um er að ræða 887,5 milljónir evra (um 141 milljarður króna á núverandi gengi) og bætist sú fjárhæð við gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Af þessari fjárhæð tekur ríkissjóður að láni 647,5 milljónir evra (um 103 ma.kr.) frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, en Seðlabanki Íslands tekur að láni 240 milljónir evra (um 38 ma.kr.) frá Seðlabanka Noregs.

Frá því í október 2008 hefur Ísland tekið lán sem nema samanlagt um 753 ma.kr. í því skyni að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Gjaldeyrisforðinn í heild nemur um þessar mundir 1.030 ma.kr. eða 2/3 af vergri landsframleiðslu. Gjaldeyrisforði að frádregnum gjaldeyrisinnstæðum annarra en ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands og samningsbundnum afborgunum lána ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands næstu 12 mánuði nemur hins vegar um 40% af landsframleiðslu. Á þennan mælikvarða hefur gjaldeyrisforðinn aldrei verið meiri í sögu þjóðarinnar. Það breytir því hins vegar ekki að gjaldeyrisforðinn er að fullu skuldsettur þegar tillit er tekið til allra lána sem tekin hafa verið á undanförnum árum í því skyni að styrkja forðann.

Vaxtagreiðslur af gjaldeyrislánum ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands eru áætlaðar 33 ma.kr. á þessu ári. Á móti þessum vaxtagreiðslum koma vaxtatekjur vegna ávöxtunar forðans, en áætlað er að hreinn vaxtakostnaður af forðanum sé um 3-4%, en það samsvarar um 1½-2% af landsframleiðslu. 
Í ljósi óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og í ljósi áforma um losun gjaldeyrishafta er mikilvægt fyrir Ísland að vera með stóran gjaldeyrisforða um þessar mundir þrátt fyrir umtalsverðan kostnað við forðahaldið. Þegar aðstæður breytast er vonast til að hægt verði að minnka gjaldeyrisforða jafnframt því sem unnið verður að því að draga úr skuldsetningu hans.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600. 

Nr. 1/2012 
3. janúar 2012

Til baka