logo-for-printing

01. desember 2011

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á þriðja ársfjórðungi 2011

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2011 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins. 

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 11,7 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi samanborið við 32,1 ma.kr. óhagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 33,5 ma.kr. og 27,3 ma.kr. á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 47,6 ma.kr. 

Halla á þáttatekjum má eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 44,4 ma.kr. og tekjur 17 ma.kr. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 21,6 ma.kr. og viðskiptajöfnuður hagstæður um 39,1 ma.kr. 

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.529 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.671 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.142 ma.kr. og lækka nettóskuldir um 361 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.529 ma.kr. og skuldir 3.361 ma.kr. og var hrein staða þá neikvæð um 833 ma.kr. 

Endurskoðun á framsetningu þáttatekna 
Framsetning á vaxtatekjum og gjöldum fyrirtækja í beinni fjárfestingu hefur verið endurskoðuð. Áhrif á þáttatekjujöfnuð eru engin. Einungis er um að ræða tilfærslu milli tekna og gjalda. Fyrri framsetning var ekki í fullu samræmi við þá aðferðafræði sem aðildarþjóðir AGS hafa komið sér saman um. 

Áður voru tekjur og gjöld vegna lánaviðskipta milli innlendra aðila og erlendra fyrirtækja í þeirra eigu nettuð út og færð tekjumegin í þáttatekjujöfnuð. Á sama hátt voru tekjur og gjöld vegna lánaviðskipta milli erlendra aðila og innlendra fyrirtækja í þeirra eigu nettuð og færð gjaldamegin í þáttatekjujöfnuð. Þannig stýrði eignarhaldið því hvoru megin í þáttatekjujöfnuð tekjur og gjöld féllu. 

Framsetningin nú er þannig að tekjumegin færast tekjur af lánum innlendra fyrirtækja til erlendra og gjaldamegin gjöld af lánum erlendra fyrirtækja til innlendra. Skiptir engu hvernig eignarhaldinu er háttað. 

Fyrri framsetning gat leitt til þess að tekjur mældust neikvæðar ef erlend fyrirtæki í eigu innlendra aðila höfðu meiri tekjur af lánum til eigenda sinna en eigendurnir af lánum til þeirra. Á sama hátt gat gjaldaliður sýnt jákvæða niðurstöðu ef innlend fyrirtæki í eigu erlendra aðila höfðu meiri tekjur af lánum til eigenda sinna en eigendurnir af lánum til þeirra. 

Allt frá fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 hefur tekjuliður þáttajafnaðar verið neikvæður. Endurskoðunin nú nær aftur til þess tíma. Á árunum þar á undan er sáralítið um slík áhrif. 

Bein erlend fjárfesting 
Hækkun á erlendri hlutafjáreign frá og með fjórða ársfjórðungi 2009 er vegna endurskoðaðra talna frá innlánsstofnunum í slitameðferð. 
Endurskoðaðar tölur um beina fjárfestingu fyrir árið 2010 skipt niður á lönd og atvinnugreinar verða birtar 8. desember nk.

Sjá fréttina í heild sinni: Greiðslujöfnuður Q3 2011

Nr. 29/2011 
1. desember 2011

Til baka