logo-for-printing

09. nóvember 2011

Í minningu Eiríks Guðnasonar

Eiríkur Guðnason

Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri, verður til moldar borinn í dag, en hann lést 31. október síðastliðinn eftir baráttu við erfiðan sjúkdóm. Eiríkur var seðlabankamaður alla sína starfstíð. Hann hóf störf í Seðlabankanum árið 1969 og var þar í fullu starfi í fjóra áratugi. Eftir að hann lét af störfum var hann oft í sambandi við starfsmenn bankans, bæði með heimsóknum og ófáum símtölum þar sem hann veitti ríkulega af langri og mikilli reynslu sinni, síðast örfáum dögum fyrir andlát sitt.

Eiríki var fljótt treyst fyrir vandasömum og ábyrgðarmiklum störfum í Seðlabanka Íslands. Hann varð snemma deildarstjóri, svo forstöðumaður peningadeildar, þá hagfræðingur bankans 1984 til 1986 og svo aðstoðarbankastjóri frá 1987. Þá var honum treyst fyrir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Seðlabankann, s.s. að vera formaður stjórnar Verðbréfaþings, forvera Kauphallarinnar, þegar því var komið á legg frá 1986 til 1999, auk þess sem hann starfaði mikið að málefnum Reiknistofu bankanna.

Eiríkur Guðnason var skipaður seðlabankastjóri árið 1994 og gegndi því embætti til ársbyrjunar 2009.

Eiríkur var menntaður viðskiptafræðingur, hann var einstaklega glöggur í allri talna- og gagnavinnslu og átti þátt í að leggja grunn að nýjum og bættum vinnubrögðum á því sviði, m.a. sem yfirmaður peningamálasviðs bankans um langt skeið.

Á starfsárum sínum í Seðlabanka Íslands sótti Eiríkur námskeið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í tvígang, hjá Seðlabanka Bandaríkjanna, en auk þess gegndi Eiríkur ýmsum trúnaðarstörfum og átti sæti í ýmsum nefndum sem fjölluðu um bankamál og verðbréfaviðskipti. Þá var Eiríkur félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg frá 1995 og forseti hans frá 1998 til 1999.


Eftir Eirík liggur fjöldi skýrslna og greina um fagsvið Seðlabanka Íslands. Hann hóf ritun greina í Fjármálatíðindi um innlánsstofnanir fljótlega eftir að hann var ráðinn til bankans og ritaði í Fjármálatíðindi greinar um ýmis efni, auk skrifa í Hagtölur mánaðarins og fleiri rit. Þær greinar hans sem einna mest er vitnað til fjalla um vexti og verðtryggingu, auk greina um bindiskyldu og fleiri fyrirbæri sem tengjast kjarna seðlabankastarfseminnar. Tvær þessara greina fylgja hér með. Þá flutti Eiríkur fjölda erinda innanlands og erlendis um málefni Seðlabankans og skyld efni, auk þess sem hann skrifaði stöku sinnum blaðagreinar þegar honum þótti nauðsyn að koma tilteknum sjónarmiðum á framfæri.

Eiríkur Guðnason

Eiríkur var hvers manns hugljúfi, þótt hann gæti verið ákveðinn á jákvæðan hátt þegar þess var þörf og í góðum hópi seðlabankafólks var hann gjarnan mikill hrókur fagnaðar með gítarspili og söng.

Seðlabankafólk minnist Eiríks með þakklæti fyrir samstarf og leiðsögn um langa hríð og sendir eftirlifandi eiginkonu hans, Þorgerði Guðfinnsdóttur og ástvinum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Grein Eiríks Guðnasonar um vexti og vísitölubindingu í Fjármálatíðindum árið 1983 (pdf-skjal)

Grein Eiríks Guðnasonar um bindiskyldu sem var birt í Fjármálatíðindum árið 1989 (pdf-skjal)

Til baka