logo-for-printing

10. desember 2009

Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Hægfara slökun peningalegs aðhalds heldur áfram

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að breyta vöxtum bankans sem hér segir: Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka um 0,5 prósentur í 8,5%. Seðlabankinn mun áfram efna til útboða á innstæðubréfum til 28 daga með 9,75% hámarksvöxtum, en í því felst 0,5 prósentna lækkun hámarksvaxta innstæðubréfa. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga verða lækkaðir um 1 prósentu í 10% og daglánavextir um 1,5 prósentur í 11,5%.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar hinn 5. nóvember sagði að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist og verðbólga hjaðnaði í samræmi við spá bankans, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds fljótlega að vera til staðar. Vaxtaákvörðunin nú felur í sér lítils háttar peningalega slökun, í samræmi við yfirlýsingu nefndarinnar í nóvember, og færir vaxtaganginn nær vöxtum sem í reynd hafa ráðið aðhaldi peningastefnunnar. 

Útboð innstæðubréfa til 28 daga í því skyni að draga úr lausafé í umferð hafa skilað tilætluðum árangri. Framvegis mun peningastefnunefndin einungis ákveða hámarksvexti í útboðum innstæðubréfa á næsta vaxtatímabili. Einum viðskiptadegi fyrir hvert útboð mun Seðlabankinn, á grundvelli lausafjáráætlunar bankans, tilkynna fjárhæð innstæðubréfa sem boðin verða út. 
Gengi krónunnar hefur í meginatriðum haldist stöðugt frá síðasta fundi peningastefnunefndar, með takmörkuðum inngripum Seðlabanka og engum frá byrjun nóvembermánaðar. Þéttari reglugerð, aukið eftirlit og virkari framfylgd reglna hafa leitt til þess að erfiðara er að fara í kringum gjaldeyrishöftin en áður. Þótt ytri skilyrði hafi batnað er áfram umtalsverð óvissa um skammtímahreyfingar fjármagns. Inngripastefnan á gjaldeyrismarkaði miðar að því að draga úr sveiflum gengis sem þeim kunna að fylgja. 

Verðbólga hjaðnaði áfram í nóvember í samræmi við síðustu spá Seðlabankans. Ársverðbólga var 8,6%, eða 7,7% ef leiðrétt er fyrir áhrifum hækkunar neysluskatta. Að mati peningastefnunefndarinnar er hætta á annarrar umferðar áhrifum á verðbólgu takmörkuð og verðbólgan í meginatriðum drifin áfram af gengisbreytingum. Hve hratt hún hjaðnar mun því að mestu leyti ráðast af þróun gengis krónunnar á næstunni. Haldist gengi hennar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Eins og ávallt er peningastefnunefndin reiðubúin til að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið. 

Nr. 38/2009 
10. desember 2009 

 

Til baka