logo-for-printing

30. nóvember 2006

Nýjar gengisvísitölur

Nýjar aðferðir við útreikning gengisvísitalna sem Seðlabanki Íslands birtir verða teknar upp á morgun, 1. desember 2006. Megintilgangur breytinganna er að gjaldmiðlavogir sem notaðar eru við útreikningana endurspegli eins vel og kostur er samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar, bæði vöru- og þjónustuviðskipta. Í því skyni hefur gjaldmiðlum verið fjölgað. Útreikningur gjaldmiðlavoganna hefur verið einfaldaður og gerður kerfisbundnari og jafnframt líkari því sem tíðkast í öðrum löndum. Ekki er fyrirhugað að uppfæra frekar gjaldmiðlavogina sem notuð hefur verið til að reikna svokallaða vísitölu gengisskráningar og er stefnt að því að hætta birtingu hennar í árslok 2008. Reiknaðar hafa verið nokkrar nýjar vísitölur. Vægi einstakra gjaldmiðla í nýju vísitölunum er töluvert frábrugðið því sem lá til grundvallar útreikningi vísitölu gengisskráningar. Einkum dregur úr vægi Bandaríkjadals. Vogirnar sem notaðar eru til að reikna nýju vísitölurnar byggja á utanríkisviðskiptum liðins árs og verða uppfærðar í september ár hvert. Nánari upplýsingar um hinar nýju vísitölur verður að finna á vef Seðlabankans, m.a. töflur er sýna nýju vogirnar miðað við utanríkisviðskipti ársins 2005 og breytingar frá fyrri vogum. Einnig verða þar aðgengilegar tímaraðir með nýju vísitölunum nokkur ár aftur í tímann.

Nánari upplýsingar veitir Daníel Svavarsson á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands (daniel.svavarsson@sedlabanki.is) í síma 569-9692.

 

Nr. 43/2006
30. nóvember 2006

Til baka