logo-for-printing

22. apríl 1998

Verðbólguspá Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands gerir verðbólguspá fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júlí og október. Þróun verðlags á fyrsta fjórðungi ársins 1998 liggur fyrir og spáir bankinn nú að verðbólga á milli áranna 1997 og 1998 verði 2,3%, en 2,1% frá upphafi til loka ársins 1998. Í janúarspá bankans voru samsvarandi tölur 2,6% og 2,3%.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,4% á milli fjórða ársfjórðungs 1997 og fyrsta ársfjórðungs 1998 sem svarar til 1,7% verðbólgu á ári. Hækkunin er að mestum hluta til komin vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis og á húsaleigu auk þess sem verð á þjónustu hækkaði nokkuð. Athygli vekur hins vegar að innlendar vörur án búvöru og grænmetis hækkuðu nánast ekkert í verði frá desember 1997 til apríl í ár. Spá Seðlabankans frá því í janúar gerði ráð fyrir töluvert meiri hækkun vísitölunnar, eða 0,8%. Frávikið er þó innan tölfræðilegra vikmarka.

Á öðrum og þriðja fjórðungi ársins 1998 má gera ráð fyrir að verðbólga verði nokkru meiri en á þeim fyrsta en að hún lækki undir lok ársins eins og undanfarin ár. Samkvæmt forsendum spárinnar er gert ráð fyrir að launaskrið verði 2% á árinu 1998 í stað 1,5% í spá bankans frá því í janúar. Einnig er gert ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis hækki umfram almenna verðlagsþróun og hafi þannig áhrif til hækkunar vísitölunnar líkt og gert var ráð fyrir í janúar. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að framleiðni vaxi um 3% á árinu í stað 2,5% eins og gert var ráð fyrir í spánni í janúar. Með hliðsjón af kreppunni í Asíulöndum og fyrirliggjandi spám alþjóðlegra efnahagsstofnana er gert ráð fyrir að innflutningsverð í erlendri mynt verði óbreytt á árinu 1998. (Sjá meðfylgjandi töflu.)

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans í síma 569 9600.

Ársfjórðungsspá

Nr. 17/1998
22. apríl 1998

Til baka