logo-for-printing

Bankakerfi

Í mars 2015 tók Seðlabanki Íslands upp nýjan staðal fyrir hagtölur bankakerfisins. Hagtölur um bankakerfið byggja á staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um hagtölur peninga- og fjármála. Sá staðall sem verið hefur í notkun undanfarin ár, Monetary and Financial Statistics, var upphaflega gefinn út árið 2000 og viðbætur við hann árið 2008. Breytingar í nýjum staðli AGS taka mið af nýjum þjóðhagsreikningastaðli SNA 20081 sem kom út árið 2009. Breytingar samkvæmt SNA 2008 hafa einnig verið teknar upp í öðrum alþjóðlegum stöðlum s.s. í 6. útgáfu af staðli um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu (BPM6) sem Seðlabankinn innleiddi í september 2014 og þjóðhagsreikningastaðli Evrópusambandsins, ESA 2010 en hann var tekinn upp lögformlega innan sambandsins og á EES svæðinu í september 20142 . Nýr staðall Alþjóðagjaldeyrissjóðsins3 um hagtölur peninga- og fjármála er að miklu leyti í samræmi við SNA 2008 en áhersla hefur verið lögð á það undanfarin ár að samræma hugtakanotkun og flokkunarkerfi alþjóðlegra staðla til að auka samanburðarhæfni hagtalna.

Helstu breytingar sem verða á hagtölum Seðlabankans um bankakerfið við innleiðingu nýju staðlanna eru:

  • Útlán sem keypt voru með afföllum haustið 2008 eru birt á kröfuvirði í stað bókfærðs virðis áður. Breytingin er gerð afturvirk þannig að útlán frá 2008 eru endurbirt skv. nýrri aðferðafræði.
  • Flokkun eftir geirum hagkerfisins er í samræmi við nýja þjóðhagsreikningastaðla SNA 2008 og staðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Auk þess hefur Seðlabankinn aðgreint fjármálafyrirtæki í slitameðferð sérstaklega.
  • Tilfærslur verða í flokkun milli atvinnufyrirtækja og fjármálageira. Þjónusta tengd fjármálum flokkast nú með fjármálageira í stað atvinnufyrirtækja áður. Einnig flyst þjónusta við heimili sem félagasamtök inna af hendi í sérstakan geira en flokkaðist áður með atvinnufyrirtækjum.
  • Eignarhaldsfélög flokkast nú til fjármálageira í lið sem heitir: Innbyrðis fjármálastarfsemi.
  • Gögn um innlánsstofnanir ná aftur til september 1993. Eldri gögn hafa verið endurflokkuð til samræmis við núverandi sundurliðun gagnanna í viðleitni til að búa til sem samræmdust gögn yfir tíma. Við endurflokkun gagna voru innbyrðis skekkjur í gögnum lagaðar eftir því sem þurfa þótti. Niðurstöður geta því verið örlítið aðrar en í prentuðum heimildum fyrri ára. Mismunurinn er þó óverulegur. Samfelld atvinnugreinaflokkun útlána og markaðsskuldabréfa hófst í desember 1997 en atvinnugreinaflokkun innlána og hlutabréfa í október 2003.

1. System of National Accounts (SNA 2008) útgefinn af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD, Alþjóðabankanum, Sameinuðu þjóðunum og framkvæmdastjórn ESB.
2.  Sjá reglugerð
3. Update of the Monetary and Financial Statistics Manual (MFSM) and the Monetary and Financial Statistics Compilation Guide (MFSCG).