logo-for-printing

Erlend staða þjóðarbúsins

01. september

2. ársfjórðungur 2020

Hrein staða við útlönd var jákvæð um 838 ma.kr. eða 28,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 143 ma.kr. eða 4,9% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.475 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.636 ma.kr. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 22 ma.kr. á fjórðungnum en erlendar eignir jukust um 83 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta og skuldir um 61 ma.kr.

Virði eigna og skulda jókst nokkuð vegna gengis- og verðbreytinga á ársfjórðungnum, en í heildina leiddu þær til 137 ma.kr. hækkunar á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um 18,8% og á innlendum hlutabréfamarkaði um tæp 20%. Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.

Tafla með gjaldmiðlaskiptingu á erlendri stöðu þjóðarbúsins hefur verið birt hér á síðunni. Taflan sýnir gjaldmiðlaskiptingu á erlendum eignum og skuldum þjóðarbúsins í lok árs 2018 og 2019, skipt eftir sjö flokkum gjaldmiðla. Tilgangur birtingarinnar er að gefa skýrari mynd af erlendum eignum og skuldum þjóðarbúsins. Miðað við stöðu í lok árs 2019 var stærstur hluti eigna í Bandaríkjadal, 51%, en næststærstur í evru, 33%. Skuldir voru mest í evrum, 36%, íslenskum krónum 29% og Bandaríkjadal 22%.


Næsta birting: 30. nóvember 2020


Umsjón

Upplýsingatækni og gagnasöfnun | bop@sedlabanki.is