logo-for-printing

28. september 2021

Sviðsmyndagreiningar vegna loftslagsáhættu

Loftslagsbreytingar og aðgerðir til að bregðast við þeim munu hafa veruleg áhrif á hag- og fjármálakerfið á næstu árum. Á næsta ári hyggst Seðlabanki Íslands gera sviðsmyndagreiningu til að skoða möguleg áhrif lofslagsáhættu á innlent fjármálakerfi. Fjármálakerfið verður ekki aðeins fyrir margvíslegum óæskilegum áhrifum af loftslagsbreytingum heldur geta fyrirtæki á fjármálamarkaði orðið hluti af lausninni með því að fjármagna verkefni sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Þessi grein fjallar um leiðir til að meta þróun loftslagsáhættu og áskoranir sem stjórnvöld um allan heim standa frammi fyrir við mat á raunhæfum forsendum.

 

Mat á loftslagsáhættu

Í hefðbundnum álagsprófum á fjármálafyrirtæki hefur hingað til ekki verið horft lengra fram í tímann en þrjú til fimm ár. Í loftslagsmálum er hins vegar þörf á að horfa til mun lengri tíma. Til dæmis er markmið Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum að takmarka hlýnun frá iðnbyltingu við 2°C og að gera allt sem unnt er til að hlýnunin verði ekki meiri en 1,5°C fram til ársins 2050.

Algengast er að skipta loftslagsáhættu í tvo meginflokka. Annars vegar er talað um raunlæga áhættu (e. physical risk) sem stafar beint af loftslagsbreytingunum sjálfum og hins vegar umbreytingaráhættu (e. transition risk) sem kemur til vegna aðgerða til að stemma stigu við þeim. Slíkar aðgerðir geta t.d. leitt til minnkandi eftirspurnar eftir tilteknum vörum og þjónustu eða að ákveðnar eignir verði verðlausar.

Ríki sem leggja sitt af mörkum til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins munu að öllum líkindum standa frammi fyrir umbreytingaráhættu um ókomna tíð. Með því að grípa sem fyrst til aðgerða má þó dreifa henni yfir lengri tíma og draga úr líkum á snöggum áföllum vegna hennar. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að raunlæg áhætta verði viðvarandi alla þessa öld og verði meiri eftir því sem hægar gengur með mótvægisaðgerðir. Því má segja að raunlæg áhætta og umbreytingaráhætta vegi á móti hvor annarri en óhjákvæmilegt er að einhver samsetning þessarar tvenns konar áhættu muni raungerast. Í leit að réttu jafnvægi verður að hafa i huga að aukning raunáhættunnar er ekki línuleg og getur tekið hröðum breytingum við ákveðnar aðstæður, t.d. súrnun eða hækkun yfirborðs sjávar.

Mynd 1 sýnir þá ása sem Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) hefur mælt með að horft verði til við hönnun loftslagssviðsmynda [1]. Eins og sést á lárétta ásnum getur raunlæga áhættan orðið mikil eða lítil eftir því til hvaða aðgerða er gripið. Á lóðrétta ásnum er sýnt að umbreytingin getur verið skipuleg (e. orderly) eða óskipuleg (e. disorderly) og að áhættan verður meiri eftir því sem umbreytingin er óskipulegri.

 

Sviðsmyndir NGFS

Seðlabanki Íslands fékk í desember sl. aðild að samtökunum Network for Greening the Financial System (NGFS) sem er alþjóðlegur samstarfsvettvangur seðlabanka og fjármálaeftirlitsstofnana um áhættustýringu í fjármálageiranum í tengslum við loftslags- og umhverfismál. Vinnu NGFS er meðal annars ætlað að stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni fjárfestingu, en eitt af helstu verkefnum samtakanna er útgáfa samræmdra loftslagssviðsmynda um mögulega þróun raunlægrar áhættu og umbreytingaráhættu. Sviðsmyndirnar eru aðgengilegar öllum og er eitt af markmiðum þeirra að stjórnvöld um allan heim meti loftslagsáhættu með sambærilegum hætti. Sviðsmyndirnar byggja á viðurkenndum loftslagsvísindum, sambærilegum þeim sem notuð eru í loftslagsskýrslum Sameinuðu þjóðanna sem síðast kom út í ágúst síðastliðnum.

Á mynd 2 má sjá hvar sviðsmyndir NGFS eru staðsettar á kvarðanum fyrir raunlæga áhættu og umbreytingaráhættu.

 

Í sviðsmyndinni sem nefnd er „Kolefnishlutleysi 2050“ (e. Net Zero 2050) er gert ráð fyrir að hægt sé að takmarka hlýnun frá iðnbyltingu við 1,5°C með víðtækri reglusetningu og hraðri tækniþróun. Reglubreytingar þarf þá að innleiða strax til að mögulegt sé að þessi sviðsmynd raungerist. Gert er ráð fyrir að kolefnisföngun (e. carbon capture) verði nýtt til að hraða ferlinu en sú tækni er ný og ekki búið að þróa hana að fullu. Því er reynt að halda notkun kolefnisföngunar innan raunhæfra marka í sviðsmyndinni. Samkvæmt þessari sviðsmynd tekst að halda raunlægri áhættu í lágmarki. Algengt er að nota þessa sviðsmynd sem grunnsviðsmynd þar sem hún byggir á markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Sviðsmyndin um að halda hlýnun undir 2°C byggist á hægari innleiðingu reglubreytinga en í sviðsmyndinni á undan og að ekki náist kolefnishlutleysi fyrr en árið 2070. Því er umbreytingaráhætta minni en raunlæg áhætta meiri í þessari sviðsmynd en í þeirri fyrstu.

Sviðsmyndin „Ólíkar leiðir til kolefnishlutleysis“ (e. Divergent Net Zero) byggist á því að kolefnishlutleysi verði náð 2050 en að reglubreytingar verði ósamræmdar á milli atvinnugreina, þ.e. strangara regluverk verður í samgöngu- og byggingagreinum en í öðrum atvinnugreinum. Þetta ósamræmi leiðir af sér þyngri byrði fyrir neytendur þannig að umbreytingaráhætta verður töluvert hærri en í fyrstu sviðsmyndinni, þó að raunlæg áhætta sé svipuð.

Með „Seinkaðri umbreytingu“ (e. Delayed transition) er gert ráð fyrir að engar reglubreytingar verði fyrr en árið 2030 og þá muni útblástur fyrst dragast saman. Í þessari sviðsmynd þarf að grípa til harðari aðgerða til að takmarka hlýnun við 2°C. Umbreytingaráhætta er frekar mikil og raunlæg áhætta er meiri en í sviðsmyndinni á undan.

Í sviðsmynd með „Ríkjabundnar aðgerðir“ (e. Nationally Determined Contributions, NDCs) er gert ráð fyrir að alla 21. öldina verði aðeins gripið til þeirra aðgerða sem ríki höfðu kynnt til sögunnar í ársbyrjun 2021. Umbreytingaráhætta samkvæmt þeirri sviðsmynd er því lítil. Þrátt fyrir að eitthvað takist að draga úr útblæstri er áætlað að hlýnun verði í kringum 2,5° C sem getur valdið alvarlegum afleiðingum, og raunlæg áhætta þar af leiðandi mikil.

Að lokum byggist sviðsmyndin „Núverandi stefna“ (e. Current policies) á því að eingöngu verði haldið í horfinu miðað við núverandi reglugerðir. Hlýnun samkvæmt henni verður um eða yfir 3°C sem mun hafa í för með sér versnandi lífsgæði í mörgum heimshlutum og hafa ýmsar óafturkræfar afleiðingar í för með sér líkt og hækkun sjávarmáls. Þessi sviðsmynd hefur minnstu umbreytingaráhættuna en mestu raunlægu áhættuna.

 

Notkun sviðsmyndanna

Sviðsmyndirnar sýna þróun ýmissa breyta í framtíðinni, sumra allt til 2050 en aðrar fram til næstu aldamóta 2100. Breyturnar eru yfir 1000 talsins og má skipta þeim í þrjá meginflokka:

  • Veðurfarslegar stærðir, s.s. hitastig
  • Hlutdeild mismunandi orkugjafa í orkunotkun
  • Þróun ýmissa hagstærða, s.s. vergrar landsframleiðslu, verðbólgu og húsnæðisverðs

Stærsta áskorunin felst í því að meta áhrif þessara breyta á efnahagsreikninga fyrirtækja, á einstakar atvinnugreinar, á lántakendur fjármálafyrirtækja og á eignaverð í eignasöfnum fjárfesta.

NGFS vinnur nú að gerð skýrslu þar sem kannað er á hvaða hátt seðlabankar og fjármálaeftirlit hyggjast nýta sviðsmyndirnar og tekur Seðlabanki Íslands þátt í þeirri vinnu. Gert er ráð fyrir að skýrslan komi út 19. október næstkomandi.

Skýrslan gerir grein fyrir mismunandi valkostum sem þeir seðlabankar og fjármálaeftirlitsstjórnvöld sem ætla að nýta sviðsmyndirnar standa frammi fyrir. Þar má meðal annars nefna:

  • Hvort álagspróf taki bæði til raunlægrar áhættu og umbreytingaráhættu 
  • Hvort álagspróf eigi að vera samræmt (e. top-down), þ.e. byggjast á gögnum sem seðlabankar/fjármálaeftirlit búa yfir og beita á markaðinn í heild eða hvort það eigi að vera sérhæft (e. bottom-up), þ.e. að fyrirtækin sjálf meti áhrif loftslagsbreytinga á starfsemi sína
  • Hversu víðtækt álagspróf eigi að vera, þ.e. hvort það skuli ná til banka, vátryggingafélaga og/eða annarra aðila á fjármálamarkaði
  • Hvort miða eigi við að efnahagsreikningur fyrirtækja á fjármálamarkaði (og mótaðila þeirra ef við á í álagsprófi) verði óbreyttur í sviðsmyndinni (e. static balance sheet) eða hvort gera eigi ráð fyrir breytingum á efnahagsreikningi vegna aðgerða stjórnenda (e. dynamic balance sheet)
  • Hversu margar af sviðsmyndum NGFS verði notaðar og hvort það sé ástæða til að hanna sérhæfða sviðsmynd fyrir viðkomandi ríki

Upptalningin hér að framan er einungis dæmi um þá valkosti sem taka þarf afstöðu til við notkun sviðsmyndanna. Ekkert ríki hefur enn þá valið að beita sviðsmyndunum til að taka ákvarðanir um nýjar reglur um fjármálakerfið enda markmiðið nú fyrst og fremst að fá mynd af því hversu vel fjármálamarkaðurinn er undirbúinn fyrir afleiðingar loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að gera sér fyrir því að óvissa er fyrir hendi við slíka sviðsmyndagreiningu en jafnframt að láta ekki leitina að fullkomnu svari standa í vegi fyrir því að þessi nauðsynlegu skref til að skilja betur þá áhættu sem er til staðar verði tekin.

 

Notkun Seðlabanka Íslands á sviðsmyndum NGFS

Ný útgáfa sviðsmynda NGFS sem kom út í júní sl. gerir kleift að meta áhrif sviðsmyndanna á einstök ríki. Fyrir Ísland er þó notuð nálgun sem kallast niðurskölun (e. downscaling) en hún byggist á því að gert er ráð fyrir að breytur þróist í samræmi við framvinduna annars staðar í Evrópu en miðað er við það sem er vitað um stefnu stjórnvalda og orkunýtingu í dag. Skoða þarf hversu vel sú nálgun á við um íslenskan veruleika. Þjóðhagsstærðir í NGFS sviðsmyndunum eru fengnar úr líkani sem kallast NiGEM (National Institute Global Econometric Model [2]) frá Þjóðhags- og félagsvísindastofnun Bretlands en það líkan nær að svo stöddu ekki til Íslands. Þrátt fyrir þessa annmarka veita sviðsmyndir NGFS mikilvægar upplýsingar um þróun loftslagsáhættu sem Seðlabankinn getur nýtt við greiningar. Mikilvægt er einnig að fá innlend fjármálafyrirtæki og innlent vísindasamfélag með í samstarf á þessu sviði.

Til að skoða hvaða áhrif lofslagsáhætta getur haft á innlent fjármálakerfi hefur Seðlabankinn hafið undirbúning að sviðsmyndagreiningu sem byggir á grunni NGFS sviðsmyndanna. Miðað er við að fyrsta áfanga þeirrar vinnu ljúki á næsta ári þegar birtar verða fyrstu niðurstöður úr okkar greiningum.

Höfundar: Sigurður Freyr Jónatansson, sérfræðingur á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. Gunnar Hákon Unnarsson, sérfræðingur á fjármálastöðugleikasviði, aðstoðaði við gerð greinarinnar.

[1] Bank for International Settlements 2020: The Green Swan

[2] National Institute of Economic and Social Research í Bretlandi

Til baka