logo-for-printing

29. janúar 2020

Áhrif ákvörðunar FATF á starfsemi eftirlitsskyldra aðila

Höfðatorg
Fjármálaeftirlitið fylgist reglulega með því hvort ákvörðun FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, frá því í október síðastliðnum hafi haft áhrif á starfsemi eftirlitsskyldra aðila og ef svo er hvaða áhrif ákvörðunin hefur haft. FATF ákvað þá sem kunnugt er að setja Ísland á lista yfir ríki sem væru samvinnufús og aðgerðaáætlun um endurbætur væri í farvegi.

Til að leggja mat á framangreint óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum í lok desember sl. frá 16 eftirlitsskyldum aðilum þ.e. fjórum viðskiptabönkum, þremur greiðsluþjónustuveitendum, fjórum vátryggingafélögum, þremur lífeyrissjóðum, Kauphöll Íslands og Nasdaq verðbréfamiðstöð.

Óskað var upplýsinga um hvaða áhrif ákvörðun FATF hefði haft á starfsemi þeirra, m.a. hvort viðskiptum við aðilann eða viðskiptavini hans hefði verið sagt upp, hvort viðskiptum hefði verið seinkað og hvort óskað hefði verið eftir frekari gögnum frá aðilanum í tengslum við aukna áreiðanleikakönnun.

Samkvæmt upplýsingum frá framangreindum aðilum virðist ákvörðun FATF enn sem komið er ekki hafa haft áhrif á starfsemi vátryggingafélaga, lífeyrissjóða, Kauphallarinnar og verðbréfamiðstöðvarinnar.

Í tilviki viðskiptabanka hefur viðskiptum við þá eða viðskiptamenn þeirra ekki verið slitið en upp hafa komið einstök tilvik þar sem greiðslur hafa tafist. Einnig eru örfá dæmi um að erlendir bankar hafi hafnað því að hafa milligöngu um greiðslu til og frá landinu.

Í nokkrum tilvikum hefur þó verið óskað eftir frekari skýringum og/eða upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum í tengslum við aukna áreiðanleikakönnun. Fram kom í svörum frá einhverjum aðilum að erfitt væri að greina á milli þess hvort viðbrögð erlendra aðila mætti rekja til veru Íslands á FATF-listanum eða til aukinnar árvekni almennt gagnvart peningaþvætti.

Fyrirhugað er að óska eftir sambærilegum upplýsingum á ný á fyrri hluta ársins til að fylgjast með þróuninni.
Til baka