logo-for-printing

30. október 2019

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 21. til 23. október sl. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 25 aðilum og var svarhlutfallið því 89%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skamms tíma hafi lækkað frá síðustu könnun bankans um miðjan ágúst sl. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra eru nánast óbreyttar frá fyrri könnun. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,6% á fjórða fjórðungi í ár, 2,4% á fyrsta fjórðungi næsta árs og 2,2% á öðrum fjórðungi næsta árs. Þá vænta þeir þess að verðbólga verði 2,4% eftir eitt ár og 2,5% eftir tvö ár. Þeir búast jafnframt við að verðbólga verði að meðaltali 2,5% á næstu fimm og tíu árum. Verðbólguvæntingar til næstu fimm ára eru þær sömu og í ágústkönnun bankans en verðbólguvæntingar til tíu ára lækka um 0,1 prósentu. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra eru um ½ prósentu lægri en þær voru á sama tíma í fyrra. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar haldist svipað á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 139 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki um 0,25 prósentur í 3% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þeir vænta þess að í kjölfarið haldist vextir óbreyttir út næsta ár en lækki lítillega eftir það. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar væntu í könnun bankans í ágúst sl. en þá væntu þeir þess að vextir yrðu 3,25% á næstu tveimur árum.

Meirihluti svarenda telur að taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir, rétt eins og í síðustu tveimur könnunum bankans. Hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of þétt minnkar þó milli kannana og var nú 56% samanborið við 74% í síðustu könnun. Á móti fjölgar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt úr 22% í 40%.

Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var meiri í þessari könnun samanborið við dreifingu svara í síðustu könnun. Dreifing svara um verðbólgu á næstu fjórðungum jókst lítillega en meira til lengri tíma litið. Bil 1. og 3. fjórðungs var svipað og í síðustu könnun. Dreifing svara um væntingar markaðsaðila til vaxta var minni en í síðustu könnun þegar spurt var um yfirstandandi fjórðung en meiri þegar spurt var um vexti á næsta ári. Dreifing svara um gengishorfur jókst lítillega frá síðustu könnun en er minni en í októberkönnuninni í fyrra.

Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir um hversu vel þeir teldu vaxtalækkanir Seðlabankans á þessu ári hafa miðlast í vaxtakjör heimila og fyrirtækja. Hvað varðar vaxtakjör til heimila skiptust svör fremur jafnt milli þeirra sem töldu vaxtalækkanir hafa miðlast vel og ekki nægilega vel. Fjórir af hverjum fimm töldu aftur á móti að vaxtalækkanir hefðu ekki miðlast nægilega vel í vaxtakjör fyrirtækja.

Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 4. ársfj. 2019

Frekari upplýsingar um væntingakönnun markaðsaðila má finna hér: Væntingakönnun markaðsaðila


Til baka