Frá fjármálaáfallinu 2008 hefur bankakerfið notið minnst eða næst minnst trausts þeirra aðila sem traust er mælt til í Þjóðarpúlsi Gallups. Fréttir um mikinn hagnað bankanna hér á landi eru gjarnan settar fram með neikvæðum hætti og ekki er reynt að setja hagnaðinn í samhengi við stærð bankanna eða eigið fé þeirra. Tilfinningin margra virðist vera er sú að hagnaður og arðsemi íslensku bankanna sé óeðlilega há og mun hærri en í löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Síðustu misserin hefur einnig verið nokkur umræða um hversu óhagstætt rekstrarumhverfi íslenskra banka sé í samanburði við erlenda banka og þá helst norræna banka. Einna helst er nefnt að eiginfjárkröfur á íslenska banka séu strangari og skattbyrði þeirra þyngri en annarra banka á Norðurlöndunum. Í þessari grein er ljósi varpað á þessi atriði með því að bera helstu kennitölur stóru innlendu bankanna þriggja sem eru kerfislega mikilvægir bankar (KMB), saman við banka á Norðurlöndunum, nánar til tekið fimm banka í Danmörku og fimm banka í Noregi, sem hér eftir eru kallaðir samanburðarbankar. Þeir eru af svipaðri stærð og stóru íslensku bankarnir og nota staðalaðferð (e. Standardized Approach), líkt og íslenskir bankar, til að reikna út áhættuvegnar eignir vegna útlánaáhættu.