logo-for-printing

05. apríl 2024

ESMA sendir frá sér viðvörun vegna fjárfestingarráðlegginga

Bygging Seðlabanka Íslands

Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) sendi fyrir nokkru frá sér tilkynningu þar sem vakin er athygli á 20. gr. reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR) hvað varðar fjárfestingarráðleggingar á samfélagsmiðlum. Auk þess varar ESMA við mögulegri markaðsmisnotkun slíkra fjárfestingarráðlegginga og setur fram dæmi.

ESMA vísar í tilkynningunni til þess hve mikilvægt er að fjárfestingarráðleggingar á samfélagsmiðlum séu gagnsæjar og skýrar. Áhrifavaldar á sviði fjármála, sérfræðingar eða almennir áhugamenn um fjárfestingar þurfa því að hafa hliðsjón af reglum MAR reglugerðarinnar og vera upplýstir um hvað fjárfestingarráðleggingar eru.

Fjárfestingarráðlegging felur í sér samning eða dreifingu aðila á ráðleggingum um fjárfestingar eða öðrum upplýsingum sem í eru fólgnar ráðleggingar eða tillaga um fjárfestingaráætlun, sbr. 1. mgr. 20. gr. MAR. Hugtakið fjárfestingarráðlegging er skilgreint nánar í 35. málsl. 1. mgr. 3. gr. MAR sem upplýsingar sem með beinum eða óbeinum hætti fela í sér ráðleggingu eða tillögu um fjárfestingaráætlun í tengslum við einn eða fleiri fjármálagerninga eða útgefendur, þ.m.t. álit á núverandi virði eða verði eða framtíðarvirði eða -verði slíkra gerninga, sem ætlunin er að fari um dreifileiðir eða ætluð er almenningi.

Regla 1. mgr. 20. gr. MAR á því við um hverja færslu, myndskeið, eða hvers konar opinber samskipti, þ. á m. á samfélagsmiðlum, þar sem aðili veitir ráðgjöf eða setur fram hugmyndir, beint eða óbeint, um kaup eða sölu á fjármálagerningi eða hvernig skuli setja upp eignasafn fjármálagerninga. Jafnvel þó að viðkomandi noti óformlegt orðalag, getur slíkt fallið undir umrædda reglu. Hvað varðar upplýsingaveitu í fræðsluskyni varar ESMA við því að sögulegar upplýsingar verði notaðar til að leiða fjárfesta að ákveðinni fjárfestingarákvörðun.

Fjárfestingarráðlegging þarf að uppfylla eftirfarandi kröfur samkvæmt MAR:

  • Almennar kröfur skv. 2., 3., og 5. gr. reglugerðar (EU) nr. 2016/958 um tæknilegt fyrirkomulag til að birta hlutlausa fjárfestingarráðgjöf o.fl. (reglugerð (EU) 2016/958)

Dæmi um slíkar kröfur eru að þar séu sögð deili á aðilum sem semja ráðleggingar samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar, en það sem koma þarf fram er annars vegar nafn og starfstitill allra einstaklinga sem koma að því að semja ráðlegginguna, sbr. a. liður 1. mgr. 2. gr., og hins vegar, ef einstaklingur eða lögaðili sem kemur að því að semja ráðlegginguna starfar samkvæmt samningi, þ.m.t. ráðningarsamningi, eða á annan hátt fyrir lögaðila, nafn þess lögaðila, sbr. b. liður 1. mgr. 2. gr.

  • Sértækar kröfur fyrir sérfræðinga skv. 4. og 6. gr. reglugerðar (EU) 2016/958

Nánari upplýsingar má finna í eftirfarandi tilkynningum ESMA:

- ESMA74-1103241886-912 Warning on posting Investment Recommendation on social media (europa.eu)

- Requirements when posting investments recommendations on social media (europa.eu)


Til baka