logo-for-printing

14. mars 2024

Fjármálastöðugleiki í hnotskurn

Aðhald peningastefnunnar hefur aukist á undanförnum mánuðum, bæði hér á landi og erlendis, með minnkandi verðbólgu en óbreyttu vaxtastigi. Væntingar eru um að vextir hafi náð hámarki og bendir þróun á eignamörkuðum til aukinnar bjartsýni fjárfesta. Óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur er þó mikil, ekki síst vegna stríðsátaka. Hratt hefur dregið úr hagvexti hér á landi. Hækkandi raunvextir og vaxandi greiðslubyrði lánþega hægir á innlenda hagkerfinu og hár fjármagnskostnaður þrengir að rekstri fyrirtækja.

Hægt hefur á vexti í ferðaþjónustu, stærstu útflutningsatvinnugrein landsins. Vísbendingar eru um að meðaldvalartími ferðamanna hafi styst og að útgjöld þeirra á landinu hafi minnkað. Hækkun verðlags hefur þar vafalítið áhrif en Ísland er orðið enn dýrari áfangastaður en áður. Einnig virðast eldsumbrotin á Reykjanesi hafa haft neikvæð áhrif á eftirspurn, að minnsta kosti tímabundið. Framboð á flugi til og frá landinu hefur hins vegar sjaldan verið meira en í ár. Afkoma innlendu flugfélaganna hefur versnað og viðbúið er að aukið framboð komi fram í harðari samkeppni, lægri fargjöldum og lakari sætanýtingu.

Umsvif á íbúðamarkaði hafa vaxið á ný. Velta hefur aukist en framboð íbúða til sölu hefur nánast staðið í stað að undanförnu. Vaxandi hluti íbúðakaupa er nú fjármagnaður með verðtryggðum lánum sem styður við umsvif á markaðnum þrátt fyrir háa vexti og takmarkanir lánþegaskilyrðanna. Frávik íbúðaverðs frá langtímaleitni hefur minnkað nokkuð með hægfara lækkun á raunverði íbúða. Mögulegt er að íbúðakaup vegna brottflutnings fólks frá Grindavík hafi einhver áhrif á markaðinn, þau áhrif geta bæði komið fram á fasteignamarkaði og leigumarkaði.

Staða stóru viðskiptabankanna er sterk. Eiginfjárhlutföll þeirra eru há, arðsemi af reglulegum rekstri er góð og vanskil heimila og fyrirtækja í lágmarki. Bankarnir hafa viðhaldið sterkri lausafjárstöðu í erlendum gjaldmiðlum með skuldabréfaútgáfu á erlendum lánsfjármörkuðum. Bankarnir búa yfir miklum viðnámsþrótti gagnvart ytri áföllum. Virðisrýrnun gæti þó aukist á næstu mánuðum þar sem greiðslubyrði margra lántakenda hefur þyngst á sama tíma og dregið hefur úr umsvifum í hagkerfinu. Þá munu samningar um fasta vexti á fjölda íbúðalána renna út á næstu 12 til 18 mánuðum sem leiða mun til þyngri greiðslubyrði þeirra sem í hlut eiga.

Mikilvægt er að standa vörð um samfellda þjónustu fjármálafyrirtækja og tryggja rekstraröryggi fjármálainnviða eins og kostur er. Rekstraráhætta fer vaxandi, m.a. vegna tækninýjunga, tilrauna til netárása og netsvika. Halda þarf áfram að samræma viðbrögð og samskipti opinberra aðila, einkum á tímum neyðar, þannig að hlutverkaskipting, ábyrgð og valdheimildir séu skýrar. Einnig er nauðsynlegt að efla áfram viðnámsþrótt fjármálainnviða með því að styrkja mögulegar staðgönguleiðir innlendrar greiðslumiðlunar, hvort sem um er að ræða reiðufé eða innlenda óháða smágreiðslulausn.

Greinin birtist í Fjármálastöðugleika 1/2024

Höfundur: Eggert Þröstur Þórarinsson

Til baka

Myndir með frétt