logo-for-printing

26. janúar 2024

Útlánakönnun Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn framkvæmir ársfjórðungslega útlánakönnun á meðal viðskiptabankanna fjögurra. Spurt er um mat þeirra á þróun framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé og auk þess hvaða þætti þeir telji að hafi haft ráðandi áhrif á framboð á síðustu þremur mánuðum. Einnig er spurt um væntingar viðskiptabankanna um horfur næstu sex mánuði. Könnunin var síðast framkvæmd 1. til 15. janúar sl. og eru niðurstöðurnar hér byggðar á meðaltali svara viðskiptabankanna.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að framboð viðskiptabankanna á lánum til heimila hafi verið óbreytt síðustu þrjá mánuði en að framboð þeirra á bílalánum aukist lítillega á næstu sex mánuðum.1  Þá gefa niðurstöðurnar til kynna að eftirspurn heimila eftir húsnæðislánum hafi minnkað á síðustu þremur mánuðum en viðskiptabankarnir gera ráð fyrir að lánsfjáreftirspurn heimila muni almennt minnka lítillega á næstu sex mánuðum. Samkvæmt svörum viðskiptabankanna hafa reglur um veitingu bílalána til heimila verið þrengdar lítillega á síðustu þremur mánuðum en aðrar reglur verið óbreyttar. Jafnframt gera þeir ráð fyrir að útlánareglur verði almennt óbreyttar á næstu sex mánuðum. Talið er að samkeppni á meðal banka og annarra lánveitenda um útlán til heimila aukist lítillega á næstu sex mánuðum. Vextir á verðtryggðum útlánum til heimila hækkuðu á síðustu þremur mánuðum vegna hækkunar meginvaxta Seðlabankans og hærri fjármögnunarkostnaðar bankanna. Bankarnir gera einnig ráð fyrir lítilsháttar hækkun verðtryggðra vaxta á næstu sex mánuðum vegna hækkandi fjármögnunarkostnaðar. Vextir á óverðtryggðum útlánum til heimila héldust að meðaltali óbreyttir á síðustu þrem mánuðum og ekki er gert ráð fyrir að þeir breytist á næstu sex mánuðum.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að framboð lánsfjár til fyrirtækja hafi verið óbreytt á síðustu þremur mánuðum og að svo verði áfram næstu sex mánuði. Samkvæmt svörum bankanna jókst eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé til skamms og langs tíma lítillega á síðustu þremur mánuðum. Bankarnir gera ráð fyrir áframhaldandi vaxandi eftirspurn fyrirtækja eftir lánum í íslenskum krónum á næstu sex mánuðum. Engar breytingar hafa orðið á reglum um lánveitingar til fyrirtækja á síðustu þremur mánuðum og telja bankarnir að svo verði áfram næstu sex mánuði. Þá vænta bankarnir þess að samkeppni um útlán til fyrirtækja aukist lítillega á næstu sex mánuðum vegna aukinnar markaðsfjármögnunar. Vextir og vaxtaálag á útlánum til fyrirtækja hækkuðu á síðustu þremur mánuðum vegna hækkunar meginvaxta Seðlabankans og hærri fjármögnunarkostnaðar bankanna en könnunin gefur til kynna að vextir á lánum til stórra fyrirtækja muni lækka lítillega á næstu sex mánuðum af sömu ástæðum. Vextir á öðrum fyrirtækjalánum og vaxtaálag muni aftur á móti líklega ekki breytast.

1 Í könnuninni er lánum til heimila skipt upp í húsnæðislán, bílalán og önnur lán. Lánum til fyrirtækja er skipt upp í langtíma- og skammtímalán. Jafnframt er spurt sérstaklega um lán í erlendum gjaldmiðlum bæði fyrir heimili og fyrirtæki.

Sjá nánar: Útlánakönnun Seðlabanka Íslands.


Til baka