logo-for-printing

28. desember 2016

Heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis á árinu 2017

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar nýja undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt nemur heimildin 100 ma.kr. og gildir til ársloka 2017. Frá miðju síðasta ári til loka þessa árs hefur lífeyrissjóðunum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar verið heimilt að fjárfesta erlendis fyrir samtals 95 ma.kr., þar af 85 ma.kr. í ár.

Breytingar á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál sem tóku gildi í október sl. fólu í sér veigamikil skref í losun fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki. Útstreymi fjár úr landi hefur hingað til verið lítið og fátt bendir til þess að það breytist að marki eftir að takmörk á erlenda fjárfestingu verða rýmkuð frekar nú um áramótin og millifærsla innstæðna verður heimiluð.

Gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins hefur batnað verulega samfara miklu gjaldeyrisinnstreymi, sem meðal annars má rekja til metafgangs á viðskiptajöfnuði á þriðja ársfjórðungi, og líkur á miklu gjaldeyrisútstreymi í kjölfar frekari losunar hafta hafa minnkað verulega. Því er nú unnt að veita heimild til erlendrar fjárfestingar sem spannar lengra tímabil en áður, þ.e.a.s. fyrir allt næsta ár, auk þess að hækka heimildina frá því sem hún var í ár. Þetta mun auðvelda lífeyrissjóðunum gerð fjárfestingaráætlana og stuðla að auknu hagræði í erlendum verðbréfakaupum. Sem fyrr verður þó gerð krafa um að fjárfesting sjóðanna dreifist reglulega yfir árið. Heimildin fyrir næsta ár grundvallast á því að svigrúm sjóðanna til erlendrar fjárfestingar verði sem mest en þó ekki þannig að þeir selji innlendar eignir eða dragi sig út af innlendum skuldabréfamarkaði í þeim mæli að verulegri röskun valdi. Heimildin er veitt með fyrirvara um að fjárhæðir geti breyst ef svigrúm til gjaldeyriskaupa reynist umtalsvert minna en horfur eru á nú, t.d. sakir óhagstæðrar þróunar greiðslujafnaðar eða annarra breyttra aðstæðna. Verði framhald á öflugu gjaldeyrisinnstreymi á árinu 2017 kynni á hinn bóginn að skapast svigrúm til hækkunar heimilda lífeyrissjóðanna til erlendrar fjárfestingar.

Sem fyrr eru rökin fyrir heimildinni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að lífeyrissjóðir bæti áhættudreifingu í eignasöfnum sínum. Þá er æskilegt að draga úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf þeirra áður en fjármagnshöft verða endanlega losuð og þar með hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næsta ári muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa síðar.

Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna, sem fær 86% vægi, og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum, sem fær 14% vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr síðustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, þ.e. tölum frá árinu 2015. Undanþágan mun miðast við að heimild hvers aðila gildi til 31. desember 2017 og dreifist með jöfnum hætti á mánuði ársins.

Lífeyrissjóðum, sem starfsleyfi hafa samkvæmt V. eða XI. kafla laga nr. 129/1997, og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar, sem hlotið hafa staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 10. gr. laga. nr. 129/1997, og hafa áhuga á að sækja um undanþágu frá lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál til framangreindra viðskipta, er bent á að senda umsókn til Seðlabanka Íslands. Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu má finna á eftirfarandi vefslóð: Umsóknareyðublað

Umsóknir skulu berast Seðlabankanum bréflega á eftirfarandi heimilisfang:
Seðlabanki Íslands
b.t. gjaldeyriseftirlits
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Nr. 33/2016
28.12.2016

Til baka