logo-for-printing

30. desember 2013

Samningar um uppgjör á milli Dróma, Eignasafns Seðlabanka Íslands og Arion banka

Drómi gerir upp við Arion banka sem eignast einstaklingslán Dróma og Hildu

Samningar hafa náðst á milli Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), Hildu ehf. sem er dótturfélag ESÍ, Dróma hf. (eignasafn SPRON og Frjálsa) og Arion banka hf. um yfirtöku ESÍ/Hildu á ákveðnum eignum og skuldum Dróma og uppgjöri á kröfu Arion banka á Dróma.

Skuld Dróma við Arion banka, sem í upphafi var tæpir 100 milljarðar króna, er komin til vegna ákvörðunar FME, frá 21. mars 2009, um að færa innlánsskuldbindingar SPRON yfir til Arion banka. Eignir SPRON, þ.m.t. útlán, voru settar í sérstakt félag, Dróma, og veðsettar Arion banka til tryggingar innlánsskuldinni. Skuldin greiðist að fullu upp með þeim eignum, m.a. einstaklingslánum Dróma og Hildu. Hilda mun eignast fyrirtækjalán og fullnustueignir Dróma. Samningarnir fela það í sér að ekki reynir á ábyrgð ríkissjóðs. Ennfremur flýta samningarnir fyrir lokum á slitameðferð SPRON.

Afhending eigna samkvæmt samningunum mun eiga sér stað á næstu vikum.

Af þessu tilefni segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri að þessir samningar séu enn einn áfanginn í uppbyggingu fjármálakerfisins í framhaldi af bankakreppunni. „Samningarnir fela í sér að skuldir einstaklinga við Dróma munu færast til starfandi viðskiptabanka. Jafnframt eru samningarnir liður í endurheimtum krafna Seðlabanka Íslands á fallnar fjármálastofnanir, krafna sem eru vistaðar í ESÍ. Að baki samningunum liggur mikil vinna starfsliðs, stjórnar og ráðgjafa ESÍ sem þeim og viðsemjendum er hér með þakkað fyrir,“ segir seðlabankastjóri.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir af þessu tilefni: „Það er ánægjuefni að samkomulag er í höfn. Við notum næstu daga og vikur til að fara yfir næstu skref í málinu. Þá erum við bæði að horfa til þátta sem tengjast starfsemi Dróma og þeim lánasöfnum sem bankinn hefur nú eignast. Það er þannig að gæði þessara lánasafna eru nokkuð misjöfn, að stórum hluta til eru þetta mjög góð lán en ljóst er að ákveðnir hlutar lánasafnanna þarfnast talsverðrar vinnu. Við munum leggja okkur fram um að byggja upp og efla viðskiptasambandið við þennan hóp á nýjum og betri grunni.“

Hlynur Jónsson, formaður slitastjórnar SPRON, segir af þessu tilefni: „Það er slitastjórn SPRON fagnaðarefni að nú liggi fyrir jákvæð niðurstaða sem er stór áfangi í slitaferli SPRON og mun gera okkur kleift að ljúka slitunum fyrr en upphaflega var áætlað. Í niðurstöðunni felst að kröfuhafar fá greitt upp í almennar kröfur, fullnaðaruppgjör við Arion banka og ríkissjóður verður skaðlaus. Við þökkum starfsmönnum okkar fyrir sitt framlag til að ná þessum mikilvæga áfanga. Jafnframt færum við viðsemjendum okkar þakkir fyrir faglegt samningaferli þar sem einhugur ríkti um að leiða málið til farsælla lykta fyrir alla samningsaðila.“ 

Nánari upplýsingar fyrir Seðlabanka Íslands og ESÍ veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Haukur C. Benediktsson framkvæmdastjóri ESÍ í síma s. 569 9600.

Nánari upplýsingar fyrir Arion banka veitir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s. 856 7108.

Nánari upplýsingar fyrir Dróma veitir Magnús Steinþór Pálmarsson í síma s. 841 2141.

 

Nr. 48/2013
30. desember 2013

Til baka