09.10.2018

Málstofa um pappírspeninga og uppruna nútímans

Málstofa um þetta efni verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, þriðjudaginn 9. október kl. 15:00.

Frummælandi: Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Ágrip: Saga pappírspeninga er jafnframt þróunarsaga mismunandi hagkerfa í átt að flóknari og fjölbreyttari viðskiptaháttum og jafnframt flóknari hugsunar um peningamál. Á málstofunni er ætlunin að rekja hvernig pappírspeningar urðu til í Austur-Asíu á miðöldum en voru síðan teknir upp í ýmsum vestrænum samfélögum á seinni hluta 17. aldar. Þá er ætlunin að greina ríkjandi viðhorf til pappírspeninga á meðan þeir voru ennþá nýjung; þ.e. fram til um 1750.

Saga pappírspeninga og þróunar þeirra hefur iðulega verið rituð í vestrænu samhengi þar sem ætla má að þessir peningar spretti óvænt fram á 17. öld eins og Aþena úr höfði Seifs. Forsaga þeirra í Austurlöndum fjær hefur verið rannsóknarefni sérfræðinga í sögu Kína en sjaldan verið sett í almennt hagsögulegt samhengi. Hér á eftir er ætlunin að bæta úr því og reyna að skýra þessa þróun í heild. Samanburður á tilraunum með peningaseðla í ólíkum samfélögum ætti einnig að varpa nokkru ljósi á það við hvaða aðstæður slíkur gjaldmiðill nær að festa rætur.

Til baka