18.03.2016

Málstofa um sjóðstreymi banka og fjármálastöðugleika.

Málstofa um sjóðstreymi banka og fjármálastöðugleika verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, föstudaginn 18. mars kl. 15.


Frummælandi: Ásgeir B. Torfason, lektor við Háskóla Íslands.

Ágrip:
Alþjóðlega fjármálakrísan sem hófst 2007 hefur undirstrikað mikilvægi þess að greina betur grundvallarþætti fjárhagsupplýsinga í reikningshaldi fjármálastofnana. Fjárhagsleg gögn úr reikningsskilum eru stundum kölluð tungumál viðskiptalífsins, þar sem skilaboðum er komið á framfæri um rekstur og hagnað, eignir, skuldir og eigið fé auk handbærs fjár. Þetta samskiptakerfi viðskiptalífsins hætti að virka, þrátt fyrir alþjóðleg stöðluð reikningsskil og ítarlegar upplýsingar um fjármál fyrirtækja, þegar traust hvarf af mörkuðum haustið 2008.

Doktorsritgerð frummælanda, Cash flow accounting in banks - a study of practice, sýnir að sjóðstreymi skandinavískra banka var neikvætt í yfir áratug. Þá voru skoðaðar breytingar reikingsskilareglna á alþjóðavísu í þessu sambandi og sérstaklega út frá muninum á bönkum og öðrum fyrirtækjum. Ritgerðin byggðist einnig á ítarlegri viðtalsrannsókn í helstu bönkum Norðurlanda. Tölurnar úr sjóðstreymisyfirlitum eru almennt notaðar sem vísbending um lausafjárstöðu og greiðsluhæfi fyrirtækja – en sú er ekki raunin varðandi banka. Þessi staðreynd dregur fram mikilvægan mun í reikningshaldi banka og annarra fyrirtækja, sérstaklega að því er varðar handbært fé frá rekstri.

Það skiptir miklu máli við mat á sjóðstreymi banka að meta vöxt, sem m.a. birtist í neikvæðu sjóðstreymi, út frá sjálfbærni (sustainability) rekstrar (business model) þeirra fyrirtækja sem lán eru veitt til. Þetta þarf einnig skoða út frá áhrifum gangvirðisreikningsskila (fair value) og heildartölum úr fjármálakerfinu í tengslum við raunhagkerfið í heild. Í kjölfar fjármálahrunsins hefur aukist áhersla á að greina gæði útlána banka (asset quality) með tilliti til gæða reikningsskila þeirra sem lánað er til. Þá verður þjóðhagsvarúð (macro prudential) að byggjast upp í tengslum við eftirlit með forsendum rekstrar og eindarvarúð (micro prudential) og því er mikilvægt að taka mið af mismunandi sjóðstreymi þegar stuðla á að fjármálastöðugleika.

Um höfund:

Ásgeir Brynjar Torfason lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla árið 2014 og fjallaði ritgerðin um flæði peninga í bankakerfinu. Fyrri hluta doktorsnámsins stundaði hann rannsóknir á verðmati eigna á efnahagsreikningum og langtíma fjárfestingar í fasteignum. Þá var hann svæðistjóri Norðurlanda hjá alþjóðlegum fagfjárfestasjóði fyrir fasteignir fyrirtækja. Þar áður var Ásgeir skrifstofustjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs Háskóla Íslands eftir að hann lauk alþjóðlegu MBA-námi í rekstrarhagfræði frá norska viðskiptaháskólanum BI í Ósló og BA-gráðu í heimspeki og hagfræði frá Háskóla Íslands.

Til baka