logo-for-printing

18.04.2009

Ávarp Láru V. Júlíusdóttur formanns bankaráðs á ársfundi Seðlabanka Íslands 17. apríl 2009

Hæstvirtur forsætisráðherra, ráðherrar, bankastjóri og aðrir góðir gestir.

Fyrir hönd bankaráðs Seðlabanka Íslands býð ég ykkur velkomin til þessa fertugasta og áttunda ársfundar bankans og segi fundinn settan. Að loknum inngangsorðum mínum flytur Seðlabankastjóri Svein Harald Öygard ársfundarræðu sína. Að endingu ávarpar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fundinn. Að loknum fundarstörfum býð ég fundargestum að þiggja veitingar.

Forsætisráðherra hefur staðfest ársreikning bankans fyrir árið 2008 með áritun sinni 31. mars síðastliðinn. Ársskýrsla bankans fyrir árið 2008 er gefin út í dag og liggur frammi í lok fundarins.

Ágætu fundargestir.

Árið 2008 var Seðlabanka Íslands þungt í skauti eins og öðrum stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum. Samkvæmt rekstrarreikningi nam tap ársins 8,6 milljörðum króna en var til samanburðar 1,2 milljarðar kr. árið á undan. Aukið tap verður þrátt fyrir að hreinar vaxtatekjur bankans hafi aukist en þær námu um 20 milljörðum kr. á árinu 2008 samanborið við 6 milljarða kr. árið á undan. Skýringin liggur fyrst og fremst í því að stöðustærðir sem vextir reiknast af hafa hækkað talsvert að meðaltali milli ára. Þannig námu heildareignir í árslok 2007 tæplega 500 milljörðum kr. en voru ári síðar orðnar um 1.200 milljarðar kr. 

Þá hafði þróun á gengi krónunnar mikil áhrif á rekstur bankans. Á árinu 2007 styrktist krónan og bankinn varð fyrir gengistapi sem nam tæplega 6 milljörðum kr. Mikil umskipti urðu að þessu leyti á árinu 2008. Þá leiddi gengislækkun til þess að gengishagnaður nam um 44 milljörðum kr., enda voru gengisbundnar eignir bankans nokkru hærri en gengisbundnar skuldir eins og jafnan er. Breytingin á milli ára nam því um 50 milljörðum kr. Mest af þessum gengishagnaði hafði komið fram við hrun viðskiptabankanna í byrjun október. Lítill munur var hins vegar á gengisbundnum eignum og skuldum bankans síðustu þrjá mánuði ársins.

Þær miklu þrengingar sem urðu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á síðasta ári leiddu til almenns lausafjárskorts og mikillar eftirspurnar eftir lausafjárfyrirgreiðslu seðlabanka. Seðlabanki Íslands var þar engin undantekning. Í sumum tilfellum var lánað gagnvart veðum sem reyndust ótrygg þegar íslensk fjármálafyrirtæki féllu í valinn hvert á fætur öðru. Nauðsynlegt reyndist að afskrifa útlán og nam gjaldfærslan 75 milljörðum kr. en slíkur gjaldaliður hefur verið fátíður í bókum bankans. Samkomulag varð um að ríkissjóður keypti tiltekin veðlán og daglán gagnvart smærri fjármálastofnunum þar sem undirliggjandi veð voru í skuldabréfum útgefnum af viðskiptabönkunum þremur. Að auki keypti ríkissjóður nokkur veðlán með traustum veðum. Samtals nam bókfært verð þessara eigna sem ríkissjóður keypti 345 milljörðum kr. en kaupverðið var 270 milljarðar kr. og var greitt með verðtryggðu skuldabréfi.  Mismunurinn, 75 milljarðar kr., var gjaldfærður í bókum bankans. Sennilegt er að ríkissjóður verði að færa þessar keyptu eignir frekar niður en viðskiptin voru ákveðin með þessum hætti með það að markmiði að eiginfjárstaða bankans stæði að mestu óbreytt frá ársbyrjun til ársloka 2008.

Loks þykir rétt að skýra frá því að önnur rekstrargjöld bankans hækkuðu úr 1,5 milljarði kr. í 3 milljarða kr. Þar munar mest um hækkun á sérfræðiráðgjöf sem bankinn keypti og var hún að mestu í tengslum við hrun viðskiptabankanna í byrjun október, en aukning ráðgjafarkostnaðar nam um 1,1 milljarði kr. milli áranna 2007 og 2008. 

Þar sem gjöld voru hærri en tekjur sem nam tæplega 53 milljörðum kr. að slepptum gengismun rennur ekkert framlag frá bankanum í ríkissjóð vegna afkomu ársins. Á árinu 2007 nam það framlag rúmlega 2 milljörðum kr. og svarar til eins þriðja hlutar af 7 milljörðum kr. í hagnað á því ári án gengismunar. 

Í efnahagsreikningi bankans kemur fram að erlendar eignir í forða hafa hækkað um 266 milljarða kr. en þær námu 429 milljörðum í árslok 2008. Sé miðað við gengi evrunnar hefur forðinn hækkað úr 1,8 milljarði evra í 2,5 milljarða evra.  Stór hluti hækkunarinnar í krónum talið stafar því af gengismun en skýringar er ennfremur að leita í raunaukningu forðans í erlendri mynt.

Lán gagnvart innlánsstofnunum og öðrum fjármálastofnunum námu alls 483 milljörðum kr. í árslok 2008 en voru til samanburðar 308 milljarðar kr. í lok ársins á undan. Hér verður að hafa í huga að útlán sem ríkissjóður keypti af bankanum eru ekki meðtalin í þessum tölum. Fyrir útlánum bankans í árslok 2008 eru að mati bankans traust veð en með hliðsjón af þeirri stöðu sem almennt ríkir á fjármálamarkaði um þessar mundir verður þó að vekja máls á því að einhver óvissa kann að vera um að þessar kröfur innheimtist að fullu.

Erlendar skuldir bankans hafa hækkað um 240 milljarða kr. á árinu 2008 en þær námu 2 milljörðum kr. í árslok 2007. Þar munar mest um fyrsta hlutann í fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) en hann var 560 milljónir SDR sem svarar til 104 milljarða kr. í árslok 2008. Þá hafa skuldir ennfremur aukist vegna lánafyrirgreiðslu norrænu seðlabankanna sem gerðu skiptasamninga við bankann og nam staða þeirra 76 milljörðum kr. í árslok 2008. Að auki voru tekin skammtímalán hjá Alþjóðagreiðslubankanum (BIS) og námu þau samtals um 58 milljörðum kr. í árslok 2008.

Innstæður innlánsstofnana og annarra fjármálastofnana jukust talsvert á árinu 2008 en þar munar mest um innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum og innstæðubréf. Innstæður námu alls 396 milljörðum kr. í árslok 2008 en voru 153 milljarðar kr. í lok ársins á undan.

Loks hækkuðu innstæður ríkissjóðs hjá bankanum úr 211 milljörðum kr. í árslok 2007 í 403 milljarða kr. í árslok 2008. Þar munar mest um gengismun af láni sem tekið var til aukningar á forða bankans í árslok 2008, nýtt lán til aukningar á forðanum og aukningu á viðskiptareikningi ríkissjóðs hjá bankanum. 

Eigið fé bankans nam 82 milljörðum kr. í árslok 2008 en var 91 milljarður kr. í lok ársins á undan og skýrist munurinn af tapi ársins. 

Í reikningsskilum bankans að öðru leyti er greint frá sjóðstreymi þar sem m.a. er greint frá því að fé frá rekstri hafi numið um 14 milljörðum kr., auk upplýsinga um raunstrauma á fjármuna- og fjármagnshlið í efnahagsreikningi bankans. Loks fylgja reikningum bankans ítarlegar skýringar á mikilvægum liðum. 

Ársins 2008 verður lengi minnst vegna þeirra miklu hremminga sem urðu á fjármálamörkuðum. Hér á landi einkenndist fyrri hluti ársins af vaxandi erfiðleikum í fjármálakerfinu og þjóðarbúskapnum í heild, bæði vegna innri og ytri aðstæðna. Á seinni hluta ársins fóru stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír í þrot með nokkurra daga millibili. Neyðarlög voru sett, rekstur bankanna yfirtekinn og þeim skipt upp í gamla og nýja banka og um tíma tók Seðlabankinn að sér að sinna greiðslumiðlun þeirra við útlönd. Stjórnvöld gengu til viðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um samstarf til að koma á efnahagslegum stöðugleika. Bankinn kom að mörgum þeim þáttum sem nefndir eru hér að framan. Það er ljóst að í þessari atburðarrás reyndi mikið á starfsfólk Seðlabankans. Vil ég fyrir hönd bankaráðsins koma á framfæri þakklæti fyrir vel unnin störf á árinu. Það er ljóst að Seðlabankans bíða nú mörg mikilvæg verkefni. Í mínum huga er brýnasta verkefnið að tryggja gengis- og verðstöðugleika sem verður forsenda þess að vernda efnahagsreikninga fyrirtækja og heimila.

 

Til baka