logo-for-printing

01.06.2007

Ræða Davíðs Oddssonar á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Íslands 31. maí 2007

Fyrir hönd bankastjórnar Seðlabanka Íslands  fagna ég því að samstarf tókst á milli bankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að standa fyrir þeirri ráðstefnu sem nú hefst. Ég tel reyndar að umræðuefnið sé vel til fundið og leyfi mér að halda því fram að staðsetning umræðunnar sé einnig mjög við hæfi. Sú fullyrðing er ekki eingöngu reist á þeirri staðreynd að á Íslandi fer fram eins konar verkleg tilraun á viðfangsefninu um þessar mundir. Það má halda því fram að slíkar tilraunir fari fram víðar en hér. En íslenska tilraunin hefur það fram yfir aðrar að svo vill til að þróun efnahagslífsins á Íslandi hefur verið með nokkrum tilþrifum á undanförnum tiltölulega fáum árum og segja má að einstakir þættir sem upp úr þeirri atburðarás standa veki upp spurningar sem hafa mikla þýðingu fyrir þessa ráðstefnu.

Það er ekki vafi á að Ísland mætti nokkuð seint til leiks í meistaradeild hins virka markaðar, sem mótar efnahagsþróun í veröldinni meira en annað, enda voru þær reglur sem Íslendingar bjuggu við lengi vel þannig að þeir voru ekki gjaldgengir á þeim markaði. Umgjörð hagstjórnar á Íslandi hefur á hinn bóginn tekið stakkaskiptum á tiltölulega fáum árum og á sama tíma hafa orðið gríðarleg umbrot í því viðskiptalífi sem á rót í þessu landi. Ef aðeins er horft til síðustu fjögurra/fimm ára er ekki vafi á því að reynt hefur á þanþol ýmissa efnahagslögmála til hins ýtrasta og til að fullvissa utanaðkomandi aðila um að ekki hafi verið of djarft teflt hefur því verið haldið fram, og vonandi með réttu, að íslenskt efnahagsumhverfi hafi ýmsa kosti sem ekki séu augljósir þeim sem vanari séu að starfa við stærri og þunglamalegri skilyrði. Hér sé sveigjanleikinn mikill, aðgerðir stjórnvalda gagnsæjar, boðleiðir stuttar og ákvarðanataka því auðveldari og einstaklingar, fyrirtæki og yfirvöld því snarari í snúningum að bregðast við efnahagslegum erfiðleikum eða álitaefnum en annars staðar gerist.

Til að gera viðfangsefnin snúnari og álitlegri til umræðu á ráðstefnu eins og þessari, þá beitti ríkisvaldið sér sjálft fyrir þörfum aðgerðum sem gagnast munu landi og lýð til langframa. Tímasetning og umfang þessara ákvarðana kunna hins vegar að vekja spurningar. Ríkið stóð þannig að mestu sjálft í því að laða til landsins stærstu, einstöku fjárfestinguna, sem ráðist hefur verið í og ríkisfyrirtækið, Landsvirkjun, varð að bregðast við þeirri fjárfestingu með annarri eins af sinni hálfu. Peningalegt innstreymi var gríðarlegt. Við þetta eitt var ekki látið sitja heldur var um líkt leyti umbylt opinberri aðkomu að húsnæðisfjárfestingum og sú skipulagsbreyting hlaut óvænt margföldunaráhrif er bankarnir, nýfengnu frelsi fegnir, gripu það boðkefli og hlupu með það hraðar eftir brautinni en væntingar forsvarsmanna hins opinbera höfðu staðið til.

Á sama tíma hafa íslenskir bankar og fjármálastofnanir seilst til áhrifa í nálægum erlendum mörkuðum og að einhverju marki þeim sem fjær eru. Bankarnir hafa vaxið hratt og eru orðnir hlutfallslega mjög stórir ef horft er til efnahagslífsins innan marka landsins sjálfs og reyndar á hvaða mælikvarða sem horft er. Hin erlendu umsvif fjármálastofnana hafa einnig kallað fram nýja stöðu sem sumir hafa nefnt “útskýringarvanda hins íslenska efnahagslífs”. Þótt ég telji að of mikið sé gert úr þeim vanda vegna þess að hann hljóti að vera tímabundinn, þá er því ekki að neita að gjaldmiðillinn sjálfur og smæð hans kemur mjög við sögu, þegar þessi þáttur er kynntur. Þeir þættir sem ég nefndi áðan til sögunnar hafa með öðrum ýtt undir mikinn verðbólguþrýsting í landinu, sem hefur að nokkru fengið útrás í hærri verðbólgumælingum, en að sumu leyti hefur hann verið haminn með ákvörðunum Seðlabankans um stýrivexti sem svo hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar a.m.k. um nokkurt skeið. Og þessir tveir þættir saman hafa kallað á enn eitt álitaefni sem kemur við sögu þessarar ráðstefnu.

Sem sagt það, að vegna þessarar sérstöku stöðu, hafa nýir fjárfestar gert strandhögg, þ.e. þeir sem stunda vaxtamunarviðskipti. Þessir víkingar nútímans freista gæfunnar á ókunnum slóðum í von um skjótfenginn gróða og myndarlega ávöxtun, sem þeir finna ekki lengur nærri sínum heimahögum. Hvað mun gerast þegar þessir eldhugar vaxtavæntinganna missa skyndilega kjarkinn? Eða lystina? Hvort sem það gerist vegna atvika sem hafa orðið annars staðar en hér og við allt önnur skilyrði en hér, eða vegna þráláts orðróms, vangaveltna og kenninga um íslenskar aðstæður og áhættu sem eiga sér litla eða enga stoð um þær mundir. Hlaupa þeir þá með sitt hafurtask á haf út, eins og víkingar fortíðar með það sem þeir hafa önglað saman og leita í skjól fyrir raunverulegri eða ímyndaðri vá með sinn feng? Ef þetta gerist kemur þá skellur á hávaxtalöndin? Og ef svo fer verður sá skellur mestur hjá þeim sem minnstir eru og þar sem þekkingin og trúin hjá fjárfestum er eðli málsins samkvæmt veikust? Og svo er spurt um áhrif þessa alls á mátt Seðlabankans til að láta stefnu sína stýra verðlagsþróuninni í landinu og hvort allir væru betur settir innmúraðir í eina af ofurmyntunum og lútandi þeim lögmálum sem þar gilda og ofurseldir annarra ákvörðunum.

Allir þessir þættir og margir aðrir geta verið ágætis sprek á eld umræðunnar á þessari ráðstefnu á Íslandi. Sumir halda því fram að hinn ævintýralegi ávinningur sem orðið hefur á örfáum árum á Íslandi hefði aldrei getað komið til nema vegna þess að landið bjó við sína eigin mynt. Aðrir segja að afleiðingarnar kunni að vera erfiðari viðfangs og langvinnari vegna þess að landið býr við sína eigin mynt og er ekki í skjóli af stóru myntsvæði. Og enn aðrir segja að ef Íslendingar festast í annarra manna mynt og lúta annarra manna lögmálum, vöxtum sem miðaðir eru við það sem gerist í Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi, en ekki á Íslandi, þá muni það leiða til þess að varlegar verði spilað í landinu kalda hér í norðrinu, áhættusækni muni minnka og heilbrigðari blær færast yfir efnahagsþróunina. Álitaefnin eru því mörg og ég hef aðeins nefnt fáein þeirra. Ég hef að sjálfsögðu gætt þess í inngangsorðum mínum að skilja allar spurningar eftir í lausu lofti fyrir þá sem á eftir koma. Það er nefnilega sérstakt ánægjuefni að tekist hafi að véla hingað svo marga góða menn til að takast á fræðilega og af mikilli þekkingu um þessi álitaefni. Jafnframt er hitt gleðilegt að færustu sérfræðingar okkar hafa fengið tækifæri og tóm til þess að velta málum fyrir sér og koma sinni hlið á framfæri. Það standa því öll efni til þess að árangur þessarar ráðstefnu verði góður. Til hennar var stofnað af ríkulegu tilefni, á réttum stað og tíma, og með einstaklega vönduðum fyrirlesurum.

Til baka