logo-for-printing

31.03.2006

Ávarp Ólafs G. Einarssonar formanns bankaráðs á ársfundi Seðlabanka Íslands 31. mars 2006

Forsætisráðherra, hæstvirtu ráðherrar, forseti Alþingis, aðrir góðir gestir.

Fyrir hönd bankaráðs Seðlabanka Íslands býð ég ykkur velkomin til þessa 45. ársfundar bankans og segi fundinn settan. Að loknum inngangsorðum mínum mun formaður bankastjórnar Davíð Oddsson ræða framvindu efnahags- og peningamála, stefnu bankans í peningamálum og framkvæmd hennar auk þess að fjalla um þætti sem lúta að stöðu fjármálafyrirtækja. Að ræðu hans lokinni ávarpar Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fundinn. Að loknum fundarstörfum býð ég fundarmönnum að þiggja veitingar. Fundargestir munu taka eftir því að myntsafn Seðlabankans og Þjóðminjasafnsins sem áður var til húsa í Einholti 4 hefur nú verið flutt í aðalbyggingu bankans við Kalkofnsveg. Sýningunni hefur nokkurn veginn verið komið endanlega fyrir og verður hún opnuð formlega innan tíðar. Fundargestum gefst kostur á að virða hana fyrir sér eins og hún er nú.

Á fundi bankaráðs fyrr í dag staðfesti forsætisráðherra ársreikning bankans fyrir árið 2005 með áritun sinni. Ársskýrsla bankans fyrir árið 2005 er gefin út í dag og liggur frammi í lok fundarins.

Ársreikningur Seðlabanka Íslands er gerður upp á grundvelli reglna sem settar eru af forsætisráðherra. Þær kveða m.a. á um að hann skuli gerður upp í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga, um fjármálafyrirtæki og um bókhald og við góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur. Mikilvægar breytingar voru gerðar á reglunum á síðasta ári og komu þær til framkvæmda við uppgjör ársreiknings bankans fyrir árið 2005. Í fyrsta lagi fela breytingarnar í sér að fastafjármunir bankans skuli færðir í efnahagsreikning hans. Áður voru þeir gjaldfærðir við kaup og þeirra getið í skýringum við ársreikninginn. Við þessa breytingu stækkaði efnahagsreikningur bankans um 4,9 milljarða króna. Með henni var fylgt fordæmi seðlabanka flestra iðnríkja. Hin meginbreytingin á reglunum var sú að áður en reiknað er framlag til ríkissjóðs samkvæmt 34. gr. laga um bankann skal draga frá hagnaði ársins samkvæmt rekstrarreikningi reiknaðar tekjur og gjöld vegna breytinga á gengi íslensku krónunnar.

Með því að halda gjaldeyrisforða er Seðlabankinn seldur undir gengisáhættu af völdum breytinga á gengi íslensku krónunnar, breytinga sem hann getur ekki firrt sig og þeim mun meiri sem forðinn er meiri. Breytingar á gengi krónunnar hafa hins vegar engin áhrif á virði forðans í erlendum gjaldeyri eða kaupmátt hans í útlöndum. Erlendar eignir og skuldir bankans eru færðar á markaðsvirði umreiknuðu á gengi íslensku krónunnar í árslok. Breytingar á gengi krónunnar hafa bein áhrif á afkomu bankans því gengistap og gengishagnaður er hvort tveggja fært að fullu í rekstrarreikning.

Samkvæmt rekstrarreikningi varð tap á rekstri Seðlabankans á árinu 2005 að fjárhæð 2,8 milljarðar króna samanborið við 6 milljarða króna tap á árinu áður. Bókfært gengistap sem leiðir af áhrifum hækkunar á gengi íslensku krónunnar á fjárhæð gjaldeyrisforðans í krónum nam 2,6 milljörðum króna. Vaxtatekjur af innlendum eignum hækkuðu um 1,7 milljarða króna og af erlendum eignum um 51 milljón króna. Vaxtagjöld af innlendum skuldum jukust um 2,5 milljarða króna en af erlendum skuldum um 13 milljónir króna. Afskriftir að fjárhæð 90 milljónir króna voru í fyrsta sinn færðar til gjalda í rekstrarreikningi. Rekstrarkostnaður bankans, að meðtöldum afskriftum, nam tæpum 1,3 milljörðum króna og lækkaði nokkuð frá fyrra ári.

Á árinu 2005 hækkaði niðurstöðutala efnahagsreiknings Seðlabankans um tæpa 56 milljarða króna í 162 milljarða króna í lok ársins. Á eignahlið jukust einkum endurhverf viðskipti bankans við lánastofnanir og á skuldahlið jukust einkum innstæður ríkissjóðs. Því urðu töluverðar breytingar á samsetningu efnahagsreiknings bankans á árinu 2005. Á árunum 2003 og 2004 voru innlendar eignir bankans mun minni en erlendar og námu 33 og 39% heildareigna. Þetta snerist við á árinu 2005. Í lok þess voru innlendar eignir liðlega 58% heildareigna bankans. Ástæða þessarar breytingar er ekki síst sú að ríkissjóður lagði hluta af söluandvirði Símans sem greitt var á haustmánuðum á reikning í Seðlabankanum. Við það þrengdist lausafjárstaða lánastofnana og endurhverf viðskipti Seðlabankans jukust til muna. Þau voru tæpir 38 milljarðar króna í byrjun ársins en tæplega 88 milljarðar króna í lok þess.

Frá árinu 2004 hefur Seðlabankinn þrengt verulega vaxtabil sitt, þ.e. muninn á hæstu og lægstu vöxtum sínum. Á miðju ári 2004 munaði 5 prósentum á hæstu og lægstu vöxtum bankans en undir lok árs 2005 var þessi munur kominn í 3 prósentur. Tilgangurinn með þessari breytingu var að efla virkni aðgerða bankans í peningamálum og draga úr sveiflum í vöxtum á millibankamarkaði. Minni vaxtamunur þýðir einnig að afkoma bankans verður lakari en ella að öðru óbreyttu.

Í ársskýrslu bankans er ársreikningurinn birtur í heild sinni ásamt skýringum. Auk þess er í skýrslunni gerð ítarlegri grein fyrir afkomu bankans á árinu og breytingum á efnahagsreikningi.

Í september sl. tilkynnti formaður bankastjórnar Birgir Ísleifur Gunnarsson að hann hefði ákveðið að láta af störfum í lok þess mánaðar. Birgir Ísleifur Gunnarsson var skipaður bankastjóri í Seðlabanka Íslands frá 1. febrúar 1991. Hann var kosinn formaður bankastjórnar í byrjun maí árið 1994. Birgir Ísleifur hafði því verið bankastjóri í hátt í fimmtán ár og formaður bankastjórnar í nokkuð á tólfta ár. Í tíð Birgis Ísleifs sem formanns bankastjórnar urðu róttækar breytingar á íslensku fjármálakerfi. Hömlur og höft viku fyrir frelsi í hvers kyns viðskiptum, innlendir fjármálamarkaðir þróuðust hratt og síðast en ekki síst var umgjörð peningamálastjórnar gjörbreytt og Seðlabankanum veitt meira sjálfstæði til athafna og eigin ákvarðana en hann naut áður. Engum sem fylgdist með Seðlabankanum á undanförnum árum duldist að honum var stýrt af festu og fagmennsku og trúverðugleiki hans styrktist. Slíkur árangur næst ekki nema undir styrkri stjórn. Birgir Ísleifur ávann sér virðingu og traust innan sem utan bankans. Fagmennska, hógværð, festa og virðuleiki einkenndu fas hans allt í samskiptum við bankaráðið, hvort heldur á fundum þess eða öðrum stundum. Fyrir hönd bankaráðs þakka ég Birgi Ísleifi samstarfið og farsæla forystu í bankanum.

Sem kunnugt er var Davíð Oddsson skipaður formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands frá 20. október sl. Davíð Oddsson þarf ekki að kynna; hann er þekktur af störfum sínum á öðrum vettvangi, sem borgarstjóri í Reykjavík, forsætisráðherra í meira en 13 ár og síðast utanríkisráðherra. Ég býð Davíð Oddsson hér með formlega velkominn til starfa og árna honum allra heilla í starfi í Seðlabankanum.

Nokkrar breytingar urðu á starfsliði bankans á liðnu ári. Alls létu 13 starfsmenn af störfum en 14 hófu störf hjá bankanum þannig að starfsmönnum fjölgaði um 1 frá árinu 2004. Í árslok voru starfsmenn Seðlabankans 116 að tölu en starfsgildi voru liðlega 107.

Sú breyting varð á skipan bankaráðs á árinu 2005 að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hvarf úr því að eigin ósk. Ég þakka Ingibjörgu Sólrúnu samstarfið í bankaráði. Í hennar stað kaus Alþingi Jón Þór Sturluson í bankaráðið en hann hafði áður verið varamaður. Varamaður í stað hans var kjörinn Ellert B. Schram. Bankaráð hélt 22 fundi á árinu. Ég þakka fulltrúum í bankaráði einkar ánægjulegt samstarf og vel unnin störf. Þá þakka ég bankastjórn og starfsfólki bankans mjög góð störf á liðnu ári og farsælt samstarf við bankaráðið.

Liðið ár var viðburðaríkt í Seðlabanka Íslands og yfirstandandi ár stefnir í að verða það einnig. Ég er þess fullviss að bankinn mun hér eftir sem hingað til sinna hlutverki sínu af fagmennsku og festu.
Til baka