logo-for-printing

02.04.2003

Peningastefnan og íslenska krónan

Birgir Ísleifur Gunnarsson, bankastjóri og formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, flutti ræðu þá er hér er birt á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar 2. apríl 2003.

Góðir fundarmenn.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir boðið hingað á aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar og að fá tækifæri til að ræða við fundargesti um peningastefnuna og íslensku krónuna.

Ef litið er aftur í tímann má greina miklar breytingar á efnahagsumhverfinu og stjórnun þess. Áður var efnahagsstefnan mjög handahófskennd og tók stundum stakkaskiptum án mikils fyrirvara. Barátta við verðbólgu var viðvarandi viðfangsefni í efnahagsmálum og oft fór verðlag verulega úr böndum. Höft voru á gjaldeyrisviðskiptum og gengi var ákvarðað af stjórnvöldum í samráði við Seðlabanka Íslands en oft gripu stjórnvöld inn í þróunina með gengisfellingum sem ákveðnar voru á pólitískum vettvangi. Vextir virkuðu ekki sem stýritæki nema að afar takmörkuðu leyti og hlutverk Seðlabankans eins og það var skilgreint í lögum um bankann var margþætt og sum markmiða hans stönguðust á við önnur.

Smám saman hafa verið gerðar miklar breytingar á skipulagi efnahagsmálanna. Flutningur fjármagns á milli Íslands og annarra landa er nú óheftur en síðustu leifar takmarkana voru afnumdar árið 1995 þegar heimilt var að flytja skammtímafjármagn á milli landa. Gjaldeyrismarkaði var komið á 1993 og hefur hann eflst mikið síðan og gengi krónunnar ræðst nú af framboði og eftirspurn á markaði.

Þegar verðbólgubálið logaði sem glaðast var gjarnan reynt að lagfæra ójafnvægi í efnahagskerfinu með gengisfellingu. Hlutverk gengisfellinganna var að auka útflutningstekjur og yfirvinna þar með neikvæða innlenda kostnaðarþróun. Ávinningurinn var oftast skammvinnur og fyrr en varði var ástandið komið í sama farveg og áður, mikil verðbólga og ójafnvægi. Vextir voru ákveðnir af Seðlabanka Íslands og oftast með miklum afskiptum stjórnmálamanna. Þetta leiddi annars vegar til þess að  fjármagnseignir brunnu upp, oft með ógnar hraða og hins vegar til óeðlilegrar úthlutunar lánsfjár sem var af skornum skammti og margir minnast langra biðraða við útidyr bankanna sem byrjuðu að myndast snemma morguns.

Verðtrygging fjármagns var fyrsta árangursríka tilraunin til að brjótast út úr þessum vítahring. Breytingar tóku hins vegar langan tíma og voru oft sársaukafullar. Þjóðarsátt aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera í lok níunda áratugar síðustu aldar markaði upphaf aukins jafnvægis í efnahagsmálum. Þjóðarsáttin byggðist á tímabundinni skerðingu kaupmáttar og gengisfestu sem leiddi til verðstöðugleika og gerði fyrirtækjum í landinu kleift að ná betra jafnvægi í rekstri. Þrátt fyrir ágjöf á ungum fjármagnsmarkaði, atvinnuleysi og skerðingu aflaheimilda, tókst að snúa vörn í sókn og síðustu árin hefur hagvöxtur hér á landi verið með ágætum og betri en víðast annars staðar og styrkari stoðum hefur verið rennt undir atvinnulífið hér á landi, bæði á vettvangi stóratvinnurekstrar og smærri rekstrar. Kaupmáttur hefur einnig vaxið umtalsvert og eru fá dæmi um jafn mikinn og langvarandi vöxt kaupmáttar meðal þróaðra ríkja.

Samhliða þessari þróun urðu einnig miklar framfarir á fjármagnsmarkaði og í stjórn peningamála. Framfaraskeið á þessu sviði hófst fyrir alvöru í byrjun síðasta áratugar. Lagaleg umgjörð peningastofnana og fjármagnsviðskipta var endurbætt verulega í kjölfar aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og hafa síðan verið gerðar enn frekari breytingar á henni. Verðbréfamarkaður náði smátt og smátt að skjóta sterkum rótum og ýmsir fjármagnsmarkaðir voru settir á fót, t.d. innlendur gjaldeyrismarkaður og síðan millibankamarkaður með krónur. Höft á flutningum fjármagns á milli landa voru smám saman afnumin eins og ég gat um áðan og draga tók úr afskiptum hins opinbera af rekstri fyrirtækja á fjármagnsmarkaði.

Í maí 2001 samþykkti Alþingi með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna ný lög um Seðlabanka Íslands sem fólu í sér umfangsmiklar breytingar frá fyrri lögum. Lögin tóku mið af nýjungum í seðlabankalöggjöf í öðrum löndum og skutu m.a. styrkari stoðum undir hina nýju stefnu sem ákveðin hafði verið tveimur mánuðum áður þegar tekið var upp verðbólgumarkmið. Mikilvægasta breytingin frá fyrri lögum var sú að Seðlabankanum var sett eitt meginmarkmið, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi. Honum var veitt sjálfstæði til að beita stjórntækjum sínum til þess að ná þessu markmiði. Að auki var bankanum falið að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.e. stöðugleika fjármálakerfisins. Lögin kváðu jafnframt á að ríkissjóði væri óheimilt að taka lán í Seðlabankanum en nokkrum árum áður hafði það verið ákveðið með samningi milli Seðlabankans og fjármálaráðherra. Þá gerðu þau tilteknar kröfur um gagnsæi og reikningsskil gagnvart stjórnvöldum og almenningi. Bankanum var t.d. gert að skyldu að gera opinberlega grein fyrir stefnu sinni í peningamálum og framvindu peninga- og gengismála og aðgerðum sínum á þeim sviðum eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.

Í mars 2001 var breytt umgjörð stefnunnar í peningamálum á Íslandi. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn gáfu þá út sameiginlega yfirlýsingu um að tekið yrði upp svokallað verðbólgumarkmið sem kjölfesta og umgjörð peningastefnunnar. Um leið var lögð af fastgengisstefna sem fylgt hafði verið í liðlega áratug. Í upphafi var gengisstefnan þannig að tiltölulega þröng vikmörk voru um viðmiðunargengi eða miðgengi krónunnar 2¼% til hvorrar áttar. Þau voru víkkuð í tveimur áföngum og urðu 9% í hvora átt snemma árs 2000. Það var því allmikil sveigja í þróun gengisins. Á þessu tímabili var stöðugt verðlag meginmarkmið peningastefnunnar og millimarkmiðið stöðugt gengi. Verðbólgumarkmiðið felst í því að Seðlabankanum ber að stuðla að því að verðbólga sé sem næst 2½%. Verði frávik verðbólgu meira en sem nemur 1½% til hvorrar áttar ber bankanum að skila greinargerð til ríkisstjórnar þar sem skýrt er hvað valdi þessu fráviki, hvernig bankinn hyggist bregðast við því og hve langan tíma hann telji það taka að ná verðbólgu aftur að verðbólgumarkmiðinu.

Seðlabankinn hefur aðeins eitt stjórntæki til að ná þessu markmiði. Það eru þeir vextir sem gilda í viðskiptum Seðlabankans við lánastofnanir, stundum kallaðir stýrivextir Seðlabankans. Bankarnir ákveða síðan eigin vexti með hliðsjón af vöxtum Seðlabankans og skammtímamarkaðsvextir breytast einatt í takt við vexti Seðlabankans. Vaxtabreytingar Seðlabankans hafa einnig áhrif á langtímavexti en aðrir þættir hafa einnig áhrif á þá. Viðbrögð við vaxtabreytingum Seðlabankans á langtímamarkaði eru því ekki alltaf fyrirsjáanleg og verða oft með einhverri töf.

Þegar innlendur gjaldeyrismarkaður var settur á laggirnar 1993 urðu verulegar breytingar á ákvörðun gengis. Gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum var ákveðið á markaði og réðist af framboði og eftirspurn. Framan af hafði Seðlabankinn veruleg afskipti af gjaldeyrismarkaðnum enda voru innlendar bankastofnanir ekki í stakk búnar til að bera kyndilinn í upphafi. Þótt fyrirkomulag gengisstefnunnar leyfði sveiflur í gengi bar Seðlabankanum að grípa inn í þróunina ef líkur voru á að gengið færi út fyrir vikmörkin. Fyrst í stað var Seðlabankinn aðili að flestum viðskiptum á gjaldeyrismarkaði en eftir því sem öðrum bankastofnunum óx ásmegin dró bankinn sig í hlé og að lokum hvarf hann að mestu af markaði.

Hið mikla hagvaxtarskeið sem stóð hér yfir á árunum 1995 til 2001 endaði í ofþenslu. Mikil bjartsýni var ríkjandi, laun hækkuðu mikið og einkaneysla jókst. Allt þetta hafði þau áhrif að viðskiptajöfnuður við önnur lönd varð mjög óhagstæður og viðskiptahallinn komst upp í rúmlega 10% af vergri landsframleiðslu á árinu 2000. Þetta hafði í för með sér mikinn verðbólguþrýsting og brást Seðlabankinn við honum með því að hækka vexti þegar á árinu 1998 og síðan frekar árin 1999 og 2000. Hækkun vaxta varð til þess að úr umframeftirspurn dró í hagkerfinu og gengi krónunnar hækkaði og hélt þar með aftur af hækkun á vísitölu neysluverðs er ofþenslan í hagkerfinu var komin í algleyming. Gengi krónunnar varð hæst vorið 2000.

Sem kunnugt er breyttust væntingar á markaði vorið 2000 og gengi krónunnar tók að lækka. Án efa eru ýmsar skýringar á því en þyngst vega líklegast áhyggjur af miklum viðskiptahalla og gríðarlegri erlendri fjármögnunarþörf af völdum hans og fjárfestinga Íslendinga í erlendum verðbréfum á því ári, ekki síst lífeyrissjóða. Lækkunarferli gengisins stóð fram undir lok nóvember 2001.

Nokkrum sinnum frá miðju ári 2000 og fram eftir árinu 2001 greip Seðlabankinn inn í gjaldeyrismarkaðinn í því skyni að reyna að hindra lækkun á gengi krónunnar. Einkum kom til íhlutunar þegar svo virtist sem lækkunarspírall væri í uppsiglingu eða þegar bankinn mat það svo að afskipti hans kynnu að hafa áhrif til þess að breyta væntingum á markaði. Þetta byggði m.a. á þeirri afstöðu bankans að gengi krónunnar hefði þá þegar lækkað meira en samrýmdist langtímajafnvægi í þjóðarbúskapnum. Seðlabankinn varði miklum fjárhæðum til inngripa á gjaldeyrismarkaði, alls yfir 40 milljörðum króna. Þetta megnaði þó ekki að hindra gengislækkun krónunnar. Í besta falli tafði þetta fyrir lækkuninni þar til nokkuð hafði hægt á umsvifum í efnahagslífinu en það varð jafnframt til þess að verðbólguáhrif gengislækkunarinnar urðu minni en ella.

Athuganir sem nú hafa verið gerðar og birtar í febrúarhefti Peningamála Seðlabankans sýna að inngripin hafa í besta falli haft mjög skammvinn áhrif hverju sinni og markaðurinn hafi jafnan leitað í fyrra horf á ný. Ályktunin er með öðrum orðum sú að það hafi haft harla lítil áhrif að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn á móti þungum undirstraumi. Þetta kemur heim við reynslu annarra þjóða. Seðlabankinn hefur takmörkuð áhrif á raungengið til lengdar.

Í þeim miklu umræðum sem orðið hafa um gengi íslensku krónunnar hafa oft heyrst raddir um að gengi hennar sé óstöðugra en gengi annarra gjaldmiðla og að krónan hegði sér með einhverjum hætti öðru vísi en aðrir gjaldmiðlar. Fátt bendir þó til þess að svo sé. Ef borin er saman þróun gengis krónunnar við þróun annarra gjaldmiðla, stórra sem smárra, má sjá að í meginatriðum hegðar hún sér eins. Vissulega tekur þróun krónunnar til lengdar mest mið af innlendri hagþróun og oft á tíðum er hagþróun hér á landi ekki í takt við hagþróun í öðrum löndum en það er einmitt einn af helstu kostum þess að hafa eigin mynt. Gengið getur tekið þrýstinginn af öðrum hagstjórnartækjum, þar á meðal vöxtum og aðgerðum í ríkisfjármálum.

Ég ætla að bregða hér upp mynd sem sýnir gengi nokkurra gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadal. Gjaldmiðlarnir eru íslenska krónan, breska pundið, norska krónan, sænska krónan og evran.

Gengi nokkurra gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadal (Mynd í pdf-skjali)

Eins og sést á myndinni sem spannar rúmlega fimm ár hefur krónan í meginatriðum hegðað sér á sama hátt og aðrir helstu gjaldmiðlar. Veiking krónunnar gagnvart Bandaríkjadal frá byrjun árs 2000 til loka árs 2001 er mjög áþekk veikingu evrunnar gagnvart Bandaríkjadal á miðju ári 2000 til loka árs 2001. Helsti munurinn er sá að veiking krónunnar stóð lengur yfir. Hún byrjaði að veikjast fyrr en evran en báðir þessir gjaldmiðlar tóku að styrkjast um svipað leyti. Eftir snúninginn í lok árs 2001 varð hækkun íslensku krónunnar mun hraðari og meiri en evrunnar, enda hefur efnahagsástandið hér á landi verið mun öflugra en efnahagsástand evrusvæðisins svo dæmi sé tekið. Myndin sýnir svo ekki verður um villst að meginhreyfingar krónunnar (þ.e. leitni hennar) eru í allgóðu samræmi við leitni annarra gjaldmiðla.

Annað atriði sem oft hefur verið gagnrýnt er að skammtímasveiflur krónunnar, eða flökt hennar, sé mun meira en annarra gjaldmiðla. Þessi gagnrýni stenst heldur ekki nánari skoðun. Á þessari mynd má sjá dagsbreytingar gengis gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadal. Þar má sjá að flökt gjaldmiðla er að jafnaði ± 1% en öðru hverju verða stærri sveiflur. Búið er að merkja inn á myndina hvaða gjaldmiðlar eiga helstu toppa einstaka daga. Það er langt í frá að íslenska krónan skeri sig úr á myndinni ef frá er skilið stutt tímabil frá mars til júní á árinu 2001, strax eftir að nýja gengisfyrirkomulagið var tekið upp og krónan látin fljóta. Á þessum tíma gætti og áhrifa langvinns sjómannaverkfalls.

Dagsbreytingar gengis gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadal (Mynd í pdf-skjali)

Breyttar aðstæður í gengismálum kalla á breytt vinnubrögð. Vegna þess að tiltölulega stutt er síðan sveiflur í gengi íslensku krónunnar fóru að koma fram með þeim hætti sem nú er hafa mörg smærri fyrirtæki ekki enn lært að bregðast við þessari þróun. Ég hef grun um að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu séu í þeim hópi. Í flestum löndum hafa fyrirtæki í inn- og útflutningi nýtt sér ákveðnar aðferðir, svokallaðar gengisvarnir, til að draga úr gengisáhættu. Gengisvarnirnar felast í notkun framvirkra gjaldmiðlasamninga, skiptasamninga og valréttarsamninga til að læsa inni breytingar á gengi. Svo virðist ef marka má samtöl við aðila í bankakerfinu, að hérlendir útflytjendur nýti sér gengisvarnir í mun meiri mæli en innflytjendur, enda hafa útflytjendur sjaldnast tækifæri til þess að flytja kostnaðinn af óhagstæðri gengisþróun út í verðlagið á sama hátt og innflytjendur.

Fyrir minni fyrirtæki eru framvirkir samningar um kaup eða sölu erlendra gjaldmiðla tiltölulega einfaldur kostur og má ætla að hérlendir bankar séu reiðubúnir til að veita þessa þjónustu. Dæmi um slíkan samning gæti verið fyrirtæki sem þarf að greiða ákveðna fjárhæð í Bandaríkjadölum eftir sex mánuði. Fyrirtækið gerir framvirkan samning við banka sem tryggir að það fái umsamda fjárhæð í erlendum gjaldeyri tiltekinn dag eftir sex mánuði á ákveðnu gengi. Fyrir þetta greiðir fyrirtækið sem svarar mun innlendra og erlendra vaxta auk álags sem tengist stærð og stöðu fyrirtækisins gagnvart viðkomandi banka. Þar að auki þarf fyrirtækið að leggja fram 8 - 10% af heildarfjárhæðinni sem tryggingu í upphafi. Með framvirkum samningum getur fyrirtækið fest gengi í tiltekinn tíma og eytt gengisóvissu. Misjafnt er hve lágar fjárhæðir bankarnir eru tilbúnir að semja um. Sumir fara allt niður undir 1000 Bandaríkjadali. Misjafnt er hver kjörin eru hjá einstökum bönkum. Það ræðst af því hvort fyrirtækið er í viðskiptum við viðkomandi bankastofnun, hversu stórt það er og hversu mikil gjaldeyrisviðskipti þess eru.

Skiptasamningar nýtast einnig fyrirtækjum sem t.d. eiga gjaldeyri en þurfa ekki að nýta sér hann strax. Þannig getur fyrirtækið fengið krónur að láni gegn nokkurs konar veði í gjaldeyrinum án þess að afsala sér honum með tilheyrandi gengisáhættu. Valréttarsamningar eru enn ein tegund gengisvarna. Helsti munurinn á framvirkum samningum og valréttarsamningum er sá, að aðili sem á valrétt er ekki skuldbundinn til að nýta hann. Það getur verið hagstæðara fyrir hann að láta samninginn renna út án þess að hann sé fullnustaður. Valréttarsamningar eru aðeins í boði fyrir hærri fjárhæðir og kostnaður við þá er meiri en á móti kemur að oft er hægt að njóta ávinnings af hagstæðum gengishreyfingum. Sennilegt er að notkun gengisvarna eigi eftir að vaxa verulega hérlendis, enda er þróun gjaldeyrisviðskipta tiltölulega skammt á veg komin enn sem komið er.

Mjög mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu eiga viðskipti í erlendum gjaldeyri. Ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu hér því upplýsingar sem fengist hafa úr bankakerfinu benda til þess að þessi fyrirtæki hafi aðeins í litlum mæli nýtt sér gengisvarnir, en gengisáhætta hlýtur að vera mjög mikil í starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja.

Góðir fundarmenn.
Ég gat þess áðan að Seðlabankinn birtir ársfjórðungslega greinargerð um ástand og horfur í efnahagsmálum og verðbólguspá til tveggja ára. Síðast gaf bankinn út slíka spá í byrjun febrúar sl. Frá því sú spá var birt hafa orðið nokkrar mikilvægar breytingar sem felast í því að ákveðið hefur verið að flýta ýmsum opinberum framkvæmdum og hefjast handa við stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga. Að auki mun meiri þungi verða í framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun á þessu ári en áður var gert ráð fyrir. Þetta þrennt ásamt lækkun stýrivaxta Seðlabankans í febrúar leiðir til meiri eftirspurnar á árunum 2003 og 2004 en reiknað var með í þjóðhagsspánni og mun það að óbreyttu auka hagvöxt. Ríki og sveitarfélög hafa ákveðið að flýta framkvæmdum sem nemur alls um 10 milljörðum króna og er talið að u.þ.b. 5½ milljarður falli á árið 2003 og um 4½ milljarður króna á árið 2004.

Í ráði mun vera að stækka álver Norðuráls í tveimur áföngum. Framleiðslugeta á ári verður aukin um 90 þús. tonn árið 2005 og um 60 þús. tonn til viðbótar árin 2008 og 2009. Í tengslum við þessa stækkun verður unnið að framkvæmdum vegna orkuöflunar við Norðlingaöldu, á Nesjavöllum og á Reykjanesi. Alls eru framkvæmdir vegna stækkunar Norðuráls upp á 2½ milljarð króna 2003 og um 14 milljarða króna 2004.

Í nýjum áætlunum Landsvirkjunar um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun er gert ráð fyrir útgjaldaaukningu sem nemur 5 milljörðum króna árið 2003 og rúmlega ½ milljarði árið 2004.

Samanlagt er því um að ræða beina aukningu fjárfestingar um 13 milljarða króna á yfirstandandi ári og um 19 milljarða króna á hinu næsta umfram það sem búist var við þegar þjóðhagsspá Seðlabankans og verðbólguspá var gefin út í febrúar sl.

Vegna breyttra forsenda benda athuganir til að hagvöxtur gæti í ár hæglega orðið á bilinu 2 - 2½% og farið vel yfir 3% á næsta ári. Þetta er allt að 1% meiri hagvöxtur hvort árið um sig en áður var reiknað með. Einnig batna atvinnuhorfur umtalsvert. Í ljósi þess að framleiðsluslaki var aldrei mikill og árstíðaleiðrétt atvinnuleysi í febrúar var 3,2% og hefði lítið breyst frá því í september er ljóst að mun styttra er nú í það en áður var talið að spenna geti farið að gera vart við sig á ný. Líklegt er að verðbólga á þessu ári verði nálægt 2½% verðbólgumarkmiði bankans, en geti að óbreyttu farið hækkandi á næsta ári.

Fyrirsjáanlegt er að þessar stórframkvæmdir falli að einhverju leyti saman árin 2004 og 2005, en mestur þunginn kemur á árin 2005 og 2006. Hagstjórnarvandinn verður því meiri en talið var þegar eingöngu var reiknað með álverinu í Reyðarfirði og tengdum raforkuverum. Þessar horfur kalla á viðbrögð í hagstjórn bæði við stjórn peningamála og ríkisfjármála. Umfang viðbragðanna mun ráðast af gengisþróun en ljóst er að það verður mjög mikilvægt verkefni næstu misserin að koma í veg fyrir ofþenslu og verðbólgu. Raunhæfar aðgerðir í ríkisfjármálum eru nauðsynlegar til að álagið verði ekki fyrst og fremst á peningastefnuna og bitni þannig í of miklum mæli á útflutnings- og samkeppnisgreinum. Því öflugri sem aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum verða í hátoppi framkvæmdanna, því minni verður sú hækkun raungengis sem þeim mun óhjákvæmilega fylgja og því betur mun núverandi útflutnings- og samkeppnisgreinum farnast.

Góðir fundarmenn.
Ef borin er saman þróun efnahagsmála á Íslandi og evrusvæðinu kemur sá samanburður vel út fyrir Ísland. Á evrusvæðinu eiga menn að glíma við efnahagslega stöðnun og atvinnuleysi. Það er því mjög eðlilegt að munur sé á vöxtum á Íslandi og á evrusvæðinu, enda viðfangsefnin allt önnur í efnahagslífinu. Seðlabanki Evrópu hefur t.d. nýlega endurskoðað hagvaxtarspá sína fyrir evrusvæðið í heild og spáir um 1% hagvexti á þessu ári. Það þýðir að í lykillöndum eins og Þýskalandi verður enginn hagvöxtur á árinu því hann er meiri á ýmsum jaðarsvæðum í Evrópu. Hér á Íslandi er spáð hagvexti á bilinu 2 - 2½% eins og ég gat um áðan. Atvinnuleysi á evrusvæðinu er áætlað á þessu ári 8,5%. Hér á landi er spáð 3% atvinnuleysi og að það fari minnkandi á næsta ári. Í samanburði við evrusvæðið getum við Íslendingar því borið höfuðið hátt.

Að undanförnu hefur allmikil umræða orðið um það hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í framhaldi af því að gerast aðili að Efnahags- og myntbandlagi Evrópu og taka upp evru sem gjaldmiðil. Reyndar hefur sú umræða stundum komið upp að Íslendingar ættu að taka evru upp sem gjaldmiðil, annað hvort einhliða eða með einhvers konar samningum eða aukaaðild að Myntbandlaginu. Þeir kostir eru vafalaust óraunsæir og engar líkur á að hvorki Evrópski seðlabankinn né aðrir í forustu Evrópusambandsins séu reiðubúnir til að fallast á slíkt fyrirkomulag sem gæti gefið fordæmi fyrir því að þjóðir styttu sér leið inn í Myntbandalagið.

Þótt við stöndum utan við Myntbandalagið höfum við í efnahagsmálum okkar og peningastjórn tileinkað okkur margt af því sem Evrópusambandsþjóðir hafa tekið upp hjá sér. Íslendingar hafa lagað löggjöf sína um fjármálamarkaði að löggjöf Evrópusambandinu og Seðlabanki Íslands hefur lagað stjórn peningamála mjög að þeim aðferðum sem Evrópski seðlabankinn beitir.

Seðlabanki Íslands hefur ekki tekið neina afstöðu til þess hvort rétt sé að ganga í Evrópusambandið og Efnahags- og myntbandlagið, enda er það ekki í hans verkahring. Seðlabankinn hefur hins vegar fylgst mjög vel með þróun þessara mála, á gott samband við Evrópska seðlabankann og gerði fyrir nokkrum árum ítarlega úttekt á kostum þess og göllum að gerast aðili að Myntbandalaginu. Ég held það sé ljóst að ef hugur þjóðarinnar stefndi til þess að taka evru upp sem gjaldmiðil væri nærtækast að ganga í Evrópusambandið með öllum skyldum og kostum sem því fylgja, þar með talið aðild að Myntbandalaginu. Ákvörðun um slíkt ræðst þó af fleiri þáttum en eingöngu varða gjaldmiðil þjóðarinnar og ferlið myndi taka allmörg ár. Það er auðvitað fyrst og fremst stór pólitísk spurning sem ég mun ekki fjalla nánar um hér. Við þurfum því að halda áfram að fóta okkur í alþjóðasamfélaginu sem þjóð með eigin gjaldmiðil en við skilyrði frjálsra fjármagnshreyfinga krefst það mjög agaðrar hagstjórnar.

 

Til baka