logo-for-printing

08.05.2002

Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri: Staða krónunnar - grein skrifuð fyrir Hagmál í desember 2001

Mikil umræða um íslensku krónuna um þessar mundir stafar bæði af miklu gengisfalli hennar að undanförnu og því að hér hefur vaknað áhugi á að leggja hana niður og taka upp evru. Ég ætla fjalla stuttlega um þessi atriði hér.

Ekki er annað hægt að segja en að okkur hafi vegnað vel í þjóðarbúskapnum að undanförnu. Mestan hluta síðasta áratugar var verðbólga lág, hagvöxtur mikill og atvinnuleysi lítið. Við nutum góðs af einkunnagjöf erlendra matsfyrirtækja fyrir lánstraust. Sé því svo bætt við að hér á landi er tekjuskipting jafnari en víða um lönd má segja að ekki sé unnt að óska neins frekar fyrir eitt hagkerfi. Það er rétt að minna á að svona árangur getur náðst enda þótt gjaldmiðillinn sé íslenska krónan, sem vissulega er lítill gjaldmiðill í alþjóðlegum samanburði. En á síðasta ári breyttust horfur nokkuð til hins verra þegar dregið var úr aflaheimildum að ráði fiskifræðinga. Nokkrar aðrar fréttir voru einnig neikvæðar, sérstaklega lækkun á verði hlutabréfa hér og erlendis. Bæði þessi atriði komu á óvart, eins og oft vill verða þegar straumhvörf verða. Þau virðast því hafa haft mikil áhrif á væntingar um næstu framtíð. Í ár bættust svo við fleiri tilefni til að draga úr bjartsýni manna, því enn var dregið úr aflaheimildum hér við land og erlendis er spáð minni hagvexti á næstunni en verið hefur, einkum í Bandaríkjunum. Nokkuð er síðan samdráttareinkenni komu fram í Bandaríkjunum en hryðjuverkin í september bæta svörtu ofan á grátt ef svo má segja og munu líklega dýpka niðursveifluna sem hafin var. Á tæplega tveimur árum hafa horfur í efnahagslífinu semsagt gerbreyst. Engin ástæða er samt til að halda að ástandið sé alvarlegt þótt aðeins dragi úr hagvexti um sinn. Við þurfum bara að draga svolítið úr neyslunni líka.

Gengi krónunnar hefur lækkað upp á síðkastið svo mjög að raungengið hefur náð sögulegu lágmarki. Ástæðurnar eru m.a. neikvæðu fréttirnar sem nefndar hafa verið, en líka mikill viðskiptahalli gagnvart útlöndum, óhóflegt framboð lánsfjár, erlend verðbréfakaup lífeyrissjóða og annarra, vaxandi verðbólga svo og sú staðreynd að gengi krónunnar hafði hækkað talsvert skömmu áður en neikvæðu fréttirnar hrönnuðust upp. Það væri of mikil einföldun að nefna eitt af þessum atriðum, eins og stundum er gert, og segja það vera ástæðuna fyrir lækkun gengisins. Ég tel að vísu meginástæðuna vera þá hve viðskiptahallinn varð mikill, en hann þarf ekki að leiða til gengislækkunar ef horfur eru á lækkun hans með öðrum hætti, þ.e. með vexti útflutnings eða lækkun innflutnings. Lækkunarferill gengisins árið 2000 hófst þegar sýnt þótti að útflutningur myndi ekki halda áfram að vaxa eins og vænst hafði verið. Og að óbreyttu gengi var ekki ástæða til að búast við samdrætti innflutnings þar eð launahækkanir og skattalækkanir höfðu stóraukið kaupgetu almennings.

Úr því sem komið var hlaut hagkerfið, sem nú býr við markaðsskráningu gengisins, að laga sig að breyttum horfum með gengislækkun krónunnar. Hún minnkar innflutning og bætir viðskiptajöfnuð auk þess að auka tekjur útflutningsfyrirtækja.
En gengislækkun er ekki gallalaus, síst þegar hún verður svo mikil sem nú hefur orðið. Hún getur ógnað fjármálalegum stöðugleika, vegna skuldabyrði þeirra sem tekið hafa erlend lán, og hún hefur nú um skeið fóðrað okkar aðalóvin, verðbólguna. Þetta hefur gefið tilefni til umræðu um hvort hverfa eigi frá því að nota krónuna sem gjaldmiðil hér á landi. Heyrst hafa fullyrðingar eins og þær að krónan sé ónýt og best sé fyrir okkur að taka upp evru.

Því fylgja bæði kostir og gallar að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil, og sama gildir auðvitað um það að hafa annan gjaldmiðil. Gallarnir við að hafa okkar eigin gjaldmiðil og frjáls viðskipti við útlönd með vörur, þjónustu og fjármagn eru t.d. þeir að hér verða vextir að öllum líkindum hærri en í nágrannalöndunum og svo hitt að þegar horfur breytast til hins verra í efnahagsmálum er hætt við að það leiði til lækkunar á gengi gjaldmiðilsins, hvort sem ástæðan er heimagerður vandi eða utanaðkomandi. Nýfengin reynsla sýnir að vandi, sem að mestu var heimatilbúinn, skilaði stórfelldri gengislækkun, sem um sinn veldur annarskonar vanda. Enn er ekki séð fyrir endann á því hvernig okkur farnast viðureignin við afleiðingar gengisbreytingarinnar. Af þessu má ljóst vera að miklar gengissveiflur eru óæskilegar.

Hvað er þá til ráða' Veltum fyrir okkur þremur kostum. Í fyrsta lagi að hér á landi sé tekinn upp annar gjaldmiðill. Evran er nærtækust vegna mikilla viðskipta okkar við önnur Evrópulönd. Kostir inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evrópu væru t.d. þeir að vextir yrðu hér lægri en ella og að mistök í efnahagsmálum hér myndu ekki leiða til lækkunar á gengi gjaldmiðilsins. En mistökin gætu valdið öðrum óþægindum svo sem auknu atvinnuleysi, a.m.k. tímabundið. Auk aðildar að Evrópusambandinu þyrfti hér að hafa verið lág verðbólga og stöðugt gengi í nokkur ár áður en unnt yrði að ganga í myntbandalagið. Skilyrðin eru fleiri, en þessi eru nefnd sem dæmi um mikilvæg viðfangsefni okkar. Við þyrftum m.ö.o. að vanda okkur mjög við stjórn í efnahagsmála þótt við hefðum hér annan gjaldmiðil en krónu. Rétt er einnig að benda á þann megingalla leiðarinnar að gengi evru gagnvart dollara og öðrum gjaldmiðlum mun áreiðanlega sveiflast og þær breytingar yrðu ekki alltaf hagstæðar í viðskiptum okkar við Ameríku- eða Asíulönd.

Í öðru lagi skal nefndur sá kostur að hverfa til fyrri stjórnarhátta, þ.e. að miðstýra gengisskráningu krónunnar og loka fyrir frjáls samskipti við útlönd, t.d. með því að banna Íslendingum að kaupa erlend verðbréf og endurvekja fleiri bönn í sambandi við gjaldeyri. Þetta þýddi að heimatilbúinn efnahagsvandi þyrfti ekki endilega að leiða til gengisfellingar, a.m.k. ekki samtímis. Vegna síaukinna samskipta milli landa er þetta líklega óraunhæfur kostur, en nauðsynlegt er að hafa hann í huga því einhverjar hömlur eru mögulegar og gætu orðið óhjákvæmilegar ef ekki tekst að ná viðunandi árangri með öðrum hætti.

Í þriðja lagi nefni ég þann kost sem nærtækastur er við ríkjandi aðstæður, þ.e. að við lærum af mistökunum og náum að halda hér stöðugleika í efnahagsþróun til langframa. Í stuttu máli þýðir þetta að við þurfum að spara meira en við gerum og kappkosta að hafa hér lága verðbólgu til frambúðar. Hvort sem framtíðin ber í skauti sér annan gjaldmiðil hér á landi eða ekki er þetta brýnt viðfangsefni. Því er við hæfi að minna á skýrslu um eflingu þjóðhagslegs sparnaðar sem gefin var út á vegum fjármálaráðuneytisins síðla árs 1998, þar sem lögð var áhersla á fjórar tillögur. Fyrsta tillagan var að treysta bæri afkomu hins opinbera, enda það talin fljótvirkasta og öruggasta leiðin til að auka þjóðhagslegan sparnað. Næstu tvær fjölluðu um aukinn lífeyrissparnað og hlutabréfakaup heimila. Hin fjórða var á þá leiða að athuga bæri hvort ýmis kerfi, svo sem vaxtabótakerfið, væru úr hófi skuldahvetjandi. Þessar tillögur eiga enn vel við.

Ályktanir mínar af þessum hugleiðingum er að fráleitt sé að dæma íslensku krónuna sem ónýtan gjaldmiðil. Eitt helsta vandamál sem þjóðarbúskapur okkar hefur átt við að etja um langa hríð, of lítill þjóðhagslegur sparnaður, verður ekki rakið til þess að gjaldmiðillinn er króna en ekki evra. Umræða um inngöngu í evrópska myntbandalagið er hinsvegar eðlileg og nauðsynleg. Þeir sem taka þátt í henni ættu samt ekki að dæma eina leið algóða og aðra ófæra heldur að gaumgæfa kosti og galla hverrar fyrir sig auk þess að leggja raunhæft mat á þátttökuskilyrðin. Og hvort sem gjaldmiðill okkar verður íslensk króna í framtíðinni eða ekki er ljóst að hér þarf að breyta hlutföllum neyslu og sparnaðar. Það er að mínum dómi brýnasta viðfangsefni líðandi stundar.

Ritað í desember 2001.

 

Um höfundinn
Menntun: Stúdentspróf frá ML 1965. Cand. oecon frá HÍ 1970. Námskeið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1974 og 1985 og hjá Seðlabanka Bandaríkjanna í New York 1983.
Starfsferill: Fulltrúi hjá Seðlabanka Íslands 1969 til 1974, deildarstjóri 1975 til 1983, hagfræðingur 1984 til 1986; aðstoðarbankastjóri við sama banka 1987 til 1994 og bankastjóri frá 1994.
Önnur störf: Stallari nemendafélags ML 1964 til 1965. Formaður stjórnar Verðbréfaþings Íslands frá 1986 til 1999. Sæti í ýmsum nefndum sem fjallað hafa um bankamál og verðbréfaviðskipti. Félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg frá 1995 og forseti hans 1998 til 1999. Formaður nefndar um fagmennsku í ACI-Íslandi, samtökum fagfólks á fjármagnsmarkaði.<'xml:namespace prefix = o ns = "urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

Til baka