logo-for-printing

26.03.2002

Ræða Ólafs G. Einarssonar formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands á ársfundi bankans 26. mars 2002

Ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands 26. mars 2002
Hæstvirtir ráðherrar, forseti Alþingis, aðrir góðir gestir.

Fyrir hönd bankaráðs Seðlabanka Íslands býð ég ykkur velkomin til þessa fertugasta og fyrsta ársfundar bankans og segi fundinn settan. Að loknum inngangsorðum mínum mun formaður bankastjórnar Birgir Ísleifur Gunnarsson gefa yfirlit um þróun efnahags- og peningamála, stefnu bankans í peningamálum og framkvæmd hennar og horfurnar framundan. Að ræðu formanns bankastjórnar lokinni mun forsætisráðherra Davíð Oddsson ávarpa fundinn. Að loknum fundarstörfum er fundarmönnum boðið að þiggja veitingar.

Á fundi bankaráðs fyrr í dag staðfesti forsætisráðherra ársreikning bankans fyrir árið 2001 með áritun sinni.

Árið 2001 markaði tímamót í sögu Seðlabanka Íslands og framkvæmdar stefnunnar í peningamálum. Ég rifja upp að á ársfundi bankans fyrir ári kynnti forsætisráðherra yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu. Á sama fundi greindi forsætisráðherra frá því að ríkisstjórn hefði verið kynnt frumvarp til nýrra laga um Seðlabanka Íslands og að það yrði lagt fram á Alþingi. Alþingi samþykkti frumvarpið í maí sl. með atkvæðum allra þingmanna sem viðstaddir voru endanlega afgreiðslu þess. Því má segja að óvenju breið samstaða hafi verið um þá umgjörð sem nýju lögin sköpuðu Seðlabanka Íslands og stjórn peningamála almennt. Lögin fólu bankanum mjög aukna ábyrgð.

Í lögunum var meðal annars skerpt á ákvæðunum um hlutverk bankaráðs Seðlabankans frá því sem var í fyrri lögum og kveðið á um fjölgun í bankaráði úr fimm fulltrúum í sjö. Í greinargerð með frumvarpinu var meðal annars sagt að fjölgunin væri í samræmi við eflt eftirlitshlutverk bankaráðsins. Hún tryggði breiðari samsetningu þess og að fleiri sjónarmið kæmust að við umfjöllun í bankaráði. Samkvæmt lögunum á bankaráð m.a. að staðfesta megindrætti í skipulagi Seðlabankans, ákveða laun og starfskjör bankastjóra, hafa umsjón með innri endurskoðun og ráða aðalendurskoðanda, staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans og ársreikning hans, hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta reglur sem bankastjórn setur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum, um umboð starfsmanna til þess að skuldbinda bankann, um heimild starfsmanna til setu í stjórnum stofnana og fyrirtækja utan bankans og starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisforðans. Kosið var nýtt bankaráð að samþykktum lögunum. Kjörtímabilið stendur þar til nýtt bankaráð hefur verið kosið að loknum kosningum til Alþingis. Í nýja bankaráðið voru kosnir fjórir fulltrúar sem sátu í fyrra bankaráði, þ.e. Ólafur G. Einarsson, Davíð Aðalsteinsson, Ragnar Arnalds og Þröstur Ólafsson. Auk þeirra voru Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Jón Sigurðsson og Sigríður Stefánsdóttir kjörin í bankaráð. Úr bankaráði hvarf Ingunn Elín Sveinsdóttir og er henni hér með þakkað gott samstarf. Samkvæmt fyrri lögum skipaði ráðherra formann og varaformann bankaráðs. Nýju lögin kveða á um að bankaráð skuli kjósa formann og varaformann úr eigin röðum. Á fyrsta fundi hins nýja bankaráðs var sá er hér talar kosinn formaður og Davíð Aðalsteinsson varaformaður. Í forföllum tveggja aðalmanna sátu Erna Gísladóttir og Kristín Sigurðardóttir fund bankaráðs fyrr í dag.

Í nýju lögunum er eins og í fyrri lögum kveðið á um að bankastjórn skipi þrír bankastjórar. Bankastjórn ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málum hans sem ekki eru falin öðrum í lögunum. Samkvæmt fyrri lögum skipaði ráðherra bankastjóra til fimm ára í senn og þeir kusu formann bankastjórnar úr eigin hópi til þriggja ára í senn. Nýju lögin kveða á um að ráðherra skipi bankastjórana, þar með talinn formann bankastjórnar. Skipunartími er sjö ár og hægt er að endurskipa bankastjóra einu sinni. Sitjandi bankastjórar við gildistöku laganna skyldu sitja út þann tíma sem þeir voru síðast skipaðir til. Eftir samþykkt laganna skipaði forsætisráðherra Birgi Ísleif Gunnarsson formann bankastjórnar.

Ýmsar breytingar sem urðu frá fyrri lögum hafa áhrif á ársreikning bankans. Fellt var niður ákvæðið um harðsjóð og þar með ákvæðið um að Seðlabanki Íslands legði fé til Vísindasjóðs. Í öðru lagi var fellt úr gildi ákvæði laganna um Þjóðhagsstofnun sem fól í sér að Seðlabankinn greiddi hluta rekstrarkostnaðar hennar á móti ríkissjóði. Í þriðja lagi var fellt niður ákvæðið um að ráðherra skipaði sérstakan skoðunarmann. Endurskoðun Seðlabankans er nú í höndum innri endurskoðanda og Ríkisendurskoðunar. Í fjórða lagi breyttust ákvæðin um framlag Seðlabankans til ríkissjóðs á þann veg að í stað þess að greiða helming meðalhagnaðar síðustu þriggja ára til ríkissjóðs greiðir hann nú tvo þriðju hluta hagnaðar síns á reikningsárinu til ríkissjóðs. Svo lengi sem eigið fé bankans er undir ákveðnu skilgreindu lágmarki greiðir bankinn þó aðeins þriðjung hagnaðar síns til ríkissjóðs. Á grundvelli nýju laganna gaf forsætisráðherra út nýjar reglur um reikningsskil og gerð ársreiknings Seðlabanka Íslands í desember 2001.

Á árinu 2001 nam hagnaður af rekstri Seðlabankans tæpum 800 milljónum króna. Greiðsla bankans til ríkissjóðs nam 262 milljónum króna og að henni frátalinni nam hagnaður bankans 523 milljónum króna. Greiðsla til ríkissjóðs og önnur opinber gjöld og lögbundin framlög bankans til opinberra aðila námu liðlega 360 milljónum króna. Eigið fé Seðlabankans efldist til muna á liðnu ári er ríkissjóður lagði honum til viðbótarstofnfé að fjárhæð 9 milljarðar króna. Í lok ársins 2001 nam eigið fé bankans liðlega 34 milljörðum króna. Í greinargerð með frumvarpinu sem flutt var um Seðlabankann fyrir ári voru færð rök fyrir því að nauðsynlegt væri að efla verulega eigið fé bankans.

Ekki er hægt að leggja sömu merkingu í hagnað af starfsemi Seðlabankans eins og af rekstri samkeppnisfyrirtækja. Megintilgangur seðlabanka er ekki endilega að skila hagnaði heldur fyrst og fremst að framfylgja stefnu í peningamálum í samræmi við þau markmið sem þeim eru sett í lögum. Þar sem hlutverk bankans felur í sér að ójafnvægi er á milli gengisbundinna eigna og skulda er afkoma hans jafnan næm fyrir breytingum á gengi krónunnar. Bókfærður gengishagnaður bankans nam 970 milljónum króna á liðnu ári.

Rekstrarkostnaður Seðlabankans á árinu 2000 nam 884 m.kr. að meðtöldum 18 milljóna króna kostnaði við seðla og mynt og 40 milljóna króna fasteignagjöldum. Segja má því að eiginlegur rekstur bankans hafi kostað 826 milljónir króna. Í árslok 2001 voru stöðugildi í bankanum 108. Ítarlega er greint frá afkomu og rekstri bankans í ársskýrslu hans sem gefin er út í dag. Eins og gengur urðu töluverðar breytingar í starfsliði bankans á liðnu ári. Alls létu fjórtán starfsmenn af störfum í bankanum á liðnu ári og er eftirsjá í þeim öllum. Sautján nýir starfsmenn voru ráðnir til bankans og eru þeir allir boðnir velkomnir til starfa.

Bankaráð Seðlabankans hélt 23 fundi á árinu sem leið. Ég þakka fulltrúum í bankaráði einkar ánægjulegt samstarf og vel unnin störf.

Góðir fundarmenn!

Ég vil að lokum þakka bankastjórn, endurskoðendum og starfsfólki bankans ágætt og ánægjulegt samstarf við bankaráðið á liðnu ári.

 

Til baka