logo-for-printing

13. maí 2024

Peningamál í hnotskurn

Hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum hafa lítið breyst frá því í febrúar. Hagvöxtur í Bandaríkjunum heldur áfram að koma á óvart en í flestum Evrópuríkjum mælist enn lítill vöxtur. Talið er að hagvöxtur í viðskiptalöndum verði 1,2% að meðaltali í ár en þokist upp í liðlega 1½% á næstu tveimur árum. Verðbólga í viðskiptalöndum minnkaði mikið í fyrra en hægt hefur á hjöðnun hennar í ár. Líkt og í febrúar er gert ráð fyrir að hún verði 2,5% í ár og hjaðni svo í 2% undir lok næsta árs.

Hagvöxtur hér á landi mældist 4,1% í fyrra og kemur í kjölfarið á 8,9% hagvexti árið 2022 sem er mesti hagvöxtur sem mælst hefur hér á landi í ríflega hálfa öld. Þetta er töluvert meiri hagvöxtur en fyrri áætlanir Hagstofu Íslands höfðu gefið til kynna. Endurskoðun Hagstofunnar á hagvexti á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs á einnig mestan þátt í því að hagvöxtur í fyrra reyndist meiri en gert hafði verið ráð fyrir í febrúarspá Peningamála. Efnahagsumsvif tóku hins vegar að gefa eftir er leið á síðasta ár og talið er að landsframleiðsla hafi dregist saman á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samdrátturinn virðist hafa verið meiri en spáð var í febrúar og hafa horfur fyrir árið í heild versnað. Nú er spáð 1,1% hagvexti í ár en í febrúar var spáð 1,9% vexti. Skýrist
frávikið fyrst og fremst af lakari horfum um vöxt innlendrar eftirspurnar. Eins og í fyrri spá er talið að hagvöxtur aukist á næsta ári og spáð er að hann verði að meðaltali um 2½% á næstu tveimur árum.

Atvinnuleysi hefur þokast upp frá miðju síðasta ári og hægt hefur á fjölgun starfa. Enn er þó nokkur spenna í þjóðarbúinu og er hún talin meiri nú en áður var áætlað vegna endurskoðunar Hagstofunnar á sögulegum hagtölum. Áfram er þó talið að spennan fari minnkandi er líður á spátímann og að hún snúist í smávægilegan slaka á næsta ári eða ári seinna en spáð var í febrúar.

Verðbólga mældist 6% í apríl og hefur ekki verið minni síðan í janúar 2022, áður en miklar verðhækkanir urðu á hrávöru í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað áfram og var komin í 5% í apríl. Þá hafa verðbólguvæntingar lækkað samkvæmt könnunum. Verðbólga var heldur meiri á fyrsta fjórðungi þessa árs en spáð var í febrúar og verðbólguhorfur fyrir meginhluta spátímans hafa versnað. Það á sérstaklega við árið í ár en þar fara saman lakari upphafsstaða og meiri og þrálátari spenna í þjóðarbúskapnum en á móti vega horfur á minni hækkun launakostnaðar. Nú er talið að verðbólga verði yfir 5% út þetta ár og fari ekki í markmið fyrr en á seinni hluta árs 2026.

Ástandið í alþjóðlegum efnahagsmálum er sem fyrr tvísýnt, ekki síst vegna stríðsátaka í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Óvissa hér á landi hefur einnig aukist í kjölfar eldsumbrota á Reykjanesskaga. Á móti vegur minni óvissa um launaþróun eftir að samningar tókust á almennum vinnumarkaði. Áfram er þó hætta á að löskuð kjölfesta verðbólguvæntinga valdi því að verðbólga verði þrálátari en gert er ráð fyrir. Þá bætist við óvissa um hvaða áhrif boðuð breyting Hagstofunnar á mati á húsnæðislið vísitölu neysluverðs mun hafa á þróun mældrar verðbólgu á næstunni.

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu.

Greinin kom út 8. maí 2024 í Peningamálum 2024/2

Til baka