logo-for-printing

21. apríl 2023

Stefna í fjármálaeftirliti birt

Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands samþykkti á fundi sínum í nóvember síðastliðnum Stefnu í fjármálaeftirliti. Peningastefnunefnd hefur einnig birt Stefnu í peningamálum og fjármálastöðugleikaráð birt Opinbera stefnu um fjármálastöðugleika.

Að stuðla að traustum og öruggum fjármálamarkaði er eitt þeirra meginmarkmiða sem Seðlabankanum hefur verið falið í lögum. Stefna í fjármálaeftirliti lýsir undirstöðuatriðum og nálgun fjármálaeftirlits Seðlabanka við að ná þessu markmiði. Þar má ekki missa sjónar á því að meginmarkmið opinbers eftirlits með fjármálakerfinu er að draga úr líkum á að starfsemi eftirlitsskyldra aðila leiði til tjóns fyrir almenning og fjármálamarkaðurinn njóti traust til að gegna þjóðhagslegu hlutverki sínu.

 

Eftirlit þvert á fjármálamarkaðinn

Það eftirlitshlutverk sem fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands hefur verið falið nær bæði þvert yfir fjármálamarkaðinn, þ.e. til fjölmargra aðila í ólíkri starfsemi, og til margra þátta í starfsemi þeirra. Stefna í fjármálaeftirliti nær því allt í senn til varúðareftirlits, viðskiptahátta og neytendaverndar, verðbréfamarkaðarins og eftirlits með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá hefur Seðlabankinn reglusetningarhlutverk þar sem vanda þarf til verka.

 

Aðferðir

Það regluverk og sú eftirlitsumgjörð sem sett hefur verið um fjármálamarkaðinn gerir ráð fyrir að eftirlitið beiti áhættumiðaðri nálgun. Það þýðir að athygli fjármálaeftirlitsins beinist í ríkara mæli að þeim eftirlitsskyldu aðilum sem eru stærstir og þýðingarmestir í fjármálakerfinu. Lendi slíkir aðilar í áfalli getur það haft mikil áhrif á stóran hóp viðskiptavina og haft smitáhrif í för með sér eða með öðrum orðum stefnt fjármálastöðugleika í hættu. Áhættumiðað eftirlit felur einnig í sér að meta kerfisbundið einstaka áhættuþætti í rekstri eftirlitsskyldra aðila með það markmiði að koma tímanlega auga á veikleika og tækifæri til úrbóta. Nálgun af þessu tagi er í eðli sínu framsýn sem þýðir að ekki er einungis horft til þeirrar áhættu sem staðið er frammi fyrir í dag heldur er leitast við að greina og leggja mat á áhættu sem staðið er frammi fyrir í framtíðinni. Þessari nálgun er nú beitt við varúðareftirlit, viðskiptaháttaeftirlit og eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

 

Gagnsæi og traust

Alþingi hefur veitt Seðlabankanum sjálfstæði og falið fjármálaeftirliti bankans og fjármálaeftirlitsnefnd vald til íhlutunar í rekstur og stjórn eftirlitsskyldra aðila. Umgangast þarf þetta vald og sjálfstæði í samræmi við þá lýðræðislegu ábyrgð sem því fylgir. Fjármálaeftirlitið leggur því höfuðáherslu á gagnsæi um störf sín og þau viðmið sem það beitir í störfum sínum. Jafnframt er rík áhersla lögð á heiðarleg samskipti við aðila fjármálamarkaðarins og að byggja upp og viðhalda gagnkvæmu trausti milli eftirlitsins og eftirlitsskyldra aðila. Hvort tveggja eru mikilvægar undirstöður árangursríks eftirlits og heilbrigðs fjármálamarkaðar.

Höfundur: Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits.

Til baka