logo-for-printing

27. október 2022

Neytendur og hættur á fjármálamarkaði

Undanfarin þrjú ár hafa einkennst af miklum sveiflum á fjármálamörkuðum. Þegar Covid faraldurinn skall á heimsbyggðinni af fullum þunga í mars 2020 lækkaði hlutabréfaverð verulega víða um heim, en náði sér fljótlega á strik og hækkaði mikið á seinni hluta árs 2020 og á árinu 2021. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 féll hins vegar verð hlutabréfa og skuldabréfa víðast hvar, m.a. vegna vaxandi verðbólgu, hækkandi vaxtastigs og áhrifa innrásar Rússlands í Úkraínu. Þá hafa sumar sýndareignir (e. crypto assets) orðið sérstaklega illa úti á árinu, t.d. lækkaði verð bitcoin um tæplega 60% á sama tímabili.

Neytendur þurfa að huga að mörgu þegar þeir taka ákvarðanir um fjárfestingu. Fyrir utan hættu á verðsveiflum á markaði og að tapa fjárfestingu að hluta eða öllu leyti eru fjölmargar aðrar hættur sem þarf að varast.

Samfélagsmiðlar

Á samfélagsmiðlum er mikið um rangar eða misvísandi upplýsingar, duldar auglýsingar og óvarlegar ráðleggingar af hálfu aðila sem mögulega eru ekki að veita óháð álit. Á síðasta ári birti Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) yfirlýsingu [1] um samfélagsmiðla og viðskipti með hlutabréf. Í yfirlýsingunni er almennum fjárfestum [2] bent á áhættu tengda því að byggja fjárfestingarákvarðanir á skoðanaskiptum, óformlegum ráðleggingum og upplýsingum um fyrirhuguð viðskipti annarra á samfélagsmiðlum. Mikilvægt er að neytendur reiði sig á áreiðanlegar upplýsingar við fjárfestingarákvarðanir og taki yfirvegaða ákvörðun. Greinarhöfundur hefur í nokkur skipti séð vafasöm ráð á samfélagsmiðlum, s.s. að setja eigi allan sparnað fólks í bitcoin. Þá þarf einnig að hafa í huga að röng eða misvísandi upplýsingagjöf um hlutabréf eða aðra fjármálagerninga sem hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði (kauphöll) getur falið í sér markaðsmisnotkun en brot af því tagi geta varðað allt að sex ára fangelsi. Fyrirtæki kjósa í auknum mæli að koma afurðum sínum á framfæri á samfélagsmiðlum í samstarfi við þekkta einstaklinga eins og leikara, afreksfólk í íþróttum eða áhrifavalda frekar en að auglýsa á hefðbundinn hátt. Þá hefur verið nokkuð um að áhrifavaldar úti í heimi hafi mælt með tilteknum fjárfestingum, s.s. í sýndareignum án þess að fram komi að þeir fái borgað fyrir slíkar ráðleggingar, þ.e. duldar auglýsingar. Á Spáni voru nýlega settar reglur [3] sem fjalla um markaðssetningu á sýndareignum. Í þeim kemur t.d. fram að áhrifavaldar og aðrir sem mæla með sýndareignum þurfi að vara við áhættunni í sínu markaðsefni og upplýsa eftirlitsaðila.

 

Kostnaður og gjöld

Nauðsynlegt er að neytendur kynni sér allan kostnað sem fylgir því að kaupa fjármálaafurð eða fjármálaþjónustu. Upplýsingar um kostnað eiga að koma skýrt fram í skilmálum og öðru upplýsingaefni afurðarinnar eins og t.d. lykilupplýsingaskjölum. Á Íslandi hefur nokkuð verið um að neytendur kaupi vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir, en þær samanstanda af vátryggingarhluta (t.d. líftryggingu) og fjárfestingarhluta (þá fer hluti af iðgjaldagreiðslu í verðbréfasjóði eða annan sparnað). Mikilvægt er að neytendur séu meðvitaðir um þann kostnað sem til fellur, ákveði þeir að segja upp samningi um vátryggingatengda fjárfestingarafurð áður en áætluðu fjárfestingartímabili lýkur. Sumar afurðir eru hannaðar þannig að mikill kostnaður fellur til fyrstu árin. Ef neytandi segir upp samningnum á fyrstu árunum getur það orðið til þess að hann fái engan sparnað leystan til sín. Á undanförnum misserum hefur færst í vöxt erlendis að verðbréfafyrirtæki bjóði neytendum að eiga viðskipti með verðbréf án beins kostnaðar (e. zero-commission brokers). Mikilvægt er að hafa í huga að sjaldnast er eitthvað ókeypis í raun. Í mörgum tilvikum fá verðbréfafyrirtækin greiðslur frá þriðja aðila (e. payment for order flow eða PFOF) gegn því að beina tilboðum neytenda inn á viðskiptavettvang þeirra. Þetta getur leitt til þess að viðskiptavinir fái ekki besta mögulega verð í viðskiptunum. ESMA hefur varað við áhættu vegna PFOF [4].

Svik og eftirlitsskyld starfsemi

Svik á netinu og samfélagsmiðlum hafa aukist mikið á undanförnum árum. Mörg dæmi eru um að svikarar þykist vera í löglegri starfsemi og fái fólk til að leggja inn á sig umtalsverðar fjárhæðir sem ætlaðar eru í tilteknar fjárfestingar. Í kjölfarið kemur í ljós að peningurinn hefur ekki farið í fjárfestingar heldur til svikahrappsins sem notar peningana í eigin þágu. Í flestum tilvikum fást peningarnir ekki greiddir til baka. Mikilvægt er því að neytendur séu á varðbergi gagnvart svikum. Nauðsynlegt er að vera hæfilega tortrygginn gagnvart auglýsingum og skilaboðum frá fyrirtækjum. Þannig á fólk ekki að ýta á hlekki í auglýsingum eða í skilaboðum/tölvupósti sem berast nema með vissu um að fyrirtækið stundi löglega starfsemi og að skilaboðin komi raunverulega frá því fyrirtæki. Góð regla er að athuga hvort viðkomandi fyrirtæki hafi starfsleyfi í raun, en það er gert með því að fara inn á heimasíðu eftirlitsstofnana sem birta lista yfir aðila sem hafa starfsleyfi. Ekki nota hlekki á heimasíðu fyrirtækisins heldur slá inn vefslóð eftirlitsstofnunarinnar og kanna málið.

Viðskipti með afleiður, sýndareignir og aðrar áhættusamar afurðir

Mikilvægt er að neytendur fari varlega þegar keyptar eru áhættusamar afurðir á fjármálamarkaði. Nokkuð hefur verið um að neytendur eigi viðskipti á netinu með CFD fjármálagerninga og aðra afleiðusamninga. Skammstöfunin CFD stendur fyrir „Contract for Difference“, sem útleggst á íslensku sem samningur um fjárhagslegan mismun. Í slíkum viðskiptum er gerður samningur sem dregur verð sitt af undirliggjandi fjármálagerningi (oftast hlutabréfum), hrávörum, gjaldmiðlum o.fl. Viðskiptin eru skuldsett þar sem viðskiptavinurinn leggur fram tryggingu fyrir litlum hluta þeirrar upphæðar sem hefði þurft að greiða ef viðskiptin hefðu farið fram með beinum hætti með undirliggjandi afurð. Ef viðskiptin fara á versta veg þá tapar neytandinn ekki einungis þeirri greiðslu sem hann lagði fram við gerð samnings heldur þarf hann til viðbótar að greiða mismuninn sem er á samningsverði og því verði sem undirliggjandi eign er á þegar samningnum er lokað [5]. Telja verður að viðskipti með afleiður henti fæstum neytendum. Ef neytandi vill eiga viðskipti með flókna fjármálagerninga þá þarf verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingarþjónustu að meta hvort varan eða þjónustan hæfi viðskiptavini eða sé tilhlýðileg fyrir hann [6].

Á undanförnum árum hafa neytendur sýnt sýndareignum aukinn áhuga. Mikilvægt er að hafa í huga að lítið sem ekkert eftirlit er með slíkri starfsemi. Evrópusambandið vinnur hins vegar að því að gefa út reglugerð um markaði með sýndareignir en gera má ráð fyrir að nokkuð sé í að reglugerðin taki gildi á Íslandi [7]. Seðlabankinn og evrópskar eftirlitsstofnanir hafa reglulega varað neytendur við áhættu af sýndareignum [8]. Meðal þess sem hefur verið bent á er að neytendur geta tapað öllu því sem þeir fjárfesta, verðsveiflur séu ýktar, upplýsingagjöf villandi, skortur sé á neytendavernd, svik eigi sér stað, skortur á gagnsærri verðmyndun o.fl.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að neytendur þurfa að fara varlega á fjármálamarkaði. Mikilvægt er að ana ekki að neinu, fá upplýsingar frá traustum aðilum og taka síðan yfirvegaða ákvörðun. Þótt hættur séu margar þá hefur sýnt sig hingað til að fjárfestingar, s.s. á hlutabréfamarkaði, eru góð leið til að ávaxta fé til lengri tíma. Margir hafa farið þá leið að dreifa áhættunni milli mismunandi tegunda fjármálagerninga (t.d. hlutabréfa og skuldabréfa) og landa og minnka þannig áhættuna. Enn fremur gæti verið skynsamlegt að dreifa fjárfestingum yfir lengra tímabil til að koma ekki eingöngu inn á markaðinn þegar verð er mjög hátt, t.d. eftir langt tímabil hækkana. Það má t.d. gera með áskrift að verðbréfasjóðum. Að lokum er rétt að benda á að hlutabréfum sem eru í viðskiptum í kauphöllinni á Íslandi (Nasdaq Iceland) hefur fjölgað verulega undanfarin ár auk þess sem erlendir aðilar hafa sýnt íslenska markaðnum aukinn áhuga. Markaðurinn á Íslandi er því orðinn áhugaverðari fjárfestingakostur en áður.

Höfundur: Páll Friðriksson, framkvæmdastjóri markaða og viðskiptahátta hjá Seðlabanka Íslands

Heimildir

1. Yfirlýsinguna má finna hér: Yfirlýsing ESMA

2. Með almennum fjárfestum er átt við alla fjárfesta aðra en fagfjárfesta og viðurkennda gagnaðila, þ.e. þorra almennings.

3. Frekari upplýsingar um spænsku reglurnar má finna hér: Spænskar reglur um markaðssetningu sýndareigna

4. Frekari upplýsingar um PFOF má finna hér: Upplýsingar um PFOF

5. ESMA og Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hafa gefið út viðvörun til almennra fjárfesta um viðskipti með CFD fjármálagerninga: Hlekkur á viðvörun ESMA og EBA 

6. Frekari upplýsingar um mat á hæfi og tilhlýðileika má finna í 44. gr. og 45. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga: Lög nr. 115/2021, um fjármálagerninga

7. Drög að reglugerðinni má finna hér: Reglugerð ESB um markað með sýndareignir

8. Síðustu viðvörunina um sýndareignir má finna hér: Viðvörun um sýndareignir

Til baka