logo-for-printing

14. júní 2022

Innlendar birgðir – týndi hlekkur íslenskra þjóðhagsreikninga?

Þjóðhagsreikningar Hagstofu Íslands taka saman og mæla umfang efnahagsumsvifa og eru ein mikilvægasta uppspretta upplýsinga um stöðu þjóðarbúsins sem liggja til grundvallar við mat á efnahagshorfum og við hagstjórnarákvarðanir.

Meginafrakstur þjóðhagsreikninga er svokölluð verg landsframleiðsla (VLF) sem mælir virði allrar framleiðslu sem á sér stað í landinu á hverjum tíma. Breyting hennar á föstu verði, þ.e. magnbreyting hennar, er það sem við köllum hagvöxt.

Hvernig er landsframleiðslan mæld?

Nærtækast er að mæla VLF með því að mæla framleiðslu hvers fyrirtækis sem starfar í landinu (hvort sem þau eru í innlendri eða erlendri eigu) og leggja saman (og þá einungis virðisauka framleiðslu hvers fyrirtækis til að tvítelja ekki framleiðslu eins fyrirtækis sem eru aðföng í framleiðslu annars fyrirtækis). Þetta er það sem kallað er framleiðsluuppgjör þjóðhagsreikninga. Önnur leið við að mæla VLF hvers tíma er að horfa til spegilmyndar hennar, þ.e. hvernig henni er ráðstafað, sem kallað er ráðstöfunaruppgjör þjóðhagsreikninga. VLF samanstendur af fullkláruðum vörum og þjónustu sem keypt er af innlendum heimilum og hinu opinbera. Hluti framleiðslunnar er einnig aðföng sem fyrirtæki nota til fjárfestingar og þá er hluti hennar seldur til erlendra aðila í formi útflutnings. Til að forðast tvítalningu þarf auk þess að taka tillit til þess að innlend heimili og fyrirtæki og hið opinbera kaupa einnig vöru og þjónustu frá útlöndum og þennan innflutning þarf því að draga frá fyrrgreindum útgjaldaliðum. Að lokum þarf að taka tillit til þess að hluti framleiðslunnar er ekki seldur strax og endar því tímabundið sem óseldar birgðir. Þegar þessari birgðabreytingu er bætt við fæst hin hefðbundna líking þjóðhagsreikninga frá ráðstöfunarhlið:

Y=C+G+I+B+X-M

þar sem Y er VLF, C er einkaneysla, G er samneysla, I er fjárfesting, B er birgðabreyting (þ.e. munurinn á því sem er framleitt og því sem er selt), X er útflutningur og M er innflutningur [1].

VLF er jafnan mælt með báðum uppgjörsaðferðum (þriðja uppgjörsaðferðin, svokallað tekjuskiptingaruppgjör, er ekki til umfjöllunar hér) en í flestum þróuðum löndum liggur framleiðsluuppgjörið til grundvallar og ráðstöfunaruppgjörið er stemmt af við það. Hér á landi er þessu hins vegar öfugt farið: framleiðsluuppgjörið er einungis birt árlega (og því óhjákvæmilega með nokkurri töf) og hið ársfjórðungslega ráðstöfunaruppgjör látið liggja til grundvallar. Það er í sjálfu sér ekki vandamál ef allt er rétt mælt því báðar aðferðir eiga jú að gefa sömu niðurstöðu [2]. Vandinn er hins vegar að hér á landi eru birgðabreytingar (B) ekki mældar út frá öllum birgðum heldur er liðurinn eingöngu reiknaður fyrir birgðir af innfluttum olíuvörum annars vegar og birgðir útflutningsfyrirtækja hins vegar en síðarnefndi liðurinn samanstendur í meginatriðum af óseldri framleiðslu fyrirtækja í orkufrekum iðnaði og sjávarútvegi. Upplýsingum um aðrar birgðir, þ.e. heildsölubirgðir innlendra framleiðslufyrirtækja og birgðir af fullunnum vörum á lagerum og í hillum innlendra smásölufyrirtækja, er hins vegar ekki safnað.

Hvað gerist ef innlendar birgðir vantar í birgðamælikvarða þjóðhagsreikninga?

Ef öll innlend framleiðsla selst strax (þ.e. innan þess ársfjórðungs sem þjóðhagsreikningarnir eru mældir á) skiptir þetta svo sem ekki miklu máli. En þessi vankantur íslenskra þjóðhagsreikninga getur haft áhrif á túlkun þeirra ef vörurnar eru ekki seldar strax. Tökum dæmi til skýringar. Gefum okkur að innlent fyrirtæki framleiði vöru fyrir 100 kr. á ársfjórðungi T. Samkvæmt framleiðsluuppgjöri mælist þá 100 kr. aukning VLF á ársfjórðungi T. Kaupi heimilin þessa vöru á ársfjórðungi T mælist einnig 100 kr. aukning VLF samkvæmt ráðstöfunaruppgjöri þar sem einkaneysla eykst um þessa upphæð (hið sama á við ef hið opinbera kaupir vöruna, ef fyrirtækið notar hana til fjárfestingar eða ef hún er seld til útlanda).

En hvað gerist ef varan er ekki seld fyrr en á næsta ársfjórðungi? Á ársfjórðungi T færist framleiðslan þá sem viðbót við fyrirliggjandi birgðir og því eykst VLF réttilega um 100 kr. á ársfjórðungi T. Á ársfjórðungi T+1 mælist svo aukning einkaneyslu um 100 kr. en á móti minnka birgðir um sömu upphæð og VLF helst því óbreytt. Ráðstöfunaruppgjörið endurspeglar hina raunverulegu framleiðslu og tímasetningu hennar með réttum hætti þótt varan seljist ekki strax.

Hvað gerist hins vegar ef ráðstöfunaruppgjörið mælir ekki þessar birgðir? Á ársfjórðungi T mælist engin framleiðsla enda hefur varan ekki verið keypt og þar sem hún er ekki mæld í birgðum verða engar birgðabreytingar. Á ársfjórðungi T+1 mælist hins vegar aukning einkaneyslu og þá mælist aukning VLF upp á 100 kr. Landsframleiðslan hefur því færst til í tíma samkvæmt ráðstöfunaruppgjörinu, þ.e. framleiðsla sem átti sér raunverulega stað á ársfjórðungi T er mæld ársfjórðungi síðar samkvæmt ráðstöfunaruppgjörinu. Vandamálið hverfur auðvitað ef framleiðslan er seld tiltölulega fljótt (þ.e. innan ársfjórðungs T) en verður sýnu alvarlegra eftir því sem það tekur lengri tíma að selja framleiðsluna.

Vandinn er jafnvel enn meiri ef um er að ræða framleiðslu sem er flutt inn til landsins. Tökum dæmi um erlenda vöru upp á 100 kr. sem flutt er til landsins á ársfjórðungi T. Samkvæmt framleiðsluuppgjöri mælist engin breyting á VLF enda ekki um innlenda framleiðslu að ræða. Ef heimilin kaupa vöruna mælist 100 kr. aukning einkaneyslu samkvæmt ráðstöfunaruppgjöri en á móti dregst frá 100 kr. aukning innflutnings og VLF stendur því réttilega óbreytt [3]. Ef varan selst ekki strax mælist þess í stað aukning í birgðum á móti aukningu innflutnings og VLF stendur óbreytt eins og vera ber.

En hvað gerist ef ráðstöfunaruppgjörið mælir ekki þessar birgðir? Á ársfjórðungi T mælist einungis aukning innflutnings og því dregst VLF saman um 100 kr. Þegar varan er loks seld á ársfjórðungi T+1 mælist síðan aukning einkaneyslu og þá eykst VLF aftur um þessar 100 kr. Yfir þessa tvo ársfjórðunga mælist VLF því réttilega óbreytt en innan þess mælist fyrst samdráttur og svo aukning VLF sem ekki á sér stað í raunveruleikanum.

Skiptir þetta máli?

Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að breytingar í innlendum smá- og heildsölubirgðum séu mikilvægur drifkraftur innlendrar hagsveiflu og að áhrif þeirra á hana og viðsnúning hennar séu langt umfram beint vægi birgða í VLF (sjá t.d. Ramey og West, 1999). Enduruppbygging birgða hefur t.d. verið mikilvægur aflvaki efnahagsbata eftir efnahagssamdráttinn í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar þegar gekk mjög hratt á birgðir fyrirtækja [4]. Ætla má að svipaðra áhrifa gæti hér á landi en þau mælast ekki í þjóðhagsreikningum fyrr en vörurnar eru endanlega seldar. Viðsnúningurinn hér á landi gæti því mælst seinna en hann varð í raun og að því leyti sem um innfluttar vörur er að ræða gæti VLF verið vanmetin um einhvern tíma.

Það að mæla ekki innlendar smá- og heildsölubirgðir í birgðamælikvarða þjóðhagsreikninga gæti því valdið því að tímasetningar innlendrar hagsveiflu verði rangar og í versta falli leitt til þess að skammtímasveiflur í VLF verða ofmetnar [5]. Það væri því til mikilla bóta ef Hagstofan reyndi að bæta þessa gagnasöfnun svo innlendir þjóðhagsreikningar gefi sannari mynd af innlendri hagþróun. Þar væri nærtækast að hefja birtingu ársfjórðungslegs framleiðsluuppgjörs og gera það að grundvelli þjóðhagsreikninga sem hefur staðið til að gera í mörg ár en Hagstofuna hefur skort fjármagn til að klára.

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands

Heimildir:

Andersson, M., og G. Le Breton (2022), „The role of the inventory cycle in the current recovery“, European Central Bank Economic Bulletin, 2/2022, bls. 74-78.

Ásgeir Daníelsson (2020), „Volatility in national account data for Iceland and other OECD countries“, Seðlabanki Íslands Working Paper, nr. 83.

Ramey, V., og K. D. West (1999), „Inventories“, í Handbook of Macroeconomics vol. 1B, ritstjórar M. Woodford og J. Taylor. North-Holland Elsevier Science, bls. 863-923.

Neðanmálsgreinar:

1. Það er vert að leggja áherslu á að ekki er hægt að túlka þetta bókhaldssamband þannig að innflutningur dragi úr VLF eins og stundum heyrist. Innflutningurinn er einungis dreginn frá til að forðast tvítalningu á útgjöldum til kaupa á innfluttri vöru og þjónustu sem mælist í hinum útgjaldaliðunum (t.d. kaup heimila á innfluttri vöru eða útgjöld þeirra í ferðalögum erlendis sem mælast í einkaneyslu).

2. Þó geta myndast frávik milli uppgjörsaðferðanna þar sem þær styðjast við mismunandi gagnagrunna. Þá er það verulegur ókostur að hafa ekki ársfjórðungslegt framleiðsluuppgjör að tímanlegar upplýsingar um umsvif í einstaka atvinnugreinum er ekki aðgengilegt.

3. Hér er til einföldunar horft fram hjá mögulegum virðisauka fyrirtækisins sem flytur inn vöruna og selur hana áfram en sá virðisauki myndi þá bætast við VLF.

4. Einnig eru vísbendingar um meiri hvata til birgðasöfnunar nú en oft áður þar sem fyrirtæki panta meira af aðföngum en þau þurfa í raun sem varúðarráðstöfun vegna óvissu um áreiðanleika alþjóðlegra aðfangakeðja. Sjá t.d. Andersson og Le Breton (2022).

5. Í því samhengi er áhugavert að hlutfall sveiflna í ársgögnum hagvaxtar og í hagvexti mældum innan árs er óvenjulágt hér á landi í samanburði við önnur OECD-ríki. Sjá Ásgeir Daníelsson (2020).

 

Til baka