logo-for-printing

17. mars 2022

Aukin óvissa um þróunina næstu mánuði vegna innrásar Rússa í Úkraínu

Seðlabanki Íslands gaf nýlega út ritið Fjármálastöðugleiki 2022/1. Ritið kemur út tvisvar á ári. Því er meðal annars ætlað að stuðla að upplýstri umræðu um styrk- og veikleika fjármálakerfisins og áhættu sem því kann að vera búin bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga.

Samandregna niðurstöðu ritsins má sjá á mynd 1. Í ritinu kemur fram að Seðlabankinn telji að óvissa um horfurnar næstu mánuði hafi aukist eftir innrás Rússa í Úkraínu. Varað er við auknu misvægi milli fasteignaverðs og þeirra þátta sem alla jafnan ráða þróun þess. Mat bankans er einnig að staða stóru viðskiptabankanna þriggja sé mjög sterk og viðnámsþróttur þeirra mikill.

 

Efnahagshorfur hafa versnað eftir innrás Rússa í Úkraínu og hægt gæti á efnahagsbatanum hér á landi. Hrávöruverð hefur hækkað hratt á heimsmarkaði og viðbúið er að verðbólga aukist frekar í kjölfarið. Líklegt er að viðskiptakjör Íslands rýrni og að þrýstingur á innlent verðlag hafi áhrif á neyslu. Minni hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum Íslands gæti dregið úr útflutningi héðan, einkum ferðaþjónustu. Aukin alþjóðleg óvissa og rýrnun viðskiptakjara gætu jafnframt þrýst á gengi krónunnar til lækkunar. Á móti vegur hins vegar sterk staða heimila, mikill uppsafnaður sparnaður og sterk eignastaða. Stærðargráða áhrifanna er óvissu háð og mun ráðast af framvindu mála á alþjóðavísu og hversu lengi stríðið stendur.

 

Vaxandi afleiðustöður með krónuna

Frá miðju síðasta ári hafa gjaldeyrisviðskipti hér á landi verið án takmarkana. Frá árslokum 2020 hafa fjárfestar og fyrirtæki tekið sér stöðu með styrkingu krónunnar í gegnum framvirkar stöður í gjaldeyri, en í lok febrúar var staðan 139 ma.kr. Felur það í sér að framtíðargjaldeyrisflæði hefur að einhverju marki þegar haft áhrif á gengi krónunnar til styrkingar. Ef væntingar um gengisþróun snúast vegna óvæntra utanaðkomandi aðstæðna, eins og af völdum stríðsins í Úkraínu, gætu vaxandi afleiðustöður á annarri hlið markaðarins eins og nú háttar til sett lækkunarþrýsting á gengi krónunnar, sérstaklega ef um kvikar stöður fjárfesta verður að ræða. Reglur Seðlabankans um afleiðuviðskipti setja þessum viðskiptum þó takmörk því brúttó framvirk gjaldeyrisstaða hvers viðskiptabanka má ekki fara yfir 50% af eiginfjárgrunni.

 

Ójafnvægi eykst enn á fasteignamarkaði

Fasteignaverð hefur áfram hækkað hratt á síðustu mánuðum og mikið ójafnvægi er milli framboðs og eftirspurnar á markaðnum. Í febrúar sl. hafði auglýstum íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 69% frá upphafi árs 2020. Meðalsölutími hefur á sama tíma styst í sögulegt lágmark. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 13,8% að raunvirði í janúar sl. Aukið misvægi er milli fasteignaverðs og þeirra þátta sem alla jafnan ráða þróun þess. Samhliða þessu hefur verið töluverður skuldavöxtur hjá heimilum og hafa kaupendur fyrstu fasteignar tekið á sig aukna veðsetningu og þyngri greiðslubyrði en áður. Allt bendir þetta til að áhætta á íbúðamarkaði hafi aukist að undanförnu. Líkur á stöðnun raunverðs eða jafnvel lækkun þess hafa aukist.

 

 

Hækkandi vaxtaálag á erlendum lánsfjármörkuðum

Staða stóru viðskiptabankanna er sterk. Arðsemi þeirra hefur aukist, kostnaðarhlutföll lækkað og dregið hefur úr vanskilum, bæði á lánum til heimila og fyrirtækja. Í lok síðasta árs höfðu bankarnir 280 ma.kr. af lausu fé umfram lágmarkskröfur Seðlabankans og hækkaði sú fjárhæð um 48 ma.kr. á árinu. Vaxtaálag á erlendri markaðsfjármögnun bankanna hefur hækkað hratt á sl. vikum, samhliða hækkandi áhættuálagi á erlendum lánsfjármörkuðum almennt. Sterk lausafjárstaða bankanna í erlendum gjaldmiðlum og takmörkuð endurfjármögnunaráhætta á næstu mánuðum gerir bönkunum kleift að standa skil á öllum greiðslum næstu mánuðina án endurfjármögnunar.

Netárásir eru vaxandi vandamál og fjármálainnviðir fara ekki varhluta af þeirri þróun. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hafa tilraunir til netárása orðið tíðari en áður. Fjármálafyrirtæki þurfa að vera undir þessa áhættu búin og huga að öryggi kerfa sinna og viðeigandi viðbúnaðaráætlunum sem tryggja samfelldan rekstur. Jafnframt þarf að treysta umgjörð kerfisins í heild, tryggja varaleiðir, og samhæfa aðgerðaráætlanir til að bregðast við aukinni áhættu á þessu sviði. Að því verki koma fjármálafyrirtækin, rekstraraðilar fjármálainnviða, Seðlabanki Íslands og stjórnvöld.

Höfundur: Eggert Þröstur Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði fjármálastöðugleika.

Nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika má nálgast hér: Fjármálastöðugleiki 2022/1 

Til baka