logo-for-printing

15. desember 2021

Nóbelsverðlaun í hagfræði veitt fyrir nýjar aðferðir við að greina orsakasamband

Nóbelsverðlaun í hagfræði eru veitt fyrir framúrskarandi verk sem hafa mikla þýðingu á fræðasviðinu. Í ár fá þrír hagfræðingar verðlaunin fyrir að þróa nýjar aðferðir til að greina orsakasambönd í samfélaginu. Aðferðin sem verðlaunahafarnir þróuðu hefur verið kennd við náttúrulegar tilraunir (e. natural experiment). Hún felst í því að greina áhrif einstaks þáttar með því að skoða áhrifin þegar viðkomandi þætti er breytt fyrir einn hóp en ekki fyrir annan hóp sem gert er ráð fyrir að sé sambærilegur.

Það má líkja þeirri aðferðafræði sem verðlaunahafarnir þrír (einn til viðbótar er talinn með en er nýlátinn, sjá síðar) innleiddu við tilraunir við að meta áhrif lyfja. Þeir rannsaka orsakasambönd með því að nýta raunverulegar aðstæður sem hægt er að líkja við vísindatilraun, því aðstæðurnar gera það mögulegt að búa til meðferðarhóp og viðmiðunarhóp, líkt og í tilraun með lyf. Þannig gátur þeir flokkað íbúa í fylki þar sem lágmarkslaun voru hækkuð í meðferðarhóp og svo íbúa í nærliggjandi fylki í samanburðarhóp þar lágmarkslaun höfðu ekki verið hækkuð. Eðli málsins samkvæmt er vart framkvæmanlegt af siðferðilegum eða praktískum ástæðum að gera slíka tilraun sem fæli t.d. í sér að sumum yrði leyft að mennta sig en öðrum ekki – og sumum að flytjast búferlum en ekki öðrum. Hins vegar var hægt að ná fram flokkun með því meta val einstaklinganna sjálfra í hópa og beita síðan sérstakri aðferð til að sýna fram á orsakasamband breyta, en ekki bara fylgni á milli þeirra eins og oft var áður. Þessar aðferðir hafa verið kallaðar náttúrulegar tilraunir sem séu að ýmsu leyti sambærilegar þeim klínísku tilraunum með tilviljanakenndu vali sem þær líkja eftir.

 

Nánar um verðlaunin

Tilkynnt var um verðlaunahafana í byrjun október síðastliðnum en þau eru að jafnaði veitt með viðhöfn í Stokkhólmi á dánardegi Alfreds Nóbel 10. desember ár hvert. Annað árið í röð setti COVID-faraldurinn mark sitt á verðlaunaafhendinguna þar sem hátíðarhöldunum var streymt frá Stokkhólmi en verðlaunahafarnir veittu verðlaununum viðtöku í heimalandi sínu. Verðlaunaveitingin í hagfræði fer fram á starfsvettvangi sérstakrar konunglegrar vísindanefndar í Svíþjóð á svipaðan hátt og verðlaun í eðlisfræði og efnafræði. Að jafnaði eiga 11 prófessorar í hagfræði í Svíþjóð, eða einstaklingar á skyldu sviði, sæti í hagfræðinefndinni sem velur verðlaunahafana. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1969 og fengu þau þá Norðmaðurinn Ragnar Frisch og Hollendingurinn Jan Tinbergen fyrir líkanasmíð í hagfræði – en síðan hafa flestir verðlaunahafar verið frá Bandaríkjunum, flestir karlar, og með tengsl við bandaríska háskóla.

Verðlaunahafarnir í ár deila með sér tíu milljónum sænskra króna. Kanadamaðurinn David Card, prófessor í hagfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum, fær helminginn eða sem svarar tæplega 75 milljónum íslenskra króna, auk verðlaunapenings með mynd Nóbels úr gulli. Reyndar fær Card líka ókeypis bílastæði við Berkeley-háskóla eins og aðrir Nóbelsverðlaunahafar við þann mikilsvirta skóla. Stæðið það mun þó líklega koma að litlum notum því Card fer að mestu á reiðhjóli til vinnu – reyndar eins og hinir tveir verðlaunahafarnir. Bandaríkjamaðurinn Joshua Angrist, prófessor við MIT í Cambridge (Boston) í Bandaríkjunum og Hollendingurinn Guido Imbens, prófessor við Stanford-háskóla í Kaliforníu, fá hvor sem nemur um 37 milljónum króna, auk verðlaunapeningsins úr gulli. Fjórði fræðimaðurinn sem gjarnan er talinn til þessa hóps er Alan Krueger, en hann starfaði einkum með Card. Krueger lést árið 2019 og var meðal annars efnahagsráðgjafi tveggja forseta Bandaríkjanna, þeirra Clintons og Obama. Card hefur sagt að ef Krueger væri á lífi hefði hann án efa deilt verðlaununum með sér en reglan er sú að fræðimaður verður að vera á lífi þegar verðlaun eru ákveðin.

Til fróðleiks má hér nefna að gullpeningurinn með mynd af Nóbel er sambærilegur þeim sem aðrir Nóbelsverðlaunahafar hafa fengið, þar á meðal Halldór Laxness árið 1955, en sá peningur er varðveittur í Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns.

 

Nóbel til hjálpar mannkyninu?

Áður en lengra er haldið með verðlaunin í ár er fróðlegt að skoða tilurð og fyrirkomulag verðlaunanna. Alfred Nóbel (1833-1896), stofnandi Nóbelsverðlaunanna orðaði það þannig að verðlaunin skuli veitt þeim sem hafa aflað okkur nýrrar þekkingar sem mannkynið getur hagnýtt sér. Sagt hefur verið að Nóbel hafi verið með samviskubit yfir þeim hörmungum sem ein helsta uppfinning hans og auðsuppspretta, dýnamítið, hafði í sumum tilvikum leitt yfir samferðafólk hans – en hann var fyrir vikið kallaður „sölumaður dauðans“ í frönsku dagblaði.

Nóbel vildi líklega bæta orðspor sitt með því að ánafna hluta auðæfa sinna til sjóðs í því skyni að verðlauna þá sem kæmu mannkyninu að mestu gagni í náttúruvísindum, bókmenntum og við að stuðla að friði. Fyrstu verðlaunin voru veitt árið 1901. Síðan hafa nokkur hundruð einstaklingar, aðallega karlar, fengið verðlaun í fjórum fræðigreinum og bókmenntum og nokkur fjöldi einstaklinga, samtaka og félaga hafa fengið friðarverðlaun Nóbels.

 

Verðlaunahafarnir Card, Angrist og Imbens

Verðlaunahafarnir, David Card, Joshua Angrist og Guido Imbens, starfa allir við háskóla í Bandaríkjunum. Í umsögn um verðlaunin kemur fram að þeir hafi aflað nýrrar þekkingar um vinnumarkaði og sýnt fram á hvaða ályktanir um orsakir og afleiðingar hægt sé að draga af gögnum í því sem kalla má náttúrulegar tilraunir. Þannig hafi þeir þróað aðferðir til þess meðal annars að fá svar við því hvaða áhrif stórfelldir búferlaflutningar og aðrar víðtækar samfélagsbreytingar geti haft til dæmis á laun og atvinnustig. Enn fremur hafi þeir þróað nýjar aðferðir til að sýna fram á hvaða áhrif menntun hafi á framtíðartekjur. Fróðlegt atriði sem þeir nýttu sér er að í bandarísku skólakerfi hófu tilteknir árgangar skólagöngu á sama tíma, þ.e. við sex ára aldur, en fólk gat hætt skólagöngu þann dag sem það varð ýmist 16 eða 17 ára eftir fylkjum. Því gátu þeir sem fæddir voru seint í árinu haft að baki skólagöngu sem var allt að einu ári lengri en þeir sem voru fæddir í upphafi árs - og rannsókn leiddi í ljós að tekjur þeirra væru að jafnaði 9% hærri en þeirra sem fæddir voru á upphafsmánuðum árs.
 


David Card og Alan Krueger þróuðu eftirtektarverðar aðferðir til að skoða áhrif breytinga á lágmarkslaunum, af búferlaflutningum og lengd skólagöngu. Hvað lágmarkslaunin varðar sýndu þeir fram á að hækkun lágmarkslauna þyrfti ekki að leiða til færri starfa eins og áður var talið. Þeir skoðuðu atvinnuþróun í skyndibitakeðjum á nærliggjandi svæðum í tveimur samliggjandi fylkjum Bandaríkjanna og sýndu fram á að hækkun lágmarkslauna í öðru fylkinu leiddi ekki til fækkunar starfa í tiltekinni skyndibitakeðju þar. Þar var rannsóknar- eða meðferðarhópurinn starfsfólk í skyndibitakeðju í New Jersey, þar sem lágmarkslaun voru hækkuð, og viðmiðunarhópurinn starfsfólk í skyndibitakeðju í nærliggjandi austurhluta í Pennsylvaníu-fylki – þar sem lágmarkslaun voru óbreytt.

Á hliðstæðan hátt hafði Card sýnt fram á að stórfelldir búferlaflutningar fólks frá Kúbu árið 1980 í láglaunastörf í Miami-borg í Bandaríkjunum hefðu ekki grafið undan kjörum þess láglaunafólks sem fyrir var; hvorki aukið atvinnuleysi þess né lækkað laun. Í þeirri rannsókn voru gögn úr fjórum öðrum borgum í Bandaríkjunum voru höfð til samanburðar. Þessi niðurstaða var einnig þvert á viðteknar hugmyndir. Miami-rannsóknin snerist um áhrif þess þegar Fidel Castró, forseti á Kúbu á þeim tíma, leyfði á annað hundrað þúsund manns að yfirgefa Kúbu og sigla yfir til Flórída í leit að betri atvinnu.

Það má því segja að David Card hafi fært okkur nýja þekkingu en aðalframlag hans til fræðanna var að þróa og beita aðferð, m.a. með hliðsjón af framlagi Imbens og Angrist, til að komast að niðurstöðu varðandi áhrif tiltekinna samfélagsbreytinga. Aðferðin þykir nýstárleg en um leið einföld og felst m.a. í tölfræðilegri útfærslu á notkun mismunatalna. Card var leiðandi í að þróa tölfræðilegar aðferðir innan fræðanna til þess að nýta við það sem fræðimennirnir kalla náttúrulegar tilraunir, sem felast í því að fólk velur sig sjálft í rannsóknar- og viðmiðunarhópa (til dæmis hóp sem menntar sig og hóp sem gerir það ekki, eins og áður sagði) eða að það velst í hópana vegna tilviljanakenndra aðstæðna (t.d. hvenær það er fætt). Imbens og Angrist þróuðu svo aðferðir til þess að draga ályktanir um orsakir og afleiðingar í stað þess að áður var einungis hægt að sýna fram á fylgni án þess að hægt væri að fullyrða um hver breytanna væri orsök og hver afleiðing. Aðferðir og niðurstöður þremenninganna gagnast ekki aðeins fræðunum heldur samfélaginu í heild – í anda Nóbels - því þeim hefur verið beitt á samfélagsleg málefni sem þykja mikilvæg.

 

Gögn og gagnavinnsla í stað klínískra tilrauna

Joshua Angrist og Guido Imbens fá viðurkenningu sína einkum fyrir aðferðafræðilegt framlag til greiningar á orsakasambandi, eins og það var orðað í tilkynningu um verðlaunin. Þeir hafa lagt mest til þróunar á aðferðum við hagrannsóknir á þessu sviði þar sem þeir hagnýta sér aðstæður í raunveruleikanum sem skapa skilyrði sem líkjast tilviljanakenndum tilraunum. Við vitum að tilraunir í félagsvísindum eru erfiðari í framkvæmd en t.d. í efnafræði, eða jafnvel óframkvæmanlegar, m.a. af siðferðilegum eða öðrum ástæðum. Fræðimennirnir þrír fundu sem sagt nýjar aðferðir til að greina á milli þess sem kalla mætti rannsóknarhópa og viðmiðunarhópa, stilla upp eins konar tilraunaumhverfi með gögnum sínum og sýna fram á hvernig greina mætti orsakasambönd á milli breyta en ekki aðeins fylgni. Eitt af því sem Imbens skoðaði var hvað gerðist þegar fólk fær stóran happdrættisvinning. Niðurstaðan var sú að atvinnuþátttaka fólks minnkaði ekki eins og ýmsir höfðu áður ætlað við slíka eignaaukningu. Enn var niðurstaðan þvert á viðteknar hugmyndir og því má segja að nýrrar þekkingar hafi verið aflað.

 

Vísindarannsóknir sem nýtast við opinbera stefnumótum

Væntanlega er hægt að halda því fram að framlag þeirra fræðimanna sem hér um ræðir gagnist mannkyninu, þar sem um er að ræða viðbótarþekkingu sem ætti að nýtast til að auka velferð. Því er til dæmis haldið fram að framlag verðlaunahafanna geti komið að notum við að skoða áhrif aukinnar heimavinnu í kjölfar COVID-faraldursins, en aðferðir þeirra hafa einmitt gagnast við rannsóknir tengdar faraldursfræðum. Ég held það megi því segja að verðlaunin í ár séu fyrir einkar athyglisvert framlag sem á vonandi eftir að hjálpa mannkyninu við að taka ákvarðanir um stefnu og leiðir í mikilvægum þjóðfélagsmálum – einmitt í anda þess sem Alfred Nóbel stefndi að með því að stofna til verðlaunanna.

Höfundur: Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri á skrifstofu seðlabankastjóra. 

Efnið er byggt á ýmsu efni á netinu um verðlaunahafana og framlag þeirra.

Sjá hér fáeina tengla í tiltölulega einfaldar skýringar:
https://www.nobelprize.org/prizes/economic-sciences/2021/press-release/
https://www.nobelprize.org/prizes/economic-sciences/2021/172821-press-release-swedish/
https://www.nobelprize.org/uploads/2021/10/popular-economicsciencesprize2021-swedish-3.pdf
https://www.svtplay.se/video/33428014/nobel-2021-portratten/nobel-2021-ekonomiprisportrattet-ekonomiprisportrattet?position=98&id=82Do49P


Til baka