logo-for-printing

19. janúar 2015

System Dynamics – Tæki til að greina efnahagsmál

Bygging Seðlabanka Íslands

Málstofa um þetta efni verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, á morgun 20. janúar kl. 15. Á málstofunni munu Rafn Viðar Þorsteinsson, meistaranemi í verkfræði, og Harald Sverdrup, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, fjalla um system dynamics sem tæki til að greina efnahagsmál og sýna dæmi um það hvernig þessi tækni hefur verið notuð við greiningu. System dynamics (ísl. kvik kerfislíkön) er aðferðafræði og stærðfræðileg líkanagerð, sem þróuð var af Jay Forrester, prófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT) upp úr 1950, til að setja upp, skilja og vinna með hegðun flókinna kerfa yfir tímabil. Í gegnum tíðina hafa fyrirtæki eins og GM, DuPont, Stat Oil og British Petroleum notað system dynamics með góðum árangri.

Rafn Viðar mun útskýra aðferðafræðina á bakvið system dynamics, hvernig henni er beitt og hvernig notast er við group system analysis til að afhjúpa undirliggjandi orsakasamband kerfisins. Harald mun síðan kynna dæmi um notkun á system dynamics við gerð hagfræðilegra líkana svæðisbundið og á alþjóðavísu. Hann mun sýna dæmi frá gull-, viðskipta-, afleiðu- og hrávörumarkaði. Sýnt verður hvernig slík líkön eru notuð fyrir hrávörur (olíu, stál, kopar og ál) og hvernig þau tengjast við fjármálakerfið. Harald mun einnig sýna frá þeirri vinnu sem á sér stað fyrir þýska ríkið um þessar mundir, sem er hluti af þróun nýs líkans fyrir þýska þjóðarbúið.

Málstofan fer fram á ensku.

 

Til baka