logo-for-printing

11. nóvember 2020

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 2. til 4. nóvember sl. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 26 aðilum og var svarhlutfallið því 90%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 3,7% á yfirstandandi fjórðungi og tæp 3,8% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Eftir það vænta þeir þess að hún hjaðni en verði áfram yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á þriðja fjórðung næsta árs. Það er meiri verðbólga en þeir bjuggust við í ágústkönnuninni en þá væntu markaðsaðilar þess að hún næði hámarki í tæplega 3% á þriðja fjórðungi þessa árs en tæki þá að hjaðna og yrði í markmiði á öðrum fjórðungi næsta árs. Verðbólguvæntingar til eins, tveggja, fimm og tíu ára eru hins vegar áfram um 2,5% og óbreyttar frá síðustu könnun. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar styrkist á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 158 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans verði áfram 1% fram undir lok ársins 2021 en að þeir hækki eftir það og verði 1,25% eftir tvö ár. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í ágúst sl. en þá væntu þeir þess að vextir myndu lækka um 0,25 prósentur á fjórða fjórðungi þessa árs og yrðu 0,75% fram á þriðja fjórðung næsta árs.

Flestir svarenda, eða tæp 60%, telja að taumhald peningastefnunnar sé hæfilegt um þessar mundir sem er nokkuð hærra hlutfall en í síðustu könnun þegar það var tæp 50%. Á móti fækkar þeim sem telja að taumhaldið sé of laust úr 23% svarenda í 12%. Hlutfall þeirra sem telja að taumhaldið sé of þétt er áfram um 30%.

Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu til skemmri tíma var minni í þessari könnun en í síðustu könnun en var eilítið meiri þegar horft var til tveggja ára. Bil 1. og 3. fjórðungs var aftur á móti álíka breitt. Svör markaðsaðila um væntingar til vaxta lágu einnig á þrengra bili nú en í síðustu könnun að undanskildum væntingum til tveggja ára þar sem dreifing svara reyndist meiri. Þá minnkaði dreifing svara um gengishorfur milli kannana þegar spurt var um gengi eftir eitt ár en jókst lítillega þegar spurt var um gengi eftir tvö ár.

Markaðsaðilar voru að þessu sinni spurðir hverjar þeir teldu vera meginástæður þess að gengi krónunnar hefði lækkað frá því í sumar. Þær ástæður sem þeir nefndu voru að innflæði fjármagns hefði á tímabilinu minnkað vegna erfiðleika í helstu útflutningsgreinum í kjölfar COVID-19-faraldursins. Á sama tíma hefði útflæði aukist vegna sölu erlendra aðila á innlendum fjárfestingareignum og aukinna fjárfestinga lífeyrissjóða erlendis. Til viðbótar hefðu verri efnahagshorfur og aukin óvissa myndað þrýsting á gengi krónunnar. Að lokum hafi horfur um frekari gengislækkun krónunnar myndað hvata fyrir eigendur að gjaldeyri til að fresta því að selja hann fyrir krónur sem hafi viðhaldið þróuninni.

Könnun á væntingum markaðsaðila


Til baka