logo-for-printing

05. júlí 2019

Ársfundur Alþjóðagreiðslubankans

Höfuðstöðvar BIS


Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss (e. Bank for International Settlements - BIS) sem var haldinn 30. júní síðastliðinn. Alþjóðagreiðslubankinn er hlutafélag í eigu sextíu seðlabanka og er vettvangur alþjóðlegs samstarfs seðlabanka og fjármálaeftirlita, þar á meðal Seðlabanka Íslands, auk þess að vera rannsóknarsetur og banki fyrir seðlabanka heimsins.

Á fundinum var lögð fram ársskýrsla BIS sem fjallar um reikninga og starfsemi bankans. Reikningar BIS eru gerðir upp í sérstökum dráttarréttindum (SDR). Hreinn hagnaður bankans á síðasta reikningsári nam 461 milljón SDR. Ákveðið var að hluti hans, eða 136,7 milljónir SDR, greiðist út sem arður til hluthafa bankans. Seðlabanki Íslands á 1.070 hluti í bankanum og fær því greiddan arð sem nemur um 45 milljónum króna á núverandi gengi.

BIS gaf einnig út árlegu efnahagsskýrslu sína um ástandið í heimsbúskapnum og önnur viðfangsefni sem helst snúa að seðlabönkum og eftirlitsstofnunum. Fyrsti kafli skýrslunnar fjallar almennt um efnahagshorfur í heiminum og áskoranir í stefnumörkun. Agustín Carstens, framkvæmdastjóri Alþjóðagreiðslubankans, flutti ræðu um þessi efni á ársfundinum. Hann benti á að nú þegar væri farið að hægja á hagvexti og að hagkerfi heimsins stæðu frammi fyrir ýmsum öðrum áskorunum. Því þyrfti stefnumótun á fleiri sviðum en peningastefnu að spila stærra hlutverk, með langtímamarkmið um efnahagsstöðugleika að leiðarljósi. Samspil peningastefnu, ríkisfjármála, fjármálastöðugleika og kerfisumbóta þyrfti að verða betra.

Annar kafli fjallar um umgjörð peningastefnu í nýmarkaðsríkjum. Mörg þessara ríkja eru með verðbólgumarkmið en beita einnig inngripum á gjaldeyrismarkaði, þjóðhagsvarúðartækjum og í sumum tilfellum fjárstreymistækjum til að takast á við áskoranir vegna verðstöðugleika og fjármálastöðugleika sem fylgja óhóflegu fjármagnsflæði og sveiflukenndu gengi. Þriðji kafli skýrslunnar fjallar um innreið stórra tæknifyrirtækja í fjármálageirann og mögulegan ávinning sem af því getur hlotist en einnig um þá áhættu sem það getur skapað. Fjallað er um hvernig regluverk gæti þróast í þessu samhengi.

Amit Seru, prófessor í fjármálum við Stanford-háskóla, flutti fyrirlestur til minningar um Andrew Crockett, fyrrverandi framkvæmdastjóra BIS. Hann fjallaði þar um regluverk á fjármálamörkuðum þegar vægi fjártækni skuggabanka í lánakerfum heimsins hefur aukist en þeir falla utan hins hefðbundna regluverks. Mikilvægt er að auka þekkingu og skilning á þessari starfsemi og á ársfundinum var almennt mikið fjallað um fjártækni, greiðslumiðlun og sýndargjaldmiðla.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur frá því í júní 2017 verið formaður hóps seðlabankastjóra frá litlum og opnum þjóðarbúum með sjálfstæðan gjaldmiðil sem hittist reglulega á vettvangi BIS. Alls eiga tólf seðlabankastjórar aðild að hópnum. Hann stýrði í síðasta sinn fundi í hópum í tengslum við ársfundinn. Mario Marcel, seðlabankastjóri í Chile, mun taka við formennskunni.



Ræða Agustín Carstens, framkvæmdastjóra BIS


Ársskýrsla BIS 2019

Árleg efnahagsskýrsla BIS 2019
 
Fyrirlestur Amit Seru um aukið vægi fjártækni skuggabanka í lánakerfum


Nr. 15/2019
5. júlí 2019


Til baka

Myndir með frétt

Hér má sjá mynd af Má Guðmundssyni og Mario Marcel sem tekin var í lok fundarins.