logo-for-printing

19.10.2016

Nýjar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt nemur heimildin 15 ma.kr. sem mun gilda til ársloka. Frá miðju síðasta ári til loka september í ár hefur fyrrgreindum aðilum verið veitt heimild til erlendrar fjárfestingar fyrir samtals 80 ma.kr. Á þessu ári nema veittar heimildir samtals 85 ma.kr. að meðtalinni þeirri sem nú er veitt.
Gjaldeyrisinnstreymi það sem af er þessu ári, ásamt minni óvissu um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af aflandskrónaútboði og nauðasamningum slitabúa á grundvelli stöðugleikaskilyrða, hefur skapað svigrúm til áframhaldandi fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Að þessu sinni er undanþágan til erlendra fjárfestinga lægri fjárhæð en áður sem helgast af varúðarsjónarmiðum vegna nýsamþykktra breytinga á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál sem fela í sér veigamikil skref í losun fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki. Er það í samræmi við fyrri yfirlýsingar um að lífeyrissjóðunum yrðu veittar ríflegar heimildir í aðdraganda losunar fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki en meðan fyrstu skref til almennrar losunar væru stigin myndu þær dragast saman. Í þessu sambandi er einnig vísað til greiningar Seðlabanka Íslands frá 19. ágúst sl. á mögulegu útflæði við losun fjármagnshafta.

Sem fyrr eru rökin fyrir undanþágunni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að gera lífeyrissjóðunum kleift að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum og minnka uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf þeirra þegar fjármagnshöft verða endanlega losuð. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta. Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni.
Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna, sem fær 83% vægi, og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum, sem fær 17% vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr síðustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, þ.e. tölum frá árinu 2015. Undanþágan mun miðast við að heimild hvers aðila gildi til 31. desember 2016 og dreifist með jöfnum hætti á mánuðina október til desember.

Lífeyrissjóðum, sem starfsleyfi hafa samkvæmt V. eða XI. kafla laga nr. 129/1997, og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar, sem hlotið hafa staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 10. gr. laga. nr. 129/1997, og hafa áhuga á að sækja um undanþágu frá lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál til framangreindra viðskipta, er bent á að senda inn umsókn til Seðlabanka Íslands. Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu má finna á eftirfarandi vefslóð: Umsóknareyðublað

Umsóknir skulu berast Seðlabankanum bréflega á eftirfarandi heimilisfang:

Seðlabanki Íslands
b.t. gjaldeyriseftirlits
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík


Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Nr. 26/2016
19. október 2016

    

Til baka