logo-for-printing

21. júlí 2016

Íris Guðrún Ragnarsdóttir ráðin starfsmannastjóri Seðlabanka Íslands

Íris Guðrún Ragnarsdóttir hefur verið ráðin sem starfsmannastjóri Seðlabanka Íslands og mun gegna stöðu forstöðumanns starfsmannaþjónustu á sviði rekstrar og starfsmannamála hjá bankanum.

Starfsmannastjóri Seðlabankans gegnir lykilhlutverki við mótun fyrirtækjamenningar bankans og þróun mannauðs. Hlutverk starfsmannaþjónustu er að framfylgja og þróa áfram starfsmannastefnu bankans ásamt öðrum þeim stefnum er varða starfsmannamál, s.s. fræðslustefnu, heilsustefnu, jafnréttisstefnu, samgöngustefnu og öryggisstefnu. Starfsmannaþjónustan er einnig ráðgefandi aðili fyrir bankastjóra og framkvæmdastjóra vegna starfsmannamála. Einnig annast starfsmannaþjónustan framkvæmd, eftirlit og utanumhald um launakeyrslu bankans, sem og áætlanagerð og greiningar vegna launa- og starfsmannahalds o.fl.

Íris Guðrún er með M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun frá Copenhagen Business School og Cand. Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál. Hún er með yfir tíu ára reynslu úr fjármálageiranum og hefur þar af unnið við mannauðsstjórnun í rúmlega sjö ár, nú síðast sem liðsstjóri starfsmannaþjónustu Arion banka og mannauðsstjóri. Í störfum sínum hjá Arion hefur hún leitt og komið að mörgum viðamiklum verkefnum, m.a. innleiðingu frammistöðumats og endurgjafasamtala, þróun og utanumhald um jafnlaunagreiningu, mótun stefnu gegn einelti og kynferðislegri áreitni, innleiðingu árangursmælikvarða, þátttöku í innleiðingu straumlínustjórnunar og mótun þjónustustefnu viðskiptabankasviðs. Þá hefur Íris Guðrún einnig sinnt ráðgjöf og stuðningi við stjórnendur varðandi ráðningar, samningagerð, launamál, starfsþróun, fræðslu, skipulagsbreytingar og áætlanagerð um mannaflaþörf. Í tengslum við þau viðfangsefni hefur hún fylgt eftir vinnustaðagreiningum.
Til baka