logo-for-printing

18. janúar 2016

Innlendur gjaldeyrismarkaður og gjaldeyrisforði 2015

Bygging Seðlabanka Íslands

Á árinu 2015 styrktist gengi krónunnar um 7,9%, velta á gjaldeyrismarkaði jókst um 85% og var hlutur Seðlabankans í veltunni 55%. Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 123 ma.kr. og var í árslok 653 ma.kr. Forðinn jókst mest vegna hreinna gjaldeyriskaupa Seðlabankans um sem nemur 272 ma.kr. á árinu en á móti lækkaði forðinn m.a. vegna uppkaupa ríkissjóðs á eigin bréfum í erlendum gjaldmiðli og fyrirfram greiðslu Seðlabankans á AGS láni.

Fréttin í heild með töflu um gjaldeyrismarkað og gjaldeyrisforða: Innlendur gjaldeyrismarkaður og gjaldeyrisforði 2015_18jan2015.pdf

Gjaldeyrismarkaður árið 2015
Á nýliðnu ári fylgdi Seðlabankinn áfram þeirri stefnu sem peninga-stefnunefnd kynnti í maí 2013 um virkari inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði. Öll inngrip Seðlabankans voru á sama veg, þ.e. Seðlabankinn keypti gjaldeyri af viðskiptavökum. Bankinn keypti rúmlega tvöfalt meira á árinu 2015 en 2014.

Alls námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði 272,4 ma.kr. á árinu 2015, sem nema um 12,5% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins og var aukningin um 140% á milli ára. Til samanburðar námu gjaldeyriskaup á árinu 2014 um 5,6% af landsframleiðslu þess árs. Heildarvelta á gjaldeyrismarkaðnum jókst um 85% á milli ára og nam 492,7 ma.kr. árið 2015. Hlutur Seðlabankans í heildarveltu nam um 55% árið 2015 en um 43% árið 2014.

Markmið gjaldeyriskaupa í aðdraganda losunar hafta er annars vegar að stækka gjaldeyrisforða og auka þann hluta hans sem ekki er fjármagnaður með erlendum lánum og hins vegar að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. Lítil verðbólga og gjaldeyrisinnstreymi gerðu svo umfangsmikil kaup möguleg, enda styrktist gengið um 7,9% á árinu þrátt fyrir umfangsmikil kaup. Gjaldeyrisviðskipti bankans drógu úr skammtímasveiflum gengis og komu í veg fyrir meiri styrkingu en þó varð. Gengi krónu gagnvart evru var skráð í janúar 154,3 en lægsta gildi hennar var skráð 140,3 í desember. Mismunur á hæsta og lægsta gildi krónu gagnvart evru var um 9,9% en til samanburðar var munurinn 4,9% árið 2014. Daglegt flökt gengis krónu gagnvart evru var 3,1% á ársgrunni.
Auk inngripa á gjaldeyrismarkaðnum héldu reglubundin gjaldeyriskaup Seðlabankans áfram í óbreyttri mynd frá fyrra ári . Kaupin námu 6 milljónum evra í viku hverri og áttu sér stað á fyrirfram tilkynntum tíma. Samtals námu reglubundin kaup um 46,2 ma.kr. árið 2015 sem er um 17% af heildarkaupum ársins.

Mest keypti Seðlabankinn af gjaldeyri yfir sumarmánuðina. Í júní, júlí og ágúst námu gjaldeyriskaup bankans samtals um 115 ma.kr. eða um 42% af heildarkaupum ársins. Í ágústmánuði einum keypti bankinn gjaldeyri fyrir um 47 ma.kr. Erlendir fjárfestar höfðu nokkur áhrif á gjaldeyrismarkaðinn á árinu með nýfjárfestingu í ríkisskuldabréfum. Tilkynnt nýfjárfesting í ríkisskuldabréfum nam um 50 ma.kr. sem samsvarar um 20% af gjaldeyriskaupum Seðlabankans á árinu og 2,3% af VLF.

Gjaldeyrisforði
Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 123 ma.kr. (951 milljónir USD) á árinu 2015 og var í árslok 653 ma.kr. (5.042 milljónir USD). Gjaldeyrisforði Seðlabankans mældist í lok árs 33% af vergri landsframleiðslu, 35% af peningamagni og sparifé (M3) og dugði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í 9 mánuði.

Helstu hreyfingar til hækkunar gjaldeyrisforða á árinu voru hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði sem námu 272 ma.kr. (1.872 milljónum EUR). Endurheimtur ESÍ í erlendum gjaldmiðli árið 2015 juku forðann um 22 ma.kr. Arion banki greiddi inn á víkjandi lán frá ríkissjóði að andvirði um 20 ma.kr. og Íslandsbanki einnig að andvirði um 20 ma.kr. auk þess sem Íslandsbanki gerði upp gjaldmiðlaskiptasamning sem jók forða um 11 ma.kr.
Helstu hreyfingar til lækkunar forða á árinu voru vegna uppkaupa ríkissjóðs á eigin bréfum í erlendum gjaldmiðli að andvirði 67 ma.kr. (497 milljónir USD). Seðlabanki Íslands ákvað að greiða fyrirfram eftirstöðvar láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, jafnvirði 42 ma.kr. (237 milljónir SDR). Fyrirframgreiðslur ríkissjóðs á skuldum í erlendum gjaldmiðli námu 36 ma.kr., 28 ma.kr. (192 milljónum EUR) vegna skuldabréfa í sambandi við Avens og 8 ma.kr. (204 milljónum PLN) vegna láns frá Póllandi. Þá námu gjaldeyrisviðskipti vegna lokauppgjörs innstæðutrygginga vegna Icesave 30 ma.kr.
Í lok árs 2015 var gjaldeyrisforði að frádregnum skuldum Seðlabankans og ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðli 313 ma.kr. Til samanburðar var forðinn þannig reiknaður 57 ma.kr. í lok árs 2014 og hefur því aukist um 256 ma.kr. á árinu 2015. Til viðbótar við gjaldeyrisforða eiga Seðlabankinn og ríkissjóður eignir í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 66 ma.kr. Gjaldeyrisjöfnuður Seðlabankans, þ.e. mismunur milli allra eigna og skulda Seðlabankans í erlendum gjaldmiðli, var um 370 ma.kr. en hann jókst um 230 ma.kr. á árinu 2015.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Frétt nr. 2/2016
18. janúar 2016

 

Töfluna má sjá hér:

Gjaldeyrismarkaður og gjaldeyrisforði

2012

2013

2014

2015

Gengi krónunnar (breyting frá upphafi til loka árs)

%

-6,6

10,7

1,7

7,9

Daglegt gengisflökt, ársgrunnur

%

5,4

6,3

3,2

3,1

Velta á gjaldeyrismarkaði

ma.kr.

167

166

267

493

hlutfall SÍ

%

13,8

11,5

42,8

55,3

Kaup SÍ á gjaldeyrismarkaði

ma.kr.

20

10

113

272

Sala SÍ á gjaldeyrismarkaði

ma.kr.

3

9

1

0

Hrein gjaldeyriskaup SÍ

ma.kr.

17

1

111

272

Gjaldeyrisforði, milljónir Bandaríkjadala

m.USD

4.182

4.228

4.178

5.042

Gjaldeyrisforði í ma.kr.

ma.kr.

540

487

530

653

Gjaldeyrisforði að frádregnum skuldum SÍ og ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðli

ma.kr.

-29

-28

57

313

Gjaldeyrisjöfnuður SÍ, mismunur eigna og skulda í erlendum gjaldmiðli

ma.kr.

112

61

138

370

Gjaldeyrisforði sem hlutfall af VLF

%

33

29

28

33

Gjaldeyrisforði, mánuðir í innflutningi [1]

Mánuðir

13

11

7

9

[1] Athuga skal að frá og með 2014 er horft til bæði innflutnings á vöru og þjónustu en fyrri ár var aðeins horft til vöruinnflutnings og skýrir það lægri tölu 2014 miðað við 2013, þótt gjaldeyrisforðinn hafi verið hærri. 

 
Til baka