logo-for-printing

19. desember 2014

Fyrirframgreiðsla á AGS láni

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að greiða fyrirfram hluta lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sem fengin voru í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda en sú áætlun var studd af AGS. Að greiðslunni lokinni hafa stjórnvöld endurgreitt 83% af láninu frá AGS. Um er að ræða endurgreiðslur að jafnvirði um 50 ma.kr. (275 milljónir SDR) sem voru upphaflega á gjalddaga á árinu 2015. Heildarfjárhæð lánsins frá AGS nam um 253 ma.kr. (1.400 milljónum SDR). Eftirstöðvar lánsins eftir þessa fyrirframgreiðslu eru um 43 ma.kr. (237 milljónir SDR).

Ákvörðunin um fyrirframgreiðslu er tekin í tengslum við skuldastýringu sem miðar að því að greiða niður lán til skemmri tíma. Við ákvörðunina er tekið mið af tiltölulega rúmri lausafjárstöðu Seðlabanka Íslands, meðal annars vegna inngripa á innlendum gjaldeyrismarkaði. Endurgreiðslan hefur áhrif á skuldir Seðlabanka Íslands en ekki á skuldir ríkissjóðs vegna þess að AGS-lánið var tekið af Seðlabankanum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans dregst saman sem nemur þessari fjárhæð. Stærð forðans í lok nóvember nam um 566 ma.kr.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

 

Nr. 45/2014
19. desember 2014

 

Til baka