logo-for-printing

21. maí 2014

Yfirlýsing peningastefnunefndar 21. maí 2014

Peningastefnunefnd 2012
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. 
 
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans verður hagvöxtur á þessu ári 3,7%, eða um 1 prósentu meiri en í síðustu spá. Spáð er enn meiri hagvexti á næsta ári. Batinn á vinnumarkaði heldur einnig áfram. Þróttmikill vöxtur leiðir til þess að slakinn hverfur fyrr úr þjóðarbúskapnum en áður var gert ráð fyrir og framleiðsluspenna myndast sem nær hámarki árið 2016. 
 
Þá vekur það áhyggjur að því er spáð að þjóðhagslegur sparnaður minnki nokkuð og viðskiptaafgangur snúist í halla undir lok spátímabilsins.
 
Verðbólga hefur verið við markmið síðustu mánuði og því spáð að svo verði fram á næsta ár þegar hún eykst vegna framleiðsluspennu. Verðbólguvæntingar til skamms tíma hafa lækkað að undanförnu í takt við hjöðnun verðbólgu en verðbólguvæntingar til langs tíma eru enn nokkuð yfir markmiði. 
 
Í spá bankans er gengið út frá því að niðurstöður kjarasamninga sem gerðir voru fyrir áramót muni gilda fyrir meginhluta vinnumarkaðarins og að gerðir verði kjarasamningar á svipuðum nótum til lengri tíma á fyrri hluta næsta árs. Nokkurs óróa gætir þó á vinnumarkaði sem veldur óvissu um launaþróun.
 
Hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntinga felur í sér að raunvextir bankans hafa hækkað þó nokkuð það sem af er þessu ári. Slakinn í taumhaldi peningastefnunnar er því líklega horfinn. Óvissa er um hverjir séu jafnvægisvextir Seðlabankans, en líklegt er að aukinn vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum muni að öðru óbreyttu krefjast þess að raunvextir Seðlabankans hækki frekar. Þörfin fyrir aukið peningalegt aðhald yrði þó minni eftir því sem aðgerðir sem leggjast á sveif með peningastefnunni eru meiri, þ.á m. aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum. Það myndi einnig stuðla að auknum þjóðhagslegum sparnaði og hagstæðari viðskiptajöfnuði. 
 
Peningastefnan hefur náð árangri að undanförnu. Verðbólga hefur hjaðnað að markmiði og slakinn í þjóðarbúskapnum er að hverfa. Sveiflur í verðbólgu og hagvexti hafa einnig minnkað. Langtímaverðbólguvæntingar eru þó enn nokkuð yfir markmiði sem skapar óvissu um varanleika þessa árangurs. Það fer eftir framvindu verðbólgu og verðbólguvæntinga hvort tilefni verður til að breyta nafnvöxtum bankans á næstunni.

Nr. 15/2014
21. maí 2014
Vextir Seðlabanka Íslands verða samkvæmt þessu sem hér segir:

 

Daglán: 7,0%
7 daga veðlán: 6,0%
Viðskiptareikningar: 5,0%
7 daga bundin innlán: 5,25%

Til baka