logo-for-printing

15. maí 2014

Úthlutun styrkja úr menningarsjóði 2014

Árni Kristjánsson og Helga Rut Guðmundsdóttir styrkþegar menningarsjóðs 2014
Í dag fór fram þriðja úthlutun styrkja úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Seðlabanki Íslands stofnaði til menningarstyrksins í nafni Jóhannesar í tilefni af 50 ára afmæli Seðlabankans árið 2011 og þess að Þjóðhátíðarsjóður hafði þá lokið störfum.

Tilgangurinn með styrknum er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf.

Alls bárust 27 styrkumsóknir. Tveir styrkir voru veittir. Árni Kristjánsson hlaut einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Völvur – leikhandrit og Helga Rut Guðmundsdóttir hlaut einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Vísnagull – Vísur og þulur fyrir börn í fangi.

Árni Kristjánsson sótti um styrk í sjóðinn til að skrifa leikhandritið Völvur fyrir atvinnuleikhóp. Árni hefur starfað sem leikstjóri, leikritaskáld og leiklistarkennari en hefur nú snúið sér að ritstörfum og býr í Berlín. Verkið er byggt á Völuspá en aðlagað yngri kynslóð, gamanleikur sem breytist í grátt gaman og fjallar um atburðina sem leiddu til þess að Völuspá var fram sögð. Verkið verður svokallað farandverk og er ætlunin að ferðast með það á milli skóla og leikhúsa til að kynna ungu kynslóðinni kvæðið. Faðir Árna, Kristján Jóhann Jónsson, tók við styrknum fyrir hönd sonarins.

Verkefni Helgu Rutar Guðmundsdóttur, Vísnagull – Vísur og þulur fyrir börn í fangi, er bók með samantekt á íslenskum þjóðararfi og barnamenningu úr munnlegri geymd. Helga Rut hefur um árabil haldið tónlistarnámskeið fyrir foreldra með ungabörn, tveggja ára og yngri, og hefur efnið verið notað á þeim námskeiðum. Nú er komið að því að koma menningararfinum í hendur yngri kynslóða og gefa þetta dýrmæta efni út í vandaðri myndskreyttri bók.

Formaður úthlutunarnefndar er Hildur Traustadóttir, fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, en aðrir í nefndinni eru Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Ólöf Nordal, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, flutti ávarp við athöfnina í dag og afhenti styrkina. Við það tækifæri sagði hún að það væri áberandi hve fjölbreytt verkefni væru á bak við umsóknirnar og bæru þau vott um ríka sköpunargleði og frumkvæði umsækjenda. Á þeim verkefnum sem hljóta styrk í ár mætti glöggt sjá að enn væri gömul tíð og saga okkar Íslendinga innblástur og að á skapandi hátt væri unnt að færa hana á nútímalegra plan fyrir komandi kynslóðir.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

Til baka