logo-for-printing

24. janúar 2014

Standard & Poor‘s: Lánshæfishorfum Ríkissjóðs Íslands breytt í stöðugar úr neikvæðum

Í dag birti lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor‘s skýrslu þar sem fram kemur að horfum um lánshæfi Ríkissjóðs Íslands hafi verið breytt í stöðugar úr neikvæðum vegna þess að dregið hefur úr áhættu sem tengist ríkisfjármálum. Jafnframt kemur fram að lánshæfiseinkunnirnar BBB-/A-3 eru staðfestar.

Í skýrslunni kemur fram að Standard & Poor‘s (S&P) áætlar að heildarkostnaður Ríkissjóðs Íslands vegna nýkynntra skuldaleiðréttingaraðgerða verði um 6% af vergri landsframleiðslu (VLF) á næstu fjórum árum. S&P reiknar með því að aðgerðirnar verði fjármagnaðar með skattahækkunum frekar en hallarekstri. Af þessu leiðir að horfum fyrir lánshæfiseinkunnina er breytt í stöðugar úr neikvæðum og lánshæfiseinkunnir fyrir skuldbindingar Ríkissjóðs Íslands staðfestar. Lánshæfiseinkunnirnar fyrir erlendar og innlendar skuldbindingar eru BBB-/A-3. Stöðugar horfur endurspegla að S&P telur vera jafnvægi milli áhættuþátta, það er áframhaldandi efnahagsbata og óvissu vegna losunar fjármagnshafta.

Hér má nálgast skýrslu S&P í heild sinni.

Til baka