logo-for-printing

28. október 2011

Upptökur frá ráðstefnunni aðgengilegar

Mynd- og hljóðupptökur frá ráðstefnu íslenskra stjórnvalda og AGS um lærdómana af efnahagskreppunni og verkefni framundan eru nú aðgengilegar.

Upptökur og annað efni tengt ráðstefnunni má nálgast hér: Vefútsending af vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ennfremur eru á þessu svæði ýmis skjöl tengd umfjöllun á ráðstefnunni.

 

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna - sbr. frétt sem birt var 3. þessa mánaðar:

 

03. október 2011
Íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um lærdóma af efnahagskreppunni og verkefni framundan

 

Ísland var eitt af fyrstu löndunum sem alþjóðlega fjármálakreppan 2008 skall á af fullum þunga. Nú, þremur árum síðar, þegar hagkerfið er á batavegi, munu íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn standa sameiginlega fyrir ráðstefnu með þekktum fyrirlesurum í Reykjavík 27. október 2011 til að meta árangur Íslands og fjalla um þau viðfangsefni sem bíða úrlausnar.

„Íslendingar hafa sýnt staðfestu og seiglu við að hrinda í framkvæmd flóknum stefnumálum við erfiðar aðstæður,“ sagði Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tilefni af ráðstefnunni. „Allir hlutaðeigandi geta dregið lærdóm af þessari reynslu, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Þess vegna er mér sérstök ánægja að sjóðurinn skuli standa að þessari ráðstefnu.“ Hún sagði ennfremur: „Hagkerfi heimsins eru enn að takast á við afleiðingar fjármálakreppunnar árið 2008 og ég er sannfærð um að sá hópur leiðandi sérfræðinga sem saman kemur í Reykjavík á eftir að hjálpa okkur að draga ályktanir sem að gagni koma fyrir stjórnvöld ríkja, hagfræðinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

„Efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur skilað miklum árangri við að koma á stöðugleika í íslenskum þjóðarbúskap og stuðla að efnahagsbata,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri og bætti við: „Hér kunna að vera athyglisverðir lærdómar fyrir alþjóðasamfélagið.“

„Við hlökkum til að ræða opinskátt um hið „algera fárviðri“ sem skall á Íslandi árið 2008, um núverandi stöðu og þá lærdóma sem draga má af reynslu Íslendinga. Það gleður mig að geta sagt að gagnvirk samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stuðlaði að því að Ísland hélt velli sem norrænt velferðarríki,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Á ráðstefnunni Ísland á batavegi: Lærdómar og verkefni framundan koma saman íslenskir og erlendir ráðamenn, fræðimenn og fulltrúar félagasamtaka. Meðal helstu ræðumanna verða nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman og hinir kunnu alþjóðahagfræðingar Willem Buiter og Simon Johnson.

Ráðstefnan skiptist í þrjá hluta. Þátttakendur munu leggja mat á þau úrræði sem notuð voru til að bregðast við kreppunni, svo sem beitingu gjaldeyrishafta og endurskipulagningu bankakerfisins. Þá verður fjallað um það markmið Íslands að standa vörð um velferðarkerfið á sama tíma og ráðist var í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Loks verður rætt hvernig þessi stefnumál voru útfærð í efnahagsáætlun stjórnvalda sem unnin var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lauk í ágúst síðastliðnum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun setja ráðstefnuna og Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra flytur upphafsávarp. Steingrímur Sigfússon fjármálaráðherra mun einnig ávarpa ráðstefnuna. Henni lýkur svo með pallborðsumræðum með þátttöku Nemat Shafik, Más Guðmundssonar og hagfræðinganna Paul Krugman, Simon Johnson, Martin Wolf og Gylfa Zoëga.

Dagskrá ráðstefnunnar, ásamt frekari upplýsingum má finna á vefsíðu ráðstefnunnar.

Til baka