logo-for-printing

19. september 2011

Þorgeir Eyjólfsson ráðinn verkefnastjóri við losun gjaldeyrishafta

Þorgeir Eyjólfsson hefur verið ráðinn tímabundið sem verkefnastjóri í Seðlabanka Íslands við losun gjaldeyrishafta. Hann mun hafa umsjón með framkvæmd áætlunar um losun haftanna í samstarfi við tiltekin svið og starfsmenn Seðlabankans, meta umsóknir um nýtingu á fjárfestingargengi samkvæmt svokallaðri 50/50 leið, eiga í samskiptum við þátttakendur í útboðum og veita ráðgjöf um framkvæmd útboða og varðandi undanþágur og eftirlit til að koma í veg fyrir sniðgöngu.

Þorgeir hefur mikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann gegndi m.a. starfi forstjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá 1984 til 2009 og var framkvæmdastjóri eignastýringar MP Banka frá október 2009 til maí 2011. Þá hefur Þorgeir víðtæka reynslu af setu í stjórnum ýmissa innlendra og erlendra fyrirtækja, stofnana og lífeyrissjóða og sat m.a. í tæpan áratug í stjórn Kauphallarnefndar sem var ráðgefandi nefnd um innleiðingu reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins á fjármálamarkaði. Þorgeir hlaut AMP-gráðu (Advanced Management Program) frá Harvard Business School árið 1998 og er einnig með MIF-gráðu frá Háskólanum á Bifröst í alþjóða banka- og fjármálum.

Til baka