logo-for-printing

01. september 2011

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2011

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2011 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 58 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi samanborið við 45,8 ma.kr. óhagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 14,6 ma.kr. og 15,9 ma.kr. á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 88,5 ma.kr.

Halla á þáttatekjum má eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 44,4 ma.kr. og tekjur 7,5 ma.kr. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 51,5 ma.kr. og viðskiptajöfnuður 21,1 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.358 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 14.303 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.945 ma.kr. og lækka nettóskuldir um 32 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.470 ma.kr. og skuldir 3.354 ma.kr. og var hrein staða þá neikvæð um 885 ma.kr.

Erlend verðbréfaeign
Erlend verðbréfaeign innlendra aðila hefur verið endurmetin með hliðsjón af bráðabirgða niðurstöðum úr árlegri könnun á verðbréfafjárfestingu á milli landa (Coordinated Portfolio Investment Survey). Endanleg niðurstaða verður birt á vef bankans í september . Könnunin hefur verið framkvæmd að frumkvæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og er unnin af starfsmönnum Seðlabanka Íslands. Hún er framkvæmd í yfir 70 löndum en niðurstöður úr henni verða birtar á vef sjóðsins seinna á árinu .

Bein erlend fjárfesting
Flæðistærðir lánaviðskipta frá fyrsta ársfjórðungi 2010 til fyrsta ársfjórðungs 2011 hafa verið endurskoðaðar með hliðsjón af endurskipulagningu lánakrafna og lánaskulda í beinni erlendri fjárfestingu á tímabilinu. Endurskoðaðar tölur um beina fjárfestingu fyrir árið 2010 skipt niður á lönd og atvinnugreinar verða birtar 8. september nk .

Sjá fréttina í heild í pdf-skjali: Greiðslujöfnuður við útlönd Q2 2011 (pdf)

Nr.25/2011
1. september 2011

Til baka