logo-for-printing

20. ágúst 2011

Seðlar, myntir, opinber mynd Jóns Sigurðssonar, kvikmyndasýning og gítarleikur á Menningarnótt í Seðlabankanum

Í tilefni af Menningarnótt í Reykjavík laugardaginn 20. ágúst 2011 verður Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns á Kalkofnsvegi 1 opið frá kl. 14:00 til 17:00. Þar má sjá yfirlitssýningu af íslenskum seðlum og mynt og erlenda peninga frá fyrri öldum, auk þess sem þar er að finna kynningarefni á margmiðlunarformi um starfsemi seðlabanka og skylda starfsemi.

Athygli er vakin á sýningunni OPINBER MYND en á henni má sjá ýmislegt efni sem tengist Jóni Sigurðssyni forseta svo sem peningaseðla, tilefnismynt, frímerki og aðra opinbera útgáfu með mynd Jóns Sigurðssonar ásamt minjagripum og öðrum varningi. Sýningin er samstarfsverkefni Myntsafns Seðlabanka og Þjóðminjasafns, Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar, Þjóðminjasafns Íslands og Myntsafnarafélags Íslands og er sett upp í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar og 50 ára afmæli Seðlabankans.

Jafnframt verður sýnd upptaka frá 50 ára afmælishátíð Seðlabankans 7. apríl síðastliðinn, auk þess sem höggmyndir verða til sýnis í útigarði bankans.

Rúnar Þórisson leikur á klassískan gítar frá kl. 14:00 til 14:30. Rúnar hefur lokið einleikara- og kennaraprófi í gítarleik, stundaði framhaldsnám í klassískum gítarleik í Svíþjóð og lokið prófi frá tónvísindadeild Lundarháskóla 1993. Hann hefur stundað gítarkennslu, samið tónlist og gefið út og tekið þátt í margháttuðum verkefnum á sviði tónlistar síðustu áratugi.

Kaffi á könnunni.

Aðgangur að safninu er um aðaldyr bankans frá Arnarhóli.

Dagskrá Menningarnætur er að finna á: www.menningarnott.is

Nánari upplýsingar um söfn Seðlabanka Íslands er að finna hér: Söfn Seðlabanka Íslands.

Til baka