logo-for-printing

04. ágúst 2011

Rannsóknarritgerð um stífni nafnlauna og launaákvarðanir

Í röð rannsóknarritgerða Seðlabanka Íslands er komin út rannsóknarritgerð nr. 55, „Evidence of nominal wage rigidity and wage setting from Icelandic microdata“, eftir Jósef Sigurðsson og Rannveigu Sigurðardóttur.

Í ritgerðinni er notast við ítarleg gögn um laun á íslenskum vinnumarkaði til þess að varpa ljósi á launaákvarðanir og leggja mat á stífni nafnlauna (e. nominal wage rigidity). Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 10,8% launa breytast að jafnaði í hverjum mánuði. Lengd launasamninga, þ.e. sá tími sem líður milli launabreytinga, er að meðaltali 8,9 mánuðir. Enn fremur sýna niðurstöður rannsóknarinnar að launaákvarðanir fylgja greinilegu mynstri; flestir einstakir launasamningar eru til 12 mánaða og helmingur launabreytinga á sér stað í janúar. Fátítt er að nafnlaun lækki, en aðeins um 0,5% mánaðarlegra launabreytinga eru nafnlaunalækkanir. Hins vegar sýna niðurstöðurnar að launalækkanir eru tengdar hagsveiflunni (e. state-dependent) þar sem bæði tíðni og stærð launalækkana hefur jákvæða fylgni við atvinnuleysi. Niðurstöður benda því til tregbreytanleika nafnlauna niður á við (e. downward nominal wage rigidity) en að hann sé þó ekki algjör þannig að launalækkanir hafi átt þátt í aðlögun á íslenskum vinnumarkaði í kjölfar áfalla.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að launaákvörðunum á íslenskum vinnumarkaði megi lýsa með hagfræðilegu líkani þar sem launaákvarðanir eru háðar tíma (e. time-dependent) og launabreytingar eiga sér stað með reglubundnu millibili.


Ritgerðina má nálgast hér.  (Síða fyrir rannsóknarritgerðir)

Bein tenging í ritgerðina sjálfa er hér.

Til baka