logo-for-printing

11. júlí 2011

Ný rannsóknarritgerð um verðákvarðanir íslenskra fyrirtækja

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 54, „Price setting in turbulent times: Survey evidence from Icelandic firms“, eftir Þorvarð Tjörva Ólafsson, Ásgerði Pétursdóttur og Karen Á. Vignisdóttur.

Í ritgerðinni eru kynntar niðurstöður könnunar á verðákvörðunum íslenskra fyrirtækja, þær settar í alþjóðlegt samhengi og dregnar ályktanir fyrir framkvæmd peningastefnunnar. Ritgerðin leitast við að leggja tvennt af mörkum til þeirra umfangsmiklu rannsókna sem gerðar hafa verið á verðákvörðunum fyrirtækja og tengslum þeirra við verðbólguþróun, miðlunarferli peningastefnunnar og hagsveifluna almennt. Annars vegar eru verðákvarðanir fyrirtækja skoðaðar við skilyrði meiri efnahagslegs óstöðugleika en áður hefur verið gert meðal þróaðra ríkja. Hins vegar er sambandið á milli gengisbreytinga og verðákvarðana fyrirtækja sérstaklega skoðað út frá flokkun fyrirtækja eftir því hversu viðkvæm þau eru fyrir gengisbreytingum. Brugðið er upp mynd af krefjandi aðstæðum fyrir sjálfstæða peningastefnu á Íslandi sem glímir við veruleg og ósamhverf áhrif gengisbreytinga á verðlag, umfangsmikla verðtryggingu meðal fyrirtækja í byggingariðnaði, fjármálageiranum og ýmissi þjónustu, og almennt takmarkað traust á getu peningastefnunnar til að tryggja verðlagsstöðugleika, en allt leggst þetta á eitt til að gera verðbólgu erfiðari viðureignar og draga úr áhrifamætti peningastefnunnar.

Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Working papers

Til baka